03.12.1984
Efri deild: 22. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

189. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegur forseti. Hv. 5. landsk. þm. talaði um það að verslunin blómstraði meira en áður í sögu þjóðarinnar og þá sérstaklega hér í Reykjavík og því ætti að tvöfalda þennan skatt sem hér er til umræðu. Síðan vitnaði hv. þm. í orð mín um verslun og þjónustu, að hún skilaði ekki því sem henni bæri til samfélagsins.

Orðin sem hv. þm. er eflaust með í huga eru þau sem ég lét frá mér fara eftir ráðstafanir ríkisstj. Þau voru á þá leið að ráðstafanirnar, sem ríkisstj. var þá að gera, hefðu ekki náð til almennings. Og það er dálítill munur á því að ráðstafanir opinberra aðila nái ekki til almennings eða að verslun og þjónusta skili ekki því sem þeim ber af ágóða eða veltu sinni til opinberra aðila. Það var undirstrikað að þetta ætti sérstaklega við Reykvíkinga. Þá vil ég segja að Reykvíkingar eru hvorki þjófar né þeir bandittar sem gefið er í skyn með þessum orðum.

Ég vil líka undirstrika að það er rétt að ég sem fjmrh. gerði tillögur um að létta sköttum af bankakerfinu og létta sköttum sérstaklega af almenningi. Ég reikna með að hv. þm. hafi þá átt við ferðagjaldeyrinn á sínum tíma. En sköttum er létt af bankakerfinu, hvort sem það er ferðagjaldeyrir eða aðrir skattar, til þess að létta á þjóðfélaginu í heild. Bankarnir hafa þá meira til ráðstöfunar og geta þá veitt sínum viðskiptavinum meiri þjónustu. Það er og verður stefna Sjálfstfl. að skilja sem mest eftir hjá einstaklingnum þannig að hann geti notið þess að hafa frumkvæði, en sem minnst eftir hjá því opinbera til þess að koma í veg fyrir þá sósíalíseringu sem hv. þm. berst fyrir og hans flokkur.