10.12.1985
Sameinað þing: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

Viðskipti Hafskips og Útvegsbankans

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það mun senn rísa nýr dagur og þessi umræða hefur staðið lengi. Ég vil þakka hæstv. ráðherrum, sem hér hafa tekið til máls, hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh., fyrir þau svör sem þeir hafa veitt. Þau voru á ýmsan hátt gagnleg, en þó á annan hátt ekki fullnægjandi. Ég hef saknað þess nokkuð að hæstv. fjmrh. skuli ekki hafa talað í þessari umræðu, en væntanlega gefst tækifæri til þess að hann geri það síðar. Að hæstv. iðnrh. mun ég koma á eftir þótt hann sé fjarverandi. Ég tel það óhjákvæmilegt, enda munu þingtíðindin færa honum þau orð. En áður en ég kem að svörum hæstv. ráðherra vil ég segja nokkur orð vegna þeirra ræðna sem einstakir þm. hafa flutt.

Það var óheppilegt hjá hv. þm. Árna Johnsen, og reyndar einnig hjá hæstv. viðskrh. að minnast á Flugleiðamálið. Var það greinilega gert í því skyni að koma því inn hjá þingi og þjóð að sá sem hér stendur hefði fyrir nokkrum árum hafið mikla herferð í Flugleiðamálinu þar sem allt hefði reynst byggt á sandi. Annaðhvort þekkja þessir tveir ágætu þm. söguna illa eða þeir eru fljótir að gleyma.

Þegar ég hóf máls á Flugleiðamálinu hér á Alþingi og flutti till. um það að Alþingi kysi sérstaka rannsóknarnefnd til að kynna sér rekstur þessa fyrirtækis, sem hafði nær allt flugsamgöngukerfi Íslands við umheiminn í hendi sér og einnig innanlands, sögðu forsvarsmenn fyrirtækisins hver um annan þveran að það væri allt í góðu lagi hjá fyrirtækinu, það væri ekkert að, það þyrfti ekkert að gera. Það komu hér í þingsalinn þm. Sjálfstfl. sem fluttu einnig þennan boðskap. Ég leiddi aftur á móti rök að því að ástandið væri með þeim hætti í þessum rekstri og hjá fyrirtækinu að það mundu ekki líða mörg misseri þar til þjóðin þyrfti að reiða fram fé til að styrkja fyrirtækið og málefni þess yrðu komin í hendur ríkisstj. og Alþingis til að halda rekstrinum gangandi. En fulltrúar Sjálfstfl. og forstjórar fyrirtækisins sögðu hver um annan þveran að þetta væri bull og vitleysa.

Það var síðan 2-3 misserum seinna sem þetta kom allt á daginn, að þetta reyndist allt saman rétt. Þá dvöldu forstjórar Flugleiða daglangt og vikulangt í biðstofum ráðuneytanna til að biðja ríkisstj. um fjárstyrk. Við tókum það síðan að okkur margir á þingi að flytja inn á þingið frv. um þau efni að þjóðin greiddi með þessu fyrirtæki stórar upphæðir. Ég vil því biðja þá þm. Sjálfstfl. sem vilja nota Flugleiðamálið á þann sama hátt og hv. þm. Árni Johnsen gerði hér skýrt og greinilega og hæstv. viðskrh. ýjaði að að kynna sér þessa sögu betur. Hún er einmitt saga um hvernig á Alþingi var varað við því að það kæmi að því að þjóðin þyrfti að borga fjármuni til fyrirtækisins, en forstjórar fyrirtækisins og fulltrúar þeirra hér á Alþingi sögðu að það kæmi aldrei til þess. (Gripið fram í: Þm. skóp aðallega vandræði í málinu.) Þm. skóp engin vandræði í því máli. Og mikill er nú máttur minn, Árni minn Johnsen, ef ég hef prívat og persónulega orsakað allt þetta mikla tap Flugleiða. Verð ég nú að segja að þó að ég kunni hrósinu vel held ég að málflutningur af þessu tagi eigi ekki heima í alvarlegri umræðu um rekstrarmálefni stórfyrirtækja landsins.

