10.12.1985
Sameinað þing: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

Viðskipti Hafskips og Útvegsbankans

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það var ekki mikil drift í þeirri rödd formannakórs Bandalags jafnaðarmanna sem hér talaði rétt áðan. Hefði nú verið við öðru að búast úr þeim herbúðum.

Það er margt sem hægt er að tína upp og taka til í slíkri umræðu sem hér á sér stað. Fyrst og fremst er verið að gera viðskiptamál að pólitísku máli. Við skulum ræða það.

Þar er Útvegsbanka Íslands stillt upp eins og einhverju sem er á milli steins og sleggju, banka sem ber ábyrgð á stórum hluta íslenska útvegsins sem er grunnurinn undir þetta þjóðfélag þótt ýmsir þeir sem kallast hópverjar í hinum menningarlegu hópum Alþb. vilji lítið láta sig það varða, enda fljúga menn þar á alþjóðlegri flatlendishyggju og varðar lítt um land það sem í norðri er og kallast Ísland.

Það er einstakt mál í bankasögu landsins, herra forseti, að tryggingar hjá fyrirtæki eins og Hafskipi skuli brenna upp á nokkrum mánuðum. Það er einstakt mál og í ljósi þess skyldi skoða það mál. Undir venjulegum kringumstæðum hefði verið hægt að koma eignum Hafskips í viðunandi verð, en með því fjaðrafoki sem hefur átt sér stað fyrir tilstilli talsmanna úr röðum stjórnmálamanna og einnig nokkurra blaða landsins verða allir hræddir á einu augnabliki. Allir verða hræddir, ótti grípur um sig. Eins konar múgsefjun verður að kalla það.

Hér er vissulega um mikið og alvarlegt mál að ræða, sorglegt mál þar sem spennandi möguleikar fara úr böndum. En það er ekki nýtt að upp komi slík mál á Íslandi. Við skulum nefna dæmi um Flugleiðir sem stóðu mjög illa fyrir nokkrum, fimm árum, og römbuðu á barmi gjaldþrots. Stjórnmálamenn, sem hér hafa talað í umræðunni í dag, réðust að því fyrirtæki með offorsi. Hv. málshefjandi var þar á meðal og taldi að það væri dauðinn og djöfullinn í hverju fótmáli. Hvað eru Flugleiðir í dag? Flugleiðir eru eitt traustasta fyrirtæki landsins sem veitir á annað þúsund Íslendingum atvinnu, er gjaldeyrisskapandi og stendur sig vel á alþjóðamarkaði. Menn skyldu fara varlega í því að dæma fyrir fram í hverju máli og setja sig á háan stól í þeim efnum.

Þetta mál hjá hv. málshefjanda og öðrum úr stjórnarandstöðunni, sem eru að gera viðskiptamál að pólitísku máli, byggist fyrst og fremst á því að beint spjótum að einum manni, Albert Guðmundssyni. Í öðru lagi byggist það á því að beina spjótum að stjórnmálaflokki sem heitir Sjálfstfl. Í þriðja lagi er svo Útvegsbanki Íslands hafður að skotmarki þeirra aðila sem vilja hann feigan og varðar ekkert um skyldur þær og þjónustu sem sá banki sem annar af aðalbönkum landsins veitir byggðum landsins. Hvaða mál eru líka byggðir landsins þegar hægt er að gera pólitískt uppsteit eins og í þessu tilviki?

Það er slæmt og fyrir neðan virðingu þingmanna þegar slúðrið fylgir með. Staðreyndirnar í þessu máli eru nógu daprar þar sem skipafélag sem um áratuga skeið hefur verið blómlegt fyrirtæki í landinu verður gjaldþrota. Það eru nógu daprar staðreyndir þó menn þurfi ekki að vaða fram í hálfgerðri sálsýki með grunsemdir, getsakir. Menn gefa sér allt fyrir fram, hleypa slúðrinu fram og gefa það klárt og kvitt að kjaftæðið sé sannleikur. Þar skyldu menn bíða niðurstöðu þeirra sem hafa umboð til að rannsaka slík mál.

