03.12.1984
Efri deild: 22. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

189. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég ætlaði eiginlega að sitja á mér með að óska fjmrh. til hamingju með eins og hálfs árs afmæli svikanna á þessu kosningaloforði. En mér finnst þessi umr. vera farin svo á skjön að ég get ekki á mér setið.

Upphafleg réttlæting þessa skatts var sú að reyna að ná inn verðbólgugróða, sem svo var kallaður á þeim árum þegar verðbólga var hér og hét, a.m.k. ólíkt meiri en í dag. Í dag er þetta orðið spurning um það einfaldlega að halda tekjum hjá ríkissjóði sem er stórskuldugur við erlenda aðila og í þjóðfélagi þar sem ausið hefur verið inn erlendum lánum. Það er engin furða að þegar þessi mikli flaumur erlends fjármagns er búinn að fara í gegnum svokallaðar óarðbærar fjárfestingar skili hann sér inn í verslanirnar úr vösum og launaumslögum fólks. Að fara svo að hirða hann þar á þeim enda er að mínu mati að byrja algjörlega á öfugum enda á þessu vandamáli.

Vandamál okkar er ekki það hvað verslunin greiðir í skatta út af fyrir sig. Það er eðlilegt að hún greiði réttláta skatta. En okkar höfuðvandamál er og verður erlend skuldasöfnun. Það er hún sem er orsökin að þessari miklu blómstrun í verslun hér á höfuðborgarsvæðinu. Reyndar held ég að hv. 5. landsk. þm. hafi tekið dálitið óheppilegt dæmi um notkun verslunareigenda á þeim peningum sem þeim áskotnast með því að nefna bíla þar sem á annað hundrað prósent af verði þeirra rennur beint aftur í ríkissjóð.