Hv. þm. Árni Johnsen var einnig álíka seinheppinn í því að nefna Ambrosio-bankann sem dæmi og fallítmál hans á Ítalíu. Það hefur mjög rækilega verið sýnt fram á það, m.a. af þekktum rannsóknarblaðamönnum og í frægri bók sem verið hefur metsölubók, að þeir sem Ambrosio-bankann áttu voru sterkir í því að fjármagna flokksstarf og kosningabaráttu kristilega demókrataflokksins á Ítalíu og áður en bankinn var látinn rúlla höfðu þeir tryggt sér það að flytja fjármuni sína yfir í aðra banka og önnur fyrirtæki. Þeir stóðu uppi með allt sitt á hreinu líkt og Hafskipsforstjórarnir gera nú og með stórar fúlgur í kosningasjóðum kristilegra demókrata. P2 leynireglan á Ítalíu, og bankanefnd Páfagarðs reyndar einnig, sáu til þess að þeim fjármunum var rækilega bjargað. Þannig var nú varla hægt fyrir þm. Sjálfstfl. að nefna verra dæmi en fallítmál Ambrosiobankans í málflutningi sínum hér á Alþingi.

Hv. þm. Árni Johnsen sagði einnig að viðskipti væru viðskipti. Þau væru ekki pólitík. En þessi viðskipti eru orðin pólitík vegna þess að fólkið í landinu á að borga tapið og banki fólksins í landinu, þjóðbankinn, verður að borga tapið. Hv. þm. Árm Johnsen verður látinn rétta upp hendi hér á Alþingi einhvern tíma á næstu vikum og mánuðum með fjárframlagi þjóðarinnar til bankans vegna Hafskipsskattsins. Það væri nær að þm. Sjálfstfl. kenndu hv. þm. Árna Johnsen þá háttvísi, sem þeir hafa reyndar flestir sýnt í þessum umræðum, að tala ekki.

Hv. þm. Guðmundur Einarsson vék nokkrum orðum að því að við værum hérna allir strákarnir eins. Ég veit ekki hvers Guðrún Helgadóttir á að gjalda í þeim málflutningi öllum, nema hún sé einkum og sér í lagi undanskilin í mínum flokki ein saman, svo að ekki sé nú minnst á hæstv. heilbrrh. Hann sagði að við værum allir eins strákarnir. Við stæðum hér að því að kjósa í bankaráð. Það gerði Bandalag jafnaðarmanna ekki. Það er alveg rétt. Það gerir Bandalag jafnaðarmanna ekki. En hver er tillaga Bandalags jafnaðarmanna í bankaráðsmálum? Hv. þm. Guðmundur Einarsson gleymdi alveg að fjalla um hana í sinni ræðu. Hún er sú að einn af strákunum fái að skipa alla bankaráðsmennina eins og þeir leggja sig, þ.e. strákurinn sem er viðskrh. eigi einn að skipa öll bankaráðin. Svo að við tökum dæmi: Ef hv. þm. Albert Guðmundsson hefði fengið þeim vilja sínum framgengt eftir síðustu kosningar að verða viðskrh., sem hann óskaði eftir en fékkst ekki fram á litla fundinum sem fór fram í símaherberginu fyrir framan þingflokksherbergi Sjálfstfl. eftir að ráðherrarnir höfðu verið valdir og þeir skiptu með sér ráðherraembættunum, hefði hann samkvæmt tillögum Bandalags jafnaðarmanna, Albert Guðmundsson, skipað alla bankaráðsmenn í þjóðbönkunum eins og þeir leggja sig. Það er tillaga Bandalags jafnaðarmanna. Ég segi: Vont er það kerfi sem við erum með nú og hefur það ýmsa galla, en verra er þó það kerfi að einn ráðherra uppi í viðskrn. eigi að skipa þá alla úr hópi vina sinna og kunningja, flokksbræðra og lagsmanna úr bisnessheiminum. Það er merkilegt að flokkur eins og Bandalag jafnaðarmanna, sem vill láta taka sig alvarlega í lýðræðislegri umræðu, skuli í alvöru leggja það til hér á Alþingi að einum manni sé fengið þetta vald, að pólitískum ráðherra, forustumanni í einum stjórnmálaflokki í landinu, eigi að vera falið þetta vald. Við skulum frekar reyna að sameinast um að reyna að bæta það kerfi sem við erum hér með, setja ýmsar reglur um starfshætti og val, um upplýsingaskyldur og annað, en alls ekki ganga inn á þá braut að fela einum ráðherra að skipa öll bankaráðin.