Hverjir í þessu landi eiga að sjá hinum stóru fyrirtækjum landsins fyrir þjónustu? Að sjálfsögðu eru það stærri bankar. Sparisjóðir landsins gera gagn vítt um land, en þeir sinna ekki hinum stóru verkefnum sem við viljum hafa og hafa skilað okkur góðum árangri í gegnum áratugi þessarar aldar. Til hvers eru menn að ráðast á Útvegsbanka Íslands? Til þess eins að reyna að knésetja stjórnmálamenn. Það er skoðun út af fyrir sig.

Gott dæmi um bulluskapinn í þessu máli er málflutningur hv. málshefjanda Ólafs Ragnars Grímssonar í sjónvarpsþætti í síðustu viku. Þar blaðraði þm. um að það væri meiri ósvinnan og meiri skömmin að þeir sem gerst vissu í þessu máli, í þróun þessa máls á undanförnum mánuðum, hefðu ekki sagt sannleikann, að menn sem unnu trúnaðarstörf á vegum Útvegsbanka Íslands skyldu ekki opna málið og leggja spilin á borðið. Þm. var þá spurður hvers vegna fulltrúi Alþb. í bankaráði Útvegsbanka Íslands, hv. þm. Garðar Sigurðsson, hefði þá ekki opnað málið. Nei, þá horfði málið öðruvísi við. Þá svaraði Ólafur Ragnar Grímsson að þá gilti bankaleynd. Hún mátti ekki gilda um aðra, en hún átti að gilda um fulltrúa Alþb. Það sýnir líka hvað menn tefla djarft í þessu máli að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti í umræddum sjónvarpsþætti að þingflokkur Alþb. hefði samþykkt að létta bæri af bankaleynd. Hann var þá spurður: Samþykkti hv. þm. Garðar Sigurðsson það einnig? Það var svarað hiklaust og játandi. Garðar Sigurðsson, bankaráðsmaður í Útvegsbanka Íslands, hefur upplýst að hann hafi ekki staðið að slíkri samþykkt, enda er Garðar Sigurðsson þekktur að því að vera heill í því sem hann gerir og sinna því af samviskusemi, segja sína meiningu en sleppa slúðrinu. Það mættu ýmsir samflokksmenn læra af honum í þeim efnum.

Þeir sem tala um að reka eigi banka hljóta að gera ráð fyrir því að bankinn geti haldið trúnaði við sína viðskiptavini. Menn halda ekki trúnaði í slíku fjaðrafoki sem hér hefur átt sér stað undanfarnar vikur, enda hefur reynt á þennan banka sem í gegnum áratugina hefur fengið að reyna ýmsar holskeflur í þjónustu við landsmenn. Hann hefur ekki verið neitt dekurbarn þessa þjóðfélags.

Það gerir í rauninni stjórnendum slíks banka og starfsmönnum ólíft að starfa í slíkri stofnun við þær kringumstæður og aðstæður. Því er mál að því moldviðri, sem þyrlað hefur verið upp, linni. Það er eðlilegt að mál séu rædd hispurslaust, en það er ástæðulaust að snúa sífellt breddunni í sárinu. Það er rétt að taka upp mál þegar vandi er á borði, en það er jafnrétt að sleppa slúðrinu.

Hafskip er gamalt mál að því leyti að það fyrirtæki hefur aldrei haft sterka eiginfjárstöðu og ef staðreyndir eru skoðaðar kalt og rólega er jafn ljóst að þegar varnarliðsflutningarnir duttu út brást Hafskip við á þann veg að reyna að nýta möguleika sem fyrirtækið hafði kannað og búið sig undir um nokkurra ára skeið, að taka upp siglingar yfir Atlantshaf. Það er einföld staðreynd að menn ákváðu að reyna að nýta bæði þekkingu og mannafla þessa fyrirtækis, ákváðu að reyna að fara út á nýjar brautir, þegar mikilvægur flutningsþáttur datt út. Þær athuganir lofuðu góðu og það vita allir sem hafa fylgst með þessu máli og vilja vita hverjar staðreyndir málsins eru.

