03.12.1984
Neðri deild: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

167. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þau svör sem hann gaf hér áðan. Ég var auðvitað ekki að fara fram á það við hann að hann læsi upp þær upplýsingar um afkomu útgerðarinnar sem við fengum hér í sumar. Það voru gögn sem ég bjóst við að væru tilbúin, ný gögn um þessi mál, sem ég var að spyrja eftir. Hæstv. ráðh. upplýsti okkur um að hann mundi koma þeim gögnum á framfæri við okkur núna í vikunni og ég legg á það áherslu fyrir mitt leyti að sjútvn., sem fær þessi mál til meðferðar, fái þessi gögn um afkomu útgerðarinnar svo að hún geti tekið á þessu frv. með tilliti til allra aðstæðna með eðlilegum hætti.

Ég tek einnig undir það, sem hv. 3. þm. Vestf. sagði hér áðan, að auðvitað verður það að vera tryggt að Sjómannasambandið og Farmanna- og fiskimannasambandið fái þetta frv. til umsagnar, með tilliti til þeirra kjarasamninga sem þar standa nú fyrir dyrum. Og það verður auðvitað að vera alveg skýrt að hér sé verið að gera samþykkt til þess að greiða fyrir því að sjómenn geti fengið sambærilegan hlut við aðra og að þetta frv., ef að lögum verður, verði á engan hátt notað til að þrengja að sjómannasamtökunum frá því sem ella hefði verið.

Í því sambandi má minna á að skv. þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið á að koma kauphækkun 1. apríl n.k., ef ég man rétt, eða 1. maí, upp á 3–4% eða svo. Ég tel eðlilegt að sú kauphækkun verði þá tekin með inn í fiskverðsákvörðunina núna ef fiskverð verður ákveðið fyrir þetta langa tímabil. Vil ég spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann hafi fyrir sitt leyti gert ráð fyrir því að fiskverð verði ákveðið í samræmi við þær hlutfallshækkanir sem samningar náðust um í kjarasamningum núna í haust, og þar á meðal verði gert ráð fyrir því að sérstök aukahækkun komi á fiskverð á fyrri hluta samningstímabilsins, 1. maí eða 1. apríl. Það er nauðsynlegt að þessar upplýsingar liggi fyrir áður en sjútvn. afgreiðir málið af sinni hálfu.

Mér fannst það athyglisvert, herra forseti, að hæstv. sjútvrh. svaraði ekki þeirri ábendingu minni hvernig ríkisstj. sæi þetta frv. með tilliti til þess að Ólafslög, sem svo hafa verið nefnd, lög nr. 13/1979, koma í samband aftur frá og með 1. júní n.k. Það hafa komið yfirlýsingar um það frá hv. 1. þm. Suðurl., formanni Sjálfstfl., að hann teldi eðlilegt að vísitölubann yrði áfram í lögum og vera kann að það sé ákvörðun ríkisstj. að flytja frv. þess efnis á þessu þingi. En ég vil spyrja hæstv. sjútvrh., og ef hann ekki svarar því þá hæstv. forsrh., hvort það sé ætlun ríkisstj. að hafa hér í gildi áfram vísitölubann eftir að lögin eru fallin úr gildi, þ.e. 31. maí n.k. þegar Ólafslög eiga að taka við. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að hæstv. ríkisstj. geri hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum, m.a. vegna þess að hún er hér að tala um fiskverð sem á að gilda til 31. ágúst 1985. Ég ítreka því þessa spurningu mína til hæstv. ríkisstj. varðandi vísitölubann á laun. Eða er það kannske svo að ríkisstj. sé horfin frá yfirlýsingum sínum í þessum efnum og geri ráð fyrir því að Ólafslög fari að telja aftur frá og með 1. júní 1985 og svo aftur 1. sept. og 1. des. það ár?