Hæstv. fyrrv. viðskrh., hv. alþm. Matthías Á. Mathiesen, varð við þeirri ósk minni að koma upp í ræðustólinn og rekja nokkuð afskipti sín, þegar hann sat í viðskrn., af málefnum Hafskips og Útvegsbankans. Ég dreg ekki í efa að allt það sem hann sagði í þeim efnum var rétt. Ég hef ekki vænt hv. alþm. um að hann hafi farið með rangt mál í sjálfu sér. Það sem hins vegar vekur athygli mína er að 3. júní er til í Seðlabanka Íslands athugun. (MÁM: 3. júní er hún til í Útvegsbankanum. Seinni hluta júní er hún í Seðlabankanum.) Jæja, verður nú málið enn flóknara. Ég stóð í þeirri meiningu og taldi mig m.a. hafa lesið það í texta eftir hæstv. núv. viðskrh. að 3. júní hefði verið til í Seðlabankanum umfjöllun og einhvers konar greinargerð frá Útvegsbankanum um málefni Hafskips og viðskipti þess við bankann. Verður að kanna það atriði nánar. En segjum jafnvel að það hafi verið á þeim degi sem hv. þm. Matthías Á. Mathiesen var að nefna. Ég vil þó kanna það nánar. Þá er þar með upplýst að Seðlabankanum var þegar um miðjan júní kunnugt um að þessi mál væru komin í það horf að nauðsynlegt væri að kanna þau nánar.

Engu að síður gerist það að hæstv. viðskrh. gefur yfirlýsingu á Alþingi sem er ekki hægt að skilja á neinn annan veg en hann sé að leiða fram þann vitnisburð sem hann telji réttastan í málinu, þ.e. yfirlýsingu bankastjóra Útvegsbankans. Seðlabankinn hefur væntanlega kynnt sér þá yfirlýsingu hæstv. viðskrh., en samkvæmt þeirri frásögn sem hv. alþm. Matthías Á. Mathiesen rakti hér beið Seðlabankinn í nærri því einn og hálfan mánuð og lét ráðherrann ekki vita af því að sú yfirlýsing sem hann gaf á Alþingi væri e.t.v. á misskilningi eða röngum upplýsingum byggð. Það er að mínum dómi alvarleg ásökun á hendur Seðlabanka Íslands, bankastjórnar og bankaráðs og formanns þess sérstaklega um að þeir hafi látið hæstv. viðskrh. standa í rangri meiningu allan þennan tíma.

Þegar hv. alþm. Matthías Á. Mathiesen fær síðan í lok júlí skýrslu þar sem fram kemur að málin eru komin í mikið óefni grípur hann ekki í taumana, en hefur nokkur fundahöld sem aðallega ganga út á það að bankaráð Útvegsbankans eigi að ræða málin.