Við þessar athuganir voru bundnar vonir. Það fór fram endurskipulagning á fyrirtækinu, hlutafjáraukning og stefnt var að hagræðingu hér heima. Staðreyndin er hins vegar sú að þessar vonir brugðust. Kostnaður varð meiri en reiknað var með. Tekjur voru svipaðar, en kostnaðaraukinn réði úrslitum í þá veru að tap varð á fyrirtækinu annað árið í röð, verulegt tap. Það kemur tvennt til: rekstrartap og mikil verðrýrnun á skipastól Hafskips.

Það hefur verið nefnt dæmi um eitt nýjasta skip Sambandsins sem kostaði 9 milljónir dollara fyrir u.þ.b. ári. Í dag fengjust ekki 4 milljónir dollara fyrir það. Þetta segir söguna. Þetta segir söguna um þann ótrúlega funa, hvernig eignir Hafskips hafa brunnið upp á stuttum tíma.

Hafskipsmenn tóku vissulega mikla áhættu. Ef sú áhætta hefði heppnast hefðu menn hrópað húrra, en því miður misheppnaðist hún. Í þessu sambandi er vert að huga að því hvort ekki er æskilegt, hvort ekki er nauðsynlegt og brýnt að dreifa hinni miklu áhættu sem hin stærri félög landsmanna, fyrirtæki landsmanna, þurfa vissulega að taka, dreifa henni á fleiri banka. En hvaða bankar ráða við slík fyrirtæki? Hvaða bankar ráða við stærstu fyrirtæki landsins? Það eru ekki nema tveir bankar, fyrst og fremst Landsbanki Íslands og Útvegsbanki Íslands. Þó er dæmið svo knappt um eiginfjárstöðu Útvegsbanka Íslands. Það er hægt að bera saman við margt. Fyrir stuttu kom hingað grænlenskur skuttogari sem ein byggð í Grænlandi hafði keypt, rækjutogari. Hann kostaði 400 millj. íslenskra króna. Það er heldur minna en eiginfjármagn Útvegsbanka Íslands sem á þó að bera slíka ábyrgð sem sá banki ber.

Það er sérkennilegt að heyra talsmenn Alþb. ræða um afstöðu þess flokks til bankaleyndar ríkisbankanna. Hún er furðuleg og í engu samhengi við þá skoðun þeirra að það eigi að reka ríkisbanka. En það er þeirra skoðun. Þeir sleppa alveg því atriði að eðlilegt sé að ákveðinn trúnaður sé á milli banka og viðskiptavina, en það hlýtur eðli málsins samkvæmt að vera þannig, það er aðalsmerki einkabanka. Og ef Alþýðubandalagsmenn halda að þeir geti stundað viðskipti í banka án þess að slíkur trúnaður sé fyrir hendi hjá einum banka en ekki öðrum, hjá einkabanka en ekki ríkisbanka, þá er sýnt að þeir fara villir vegar.

Það verður líka að segja það eins og er að þó að menn séu hér að gera mikið úr því að hver fjölskylda í landinu, hver einstaklingur í landinu tapi miklu þá er það út í hött að gera svo mikið úr því að almenningur borgi brúsann. Við skulum tala um viðskipti eins og viðskipti án þess að vera með neitt óþarfa tilfinningamál í þeim efnum. Auðvitað kemur þetta umrædda tjón fyrst og fremst niður á eiginfjárstöðu Útvegsbanka Íslands og veikir stöðu bankans. En að halda því fram að þar sé verið að taka fé er óraunhæft. Það er hægt að stilla öllum málum upp á félagsfræðilegan hátt með prófessorstitlum og hverjum fjáranum sem mönnum dettur í hug, en ef menn ætla að gera þessu landi gagn skulu þeir horfast í augu við staðreyndir, þær staðreyndir að viðskipti eru viðskipti fyrst og fremst og það þarf að hugsa til beggja enda með þeim möguleika að áhættan verði tjón.

Það er nefnilega ekki hægt að segja að ríkið eigi að reka banka, eins og Alþýðubandalagsmenn vilja þó segja, en reikna ekki með því að ríkið leggi neina peninga í bankann. Það gengur hreinlega ekki upp. Slík rúbluviðskipti ganga a.m.k. ekki í þessu landi.

