03.12.1984
Efri deild: 22. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

170. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Í fjarveru 1. flm., sem átti sæti á þingi sem varamaður, leyfi ég mér að mæla fyrir frv. á þskj. 179 sem við flytjum í sameiningu. Það er frv. til l. um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Aðrar breytingar á þeim lögum hefur mjög borið á góma í þessari hv. deild í dag. Þar sem hér er um að ræða frv. sem áður hefur verið flutt á hinu háa Alþingi og þingmönnum er því gjörla kunnugt sé ég ekki nauðsyn til að hafa um það mörg orð.

Höfuðtilgangur þessa frv. er að bæta hag hinna lægst launuðu og bótaþega almannatrygginga með því að greiða þeim úr ríkissjóði þann hluta persónuafsláttar við álagningu tekjuskatts sem ekki nýtist til lækkunar álagðra gjalda, á sama hátt og nú er um barnabætur.

Hér er um neikvæðan tekjuskatt að ræða til hagsbóta fyrir hina verst settu og lið í þeirri afkomutryggingu, sem við Alþfl.-menn svo nefndum og höfum verið að beita okkur fyrir, og um leið þátt í tillögugerð Alþfl. um mótun nýrrar efnahagsstefnu. Þetta frv. hefur sem sé áður verið flutt hér en eigi náð fram að ganga.

Nú er verið að ræða hér um lækkun tekjuskatts og eins og fram hefur komið fyrr í dag er raunar ætlunin að mæta henni með öðrum skattahækkunum að öllu eða mjög verulegu leyti. En það er grundvallaratriði að mati flm. þessa frv. að tekjuskattslækkun komi einnig þeim tekjulægstu á vinnumarkaði og elli- og örorkulífeyrisþegum til góða. Því er þetta frv. flutt.

Þær upphæðir sem nefndar eru í þessu frv. miðast við skattárið 1984. Gert er ráð fyrir að þær breytist með skattvísitölu eins og aðrar sambærilegar upphæðir í lögum um tekju- og eignarskatt.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa um þetta frv. fleiri orð að þessu sinni. Ég vona að það fái jákvæðar móttökur í þessari hv. deild, en við munum auðvitað íhuga, ef frv. nær ekki fram að ganga, að flytja sjálfstæða till. þegar aðrar breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt koma til atkvgr. í þessari hv. deild, þ.e. þegar þau lög eru opin til breytinga.

Ég legg síðan til, virðulegi forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.