Ég vil í þessu samhengi vekja athygli á því að í þeirri skýrslu frá bankaeftirlitinu frá lokum júlímánaðar sem hæstv. núv. viðskrh. las í umræðunum fyrr í dag mun hafa komið fram að það vantaði 168-264 millj. kr. upp á að staða Hafskips við Útvegsbankann væri með eðlilegum hætti. Í þessari skýrslu kom fram samkvæmt þeim lestri sem núv. hæstv. viðskrh. fór með úr ræðustól Alþingis í dag að þar með hefði verið ljóst að skuldir Hafskips við Útvegsbankann væru umfram eðlileg veð og það sem meira var, eins og segir orðrétt í skýrslunni, „drátturinn varð dýr“ á því að ekki var gripið til ráðstafana þá strax heldur málið látið velkjast áfram ágúst, september og fram í október. Þannig er alveg ljóst að sú skýrsla sem hæstv. núv. viðskrh. las úr í dag frá bankaeftirlitinu er sterkur vitnisburður um að viðskrn. hefði í tíð Matthíasar Á. Mathiesens átt að grípa strax í taumana og stöðva áframhaldandi lánafyrirgreiðslur til fyrirtækisins. Í staðinn, eins og bankaeftirlitið segir í sinni skýrslu, var bæði haldið áfram að lána til fyrirtækisins og skuldirnar uxu vegna þess að veðin héldu áfram að falla. Þessi lýsing hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesens og sú skýrsla bankaeftirlitsins sem lesið var úr fyrr í dag knýja á um að þessi þáttur bankaráðs Seðlabankans, bankastjóra Seðlabankans og viðskrn. verði kannaður nánar. Það er alveg ljóst að þar hafa mál verið með þeim hætti að fram verður að koma hvort alvarleg vanræksla hefur verið annaðhvort hjá stjórnendum Seðlabankans í því að tilkynna viðskrn. hve alvarleg málefnin væru eða af hálfu viðskrn. þegar það fékk skýrsluna til sín að grípa ekki nægilega sterkt í taumana. Mér fannst satt að segja hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, þó að það væri í hófi sagt og stundum á milli lína, kveða upp nokkuð þungan dóm yfir herrum Seðlabankans í þessu máli.

Ég vil svo láta það koma fram áður en ég kem að ræðum hæstv. ráðherra að mér urðu á þau mistök í lestri mínum í dag, þegar ég var að fara yfir skuldir nokkurra annarra fyrirtækja, að víkja að því að skuldir fyrirtækisins Víðis væru alfarið til komnar með láni frá Fjárfestingarfélagi Íslands. Í þeim ræðupunktum sem ég var með stóð að þessi 100 millj. kr. skuld væri m.a. til komin vegna Fjárfestingarfélags Íslands, en í þunganum við að ljúka máli mínu á styttri tíma en horfur væru á féllu þessi tvö orð niður. Mér er því ljúft og skylt að láta það koma fram, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur haft forgöngu um að sé gert, að með skýrum hætti sé þinginu ljóst hver hlutur Fjárfestingarfélags Íslands var í fyrirgreiðslum til þessa fyrirtækis. Vil ég þess vegna, með leyfi hæstv. forseta, lesa eftirfarandi bréf sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur látið mér í té og er stílað til hans og dagsett í dag en undirritað af Gunnari Helga Hálfdánarsyni fyrir hönd Fjárfestingarfélags Íslands:

„Með tilvísun til fsp. yðar dags. 10. des. 1985 staðfestist hér með að Fjárfestingarfélag Íslands hf. hefur hvorki veitt trésmiðjunni Víði hf. lán né gengið í ábyrgð fyrir það félag. Hins vegar tók Fjárfestingarfélag Íslands hf. þátt í stofnun Vogunar hf. í febrúar 1984 ásamt Iðnlánasjóði og fjölda fyrirtækja í einkarekstri í þeim tilgangi að freista þess að stuðla að fjárhagslegri endurskipulagningu trésmiðjunnar Víðis. Hlutafjárframlag Fjárfestingarfélags Íslands hf. í Vogun hf. nam samtals 5,5 millj. kr. sem gefur liðlega 30% hlutdeild í Vogun hf. Fjárfestingarfélagið hefur hvorki veitt Vogun hf. lán né gengið í ábyrgðir fyrir það félag.“