Nú keppast allir um að hafa komið þessari umræðu af stað. Hver í kapp við annan þveran keppist um það að vera sem ósvífnastur í umræðunni og gera ekki greinarmun á staðreyndum og kjaftæðinu. Bankar eiga erfitt með að verja sig. Þar kunna menn til verka að því leyti að þeir bregðast ekki trúnaði, kunna til verka í þeim efnum, eins og hv. þm. Garðar Sigurðsson sem lætur ekki eitthvert froðusnakk setja sig upp að vegg. Það er álíka að krefjast þess að bankastjórar tali í slíku máli og að krefjast þess að mállaus maður tali. Þeir hafa sínar skyldur. Af því 400 millj. kr. tapi sem nú er um að ræða í Útvegsbanka Íslands má ætla að helmingur tapsins komi til vegna þess moldviðris sem þyrlað hefur verið upp, vegna þess að á óheppilegum tíma í erfiðri stöðu hjá stóru fyrirtæki ganga allir að fyrirtækinu, verða óttaslegnir, verða hræddir um sitt. Það eru mikil umsvif víða um heim. Samkvæmt upplýsingum þeirra sem gerst þekkja í málinu má ætla að óþarfa tap sé um 200 millj. kr. í þessu dæmi. Það er dýrt spaug ef tilgangurinn er sá einn að skapa pólitískt moldviðri.

Það getur alltaf verið álitamál hvenær banki á að stoppa í rekstri, stöðva rekstur fyrirtækis, setja bremsur á. Það er ljóst líka að Útvegsbanki Íslands spyrnti við fótum, en engu að síður gekk ógæfan svo hratt yfir að ekki varð við ráðið. Það er hin napra staðreynd málsins.

Það er margt sem ekki er tekið inn í efnahagsreikninga fyrirtækja. Það er t.d. ekki tekið með í dæmi eins og Hafskip, þar sem 500 hluthafar hafa verið í fyrirtæki, 500 hluthafar sem margir hverjir standa í rekstri, að það er styrkur fyrir fyrirtæki að hafa slíka menn. Það er ekki hægt að meta það annað en styrk. En það er ekki tekið með í efnahagsreikning. Það er ekki óeðlilegt að banki í viðbrögðum í erfiðri stöðu taki eitthvert tillit til slíks. Góð áhöfn skiptir miklu máli og góð áhöfn reynir að bjarga bátnum. (Gripið fram í: Valinn maður í hverju rúmi.) Já, það má segja það, valinn maður í hverju rúmi. Þeim getur líka skjátlast, sérstaklega ef þeir hugsa ekki um það eitt að vera alla ævi sína á ríkisjötunni og lifa fyrir þá eina sýn að allt sé bundið miðstýringu og aftur miðstýringu, en þó fyrst og fremst því að ein regla eigi að gilda fyrir einn hóp manna í þjóðfélaginu og önnur fyrir aðra.

Það er ljóst, sagði hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson í ræðu í dag, að það er búið að rýra traust þjóðarinnar. Það var eins og þessi þjóð væri farin fjandans til. Minna mátti það ekki heita.

Þegar Ambrosio-banki fór á hausinn á Ítalíu ekki alls fyrir löngu sinntu stjórnvöld á Ítalíu því í engu. Traust ítalskra banka um allan heim minnkaði vegna þess að fyrirtæki, þjóðþekkt fyrirtæki og löngum traust fyrirtæki á Ítalíu fór á hausinn og var látið fara á hausinn án þess að nokkur stæði við bakið á því fyrirtæki heima fyrir.

Það er ekki langt síðan sterkur banki í Danmörku fór á hausinn. En dönsk stjórnvöld stóðu ábyrg að baki þeim banka og Danir héldu traustinu í alþjóðaviðskiptum.

Viðbrögð Seðlabanka Íslands í þessu máli þýða að vígstaða Útvegsbanka Íslands á erlendum vettvangi er traust þrátt fyrir það áfall sem átt hefur sér stað. Það er að standa eins og menn í þessu máli, þora að horfast í augu við staðreyndir án þess að kikna í hnjáliðunum og emja hér eitthvert volæðisþrugl. Það er ástæða til þess þegar velt er upp stöðu á verðfalli skipaflota víða um heim að Hafskip er ekki eitt á báti. Rekstur skipafélaga hefur orðið fyrir miklum áföllum víða um heim á síðustu misserum.