Eins og ég sagði er mér bæði ljúft og skylt að leiðrétta þetta atriði og vil aðeins geta þess í leiðinni að þeir forsvarsmenn Fjárfestingarfélagsins og aðrir sem að þessu stóðu hafa e.t.v. sýnt meira raunsæi í nafngiftum en aðstandendur Hafskipa hafa gert í vali á þeim nafngiftum sem þeir hafa valið ýmsum slíkum fyrirtækjum.

Hæstv. forsrh. greindi frá því að ríkisstj. hefði ákveðið að allri bankaleynd yrði aflétt varðandi málefni Hafskipa. Það er mjög mikilvæg ákvörðun. Mér er að vísu ekki alveg ljóst hvernig það getur gerst með ríkisstjórnarákvörðun einni saman, en væri æskilegt að lögfróðir menn útskýrðu það hér á Alþingi hvernig ríkisstj. getur með einfaldri samþykkt aflétt bankaleynd. Það væri þá vissulega aðferð sem mætti nota á fleiri sviðum og dreg ég ekki í efa að þeir aðilar sem að þessu hafa staðið hafi haft formlegan rétt til þess.

Hæstv. forsrh. greindi einnig frá því sem og hæstv. viðskrh. að ríkisstj. hefði ákveðið að kjósa þriggja manna nefnd og ásamt bréfi hæstv. iðnrh. til saksóknara ríkisins og starfi skiptaráðenda ætti það að duga til að leiða alla þætti málsins fram í dagsljósið. Ég vil um þessa ákvörðun ríkisstj. segja eftirfarandi:

Í fyrsta lagi hefði verið nauðsynlegt, til að skapa tiltrú þings og þjóðar á því að eðlilega væri að málum staðið, að leita breiðrar samstöðu um þá rannsóknaraðferð sem valin var í stað þess að ríkisstjórnarmeirihlutinn á Alþingi, Framsfl. og Sjálfstfl., tækju einhliða ákvörðun um hvaða aðferð væri beitt. Það er ekki vænleg aðferð til að skapa þann trúnað sem nauðsynlegur er til þess að öll kurl komi til grafar að gera það með þessum hætti.

Í öðru lagi er ekki hægt að una því, sem hæstv. forsrh. lýsti hér, að þessi þriggja manna nefnd eigi að starfa fyrir luktum dyrum. Þau gögn sem þar verða lögð fram verða því áfram að hluta til leynigögn. Þeir vitnisburðir sem þar koma fram verða áfram algerlega eða að hluta til leynilegir. Þjóðin hefur enga möguleika til að dæma þá þætti málsins sem lagðir verða fram vegna þess að hún verður að reiða sig á þessa þrjá menn. Það er ein af grundvallarreglum réttarríkisins að framlagning málsgagna og umfjöllun öll um efnisatriði máls séu fyrir opnum tjöldum. Þess vegna höfum við opna dómstóla í þessu landi. Þess vegna getur hver og einn farið og hlýtt á málflutning í réttarsölum þessa lands. En þessa grundvallarreglu réttarríkisins á að brjóta við starfshætti þessarar þriggja manna nefndar. (HBI: En hvað segir þm. um rannsókn málsins að öðru leyti?) Já, ég kem að því, hv. þm. (Gripið fram í.) Ég er ekkert að tala út úr. Það er alveg ljóst að þrír menn, sem eiga að starfa fyrir luktum dyrum, geta ekki hlotið þann trúnað sem nauðsynlegt er að þingið og þjóðin hafi í þessu máli. (HBl: Þeir eru ekki sá dómstóll sem fjallar um málið.) Nei, en þeir eru sá aðili sem ríkisstj. hefur ákveðið að bæta við saksóknara ríkisins og bæta við skiptaráðunauta. (HBl: Málið er fyrir uppboðsrétti. Af hverju kemur þm. ekki að því?) Málið er fyrir uppboðsrétti. Þetta var lína Sjálfstfl. fyrir fimm dögum. Hv. þm. er kannske ekki búinn að átta sig á því. Það var lína hæstv. viðskrh. fyrir fimm dögum að það dygði að láta skiptaráðanda fjalla um málið. Við bentum síðan á það ýmsir að slík meðferð málsins mundi aðeins leiða til þess að lítill hluti þess kæmi fram. Hæstv. viðskrh. sá að það var rétt athugasemd og breytti um afstöðu þó hv. þm. Halldór Blöndal hafi ekki áttað sig á því enn að nýja línan Sjálfstfl. í málinu er að það þurfi einhverja viðbót við skiptaráðunauta í þessu máli. Það er einmitt um þá viðbót sem við erum að tala.