Á fyrstu árum áttunda áratugarins voru horfur á því að olíuflutningar ykjust verulega og tíu árum síðar leit út fyrir að mikil aukning yrði á hrávöruflutningum. Allt eru þetta viðskipti á heimsmarkaði. Hvort tveggja varð til þess að skipafélög stækkuðu flota sinn. Bankar kepptust um að lána skipafélögum fé. En olíuverðshækkunin árin 1973-1974 og aftur 1979-1980 leiddi til mikils samdráttar í notkun olíu og nýjar auðlindir nær markaðssvæðunum, t.d. í Norðursjó, Mexíkó og Alaska, urðu einnig til að minnka flutningsþörfina. Þetta eru markaðslegar staðreyndir sem eru ekkert spennandi ef menn ætla ekki að horfast í augu við það hvers vegna skipastóll heimsins rýrnar svo hratt sem ber. Það er nefnilega fleira sem siglir um heimshöfin en hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sem er orðinn eins konar farandbikar milli landa, en ekki býst ég við að margir vilji fá hann til eignar.

Aukning á hráolíuflutningi á þessum áratug hefur heldur ekki orðið að veruleika. Nú er svo komið að kaupskipaflotinn samtals er álitinn vera um fjórðungi of stór. Vandinn er mestur í útgerð olíuskipa og stærstu flutningaskipa en nær einnig til gámaflutninga. Sem dæmi um þá erfiðleika, sem steðja að, má nefna að japanska félagið Sanko Steamship var tekið til gjaldþrotaskipta í ágúst s.l. en floti þess, alls 260 skip, var hinn stærsti í heimi. Skuldir félagsins nema um 5 milljörðum dollara. Það má nefna að skuldir Íslendinga alls eru um 1,5 milljarðar dollara. Það er ljóst að takist að bjarga því fyrirtæki verður floti þess verulega að minnka. Af þessari ástæðu og ýmsum öðrum, erfiðri þróun hjá mörgum skipafélögum heimsins, hafa skip lækkað svo í verði sem raun ber vitni.

Í vikuritinu Vísbending, sem er rit sem fjallar um erlend viðskipti og efnahagsmál, var fyrir stuttu vitnað í grein í nýlegri útgáfu af Wall Street Journal þar sem fram kom að það versta í skipaflutningum sé hugsanlega afstaðið. Lægra gengi dollarans gagnvart helstu myntum gæti örvað útflutning í bandarískum efnaiðnaði og landbúnaði og þá ykist flutningsþörfin yfir Atlantshafið til muna. Það er einnig fjallað um blákaldar staðreyndir í viðskiptaþáttum, að áform Saudi-Araba um að auka olíuframleiðslu gæti einnig aukið eftirspurn eftir olíuflutningum. Aðrir telja að það séu enn nokkur ár í að jafnvægi náist milli framboðs og eftirspurnar á flutningum á sjó. Flutningsgjöld stærstu skipanna eru nú aðeins um þriðjungur af því sem þau voru fyrir fimm árum. Jafnframt er talið að hækkunin geti ekki átt sér stað fyrr en bilið á milli flutningsgetu og flutningsþarfar minnki, e.t.v. ekki fyrr en eftir 1990.

Þetta eru atriði sem menn eiga að skoða í umræðu sem þessari því að siglingar og skiparekstur eru ekkert skammtímamál. Það er framtíðarmál fyrir Íslendinga að slíkur atvinnuvegur geti átt sér stað frá okkar landi. Á síðasta ári jókst nokkuð flutningsþörf á hafi vegna aukins útflutnings á neysluvörum. Síðan hefur orðið nokkur samdráttur aftur og hann hefur komið víða illa við rekstur gámaskipa. Aðeins verð á þeim skipum hefur lækkað um 15-20% vegna mikils framboðs síðasta hálfa árið.

Við skulum líta okkur nær og skoða dæmi um skiparekstur í Svíþjóð. Þar eru einnig skipafélög sem berjast í bökkum. Tveimur sænskum ríkisreknum skipafélögum var fyrr í þessum mánuði veitt opinbert lán að fjárhæð 3,4 milljarðar sænskra kr., um 18 milljarðar íslenskra kr., til að forða þeim frá gjaldþroti. Félögunum tveimur var veitt þessi fyrirgreiðsla af fjármunum sænskra skattgreiðenda til að gefa félögunum svigrúm til að losa sig við alls 65 skip sem smíðuð voru á vegum ríkisreknu sænsku skipasmíðastöðvarinnar Svenska Varf AB. Alls hefur þá sænska ríkið ábyrgst um milljarð bandaríkjadollara fyrir þessi tvö skipafélög.

Hluti af gríðarlegu tapi annars fyrirtækisins, Zenits, stafar af því að stjórnendur félagsins ákváðu að draga að selja skipin í von um að verð færi hækkandi. Það brást algerlega og nú er kostnaður vegna sölu á skipaflota í eigu sænska ríkisins orðinn vel yfir 30 milljarða íslenskra kr. Þessi niðurgreiðsla sænskra skattgreiðenda á flutningaskipum hefur að sjálfsögðu áhrif á skipaverð á markaðnum nær og fjær og þar með á eigur annarra skipafélaga sem reyna að standa á eigin fótum án stuðnings opinberra aðila.

Við skulum horfa á þetta mál í víðu samhengi. Það skiptir miklu máli að Íslendingar eigi fyrirtæki á alþjóðavettvangi. Þeir sem hafa staðið í þeim rekstri hafa lengst af sýnt að þeir kunna að standa að verki. Nú blasir við óhapp sem hefur orðið meira en ella vegna uppþota og ótímabærra getsaka í garð fyrirtækis, í garð banka, í garð einstaklinga sem bæði hafa verið í þjónustu og einnig tekið eigin ábyrgð í rekstri.

Það er ekki talað um það af hálfu þeirra sem taka aðeins eina hlið þessa máls að það hafi verið talinn kostur hér á landi um árabil að Hafskip flytti vörur til landsins, til og frá. Það hefur verið talið að rekstur þess félags þýddi lægra flutningsverð, lægra vöruverð fyrir fólkið í landinu. Hvar er nú talað um þann kost, þau hlunnindi, sem fólkið í landinu hefur fengið af slíkum rekstri? Það er ekki talað um það af hálfu þessara alþjóðlegu bútunga.

Það þykir sjálfsagt að einkabankar auki sitt eigið fé en það er talinn glæpur að ríkið styrki sína eigin banka. Á árunum 1920-1930 var það fastur liður á fjárlögum íslenska ríkisins að verja fjármagni í eiginfjárstofn Landsbanka Íslands. Kannske gáfu menn sér tíma þá til að hugsa um að það fylgdi því ábyrgð og áhætta að reka banka og það fylgdi því sú skylda að hafa trausta eiginfjárstöðu í slíku fyrirtæki.

Það er fáránlegt að í banka með slíka áhættu, sem Útvegsbanki er með, sé eigið fé ekki meira en 530 millj. kr. Ef ekki hefði komið til skattheimta, ekki allgömul, á banka landsins væri eiginfjárstaða Útvegsbanka Íslands 6-700 millj. kr. hærri en hún er í dag. Þá væri þessi vandi minni fyrir Útvegsbanka Íslands. En á meðan það er glæpur að banki hafi bakhjarl í eigin fé er erfitt að tala um alvörustofnanir á þeim vettvangi.

Það er ljóst að miðað við getu banka með slíkt eigið fjármagn eru lán ýmissa einstakra kúnna fyrirtækisins of há. Eiginfjárstaða Útvegsbanka Íslands er þó innan löglegra marka, hún er innan ramma laganna. Lögin gera einfaldlega ekki meiri kröfur í þessum efnum. En það er ljóst að stór íslensk fyrirtæki, sem eru fjárfrek, þurfa, ef halda á slíku bankakerfi áfram, að snúa bankaviðskiptum sínum til margra banka á Íslandi, dreifa viðskiptunum til fjölmargra banka þannig að einn banki þurfi ekki að taka þá áhættu sem hann gerir í dag gagnvart stóru fyrirtæki með svo veika eiginfjárstöðu sem raun ber vitni.

Hafskip tók kúrsinn á fullu á hættulegum tíma. Það er ljóst að þar hefur ráðið of mikil áhætta, of mikil bjartsýni og því er staðan eins og hún er í dag. En við skulum ekki gleyma því að þeir sem eru í atvinnurekstri í þessu landi taka mikla áhættu hvort sem það er sjómaður eða landmaður. Þetta er allt spurning um áhættu þar sem atvinnan er.

Í alvörurekstri verður að gera ráð fyrir áföllum. Það gerum við ekki í atvinnulífinu í dag. Þar er áhættan á annað borðið en flest tryggt í þjónustunni. Ég ætla að nefna tvö dæmi. Lyfjanotkun Íslendinga hefur farið 160 millj. fram úr áætlun á þessu ári. Það lætur nærri að Íslendingar noti lyf fyrir 2 milljarða kr. Það er ekki furða þótt hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon brosi, veitti víst ekki af mixtúru. En skyldi vera full stjórn á þessari lyfjanotkun, þessari lyfjaeyðslu? Ég ætla ekki að fullyrða um það en láta uppi miklar efasemdir um að svo sé. Þar kann að vera bruðlað meira en góðu hófi gegnir og að menn hugi ekki að ýmsu sem menn skyldu gera.

Ég ætla að nefna annað sem er tryggt og hefur verið gulltryggt í þjónustunni, það eru námslán. Það eru allir sammála um að menntun sé gulls ígildi og nauðsynlegt sé að mennta þjóðina og það sé fjárfesting fyrir framtíðina. En þar þarf að hafa stjórn á eins og í öðru. Á þessu ári lánar Lánasjóður ísl. námsmanna 1230 millj. kr. Hann fær til baka á árinu 70 millj. kr. Lánskjör eru þau, svo dæmi sé tekið, að hjón í námi með eitt barn fá 51 þús. kr. á mánuði hérlendis í námslán og styrki, því að hvort tveggja heitir það. Hjón með grunnlaun í fiskvinnslu með eitt barn, hvað hafa þau? Þau hafa 32 þús. kr. Hvaða glóra er í þessu? Er ekki ástæða til að huga að fleiri málum en þeim þar sem óhöpp koma upp og menn þurfa að rannsaka hluti? Menn eiga að gefa þeim sem lenda í óhappinu færi á því að komast með fætur niður á jörðina í staðinn fyrir að sparka undan þeim fótum og eyðileggja möguleika til að bjarga sér eins og hægt er út úr erfiðri stöðu.

Það eru 13 þús. Íslendingar á framfæri Lánasjóðs ísl. námsmanna. Þar af eru um 7000 námsmenn, að auki börn og makar sem lánað er út á og það er eðlilegt fyrirkomulag. En það þarf að vera samræmi í hlutunum. Ég nefni þetta sem dæmi um það sem er tryggt í þjónustu landsmanna á meðan harkað er á þeim sem stunda áhættuna í atvinnurekstri.

En skyldi nokkuð dafna í þessu þjóðfélagi, í menningarlífi, menntun og öðru, ef ekki væru grunnatvinnuvegir og fólk sem skilaði gjaldeyristekjum? 80% af tekjum okkar lands koma úr sjávarútvegi. Útvegsbanki Íslands er annar höfuðbakhjarl þessa atvinnuvegar. Menn hefðu kannske eitthvað átt að hugsa um stöðu Útvegsbanka Íslands í þessu máli einnig en miða ekki allt við það að reyna að klína ósóma á einstaklinga.

Þegar gengið er að atvinnuvegunum og þeim sem þjóna þeim eins og gert hefur verið á ósanngjarnan hátt í máli margra hér í dag er ljóst að ætlast er til þess að þjóðfélagið éti upp útsæðið, éti upp eigið fé atvinnufyrirtækjanna í landinu. Það er hluti af þessu máli. Það á ekki að koma neinum á óvart þótt áhættan verði að tapi.

Hér er vissulega um stórt mál að ræða. En það hefði verið hyggilegra að fara með gát í þeim brimgarði sem þetta fyrirtæki hefur siglt í gegnum, gefa því möguleika á að bjarga því sem bjargað varð í stað þess að velta sér upp úr ósómanum.