En hún dugir ekki í þriðja lagi vegna þess að í þessu máli eru flestöll þau atriði sem hér hafa kannske verið gerð að umtalsefni með þeim hætti að þau kunna formlega að vera lögleg þó að siðferðilega og efnislega felist í þeim misnotkun á fé. Það er t.d. formlega alveg löglegt að Hafskip borgi Reykvískri endurtryggingu skuldir sínar. Það er formlega alveg löglegt að Reykvísk endurtrygging leigi síðan hjá Staðastað hf. Það er kannske líka formlega löglegt að Georgia Export Import taki greiðslur af hverri ferð Hafskips. En ef litið er á málið frá víðara sjónarhóli er það siðlaust, rangt, einkum og sér í lagi þegar á sama tíma er verið að dæla úf úr þjóðbankanum stórfelldum lánum til Hafskipa sem þau eiga ekki veð fyrir. Það bendir fjölmargt til þess að lánin hafi verið notuð til að fjármagna tilfærslur sem eru, svo að vitnað sé í þekktan þm. og vin okkar beggja, löglegar en siðlausar. (HBI: Ég heyri að þm. kann klækina.) Þetta eru engir klækir. Þetta er einfaldlega krafa um að þjóðin fái að vita það rétta. En það lýsir kannske hugarfari Sjálfstfl. að umræðan um að þjóðin fái að vita það rétta sé kölluð klækir hér á Alþingi. Hélt ég þó að Engeyjarættin hefði traustari tengsl við réttarríkið en þessar athugasemdir gefa til kynna.

Það sem við viljum gera, sem hér höfum lagt til skipan rannsóknarnefndar Alþingis, er að fara þá leið sem mjög oft er farin t.d. í Bandaríkjunum þar sem lýðræði er að mörgu leyti mjög til fyrirmyndar, þar sem réttarfar er einnig mjög traust hvað opinbera meðferð mála af þessu tagi snertir og þar sem þjóðþingið gegnir mjög viðamiklu hlutverki í því að upplýsa mál nákvæmlega sömu ættar og þetta. Þá kýs þjóðþingið sérstakar rannsóknarnefndir sem með aðstoð sérfræðinga og í heyranda hljóði ganga úr skugga um að öll kurl komi til grafar í málinu. Ég satt að segja skil ekki hvers vegna þm. Sjálfstfl., sem svo oft ella líta til Bandaríkjanna sem fyrirmyndar, eru á móti því að beita þeim aðferðum sem þar hafa gefist best til þess að tryggja að einmitt í málum af þessu tagi sannfærist þjóðin um það að spilin hafi verið lögð á borðið.

En það liggur ekkert fyrir um það að þeirri þriggja manna nefnd sem hæstv. ríkisstjórn ákvað að láta skipa verði falið að athuga þessa þætti. Það liggur ekkert fyrir um það. Það er þess vegna mun líklegra að stórir hlutar þessa máls, sem formlega séð eru e.t.v. löglegir en efnislega siðlausir, liggi fyrir utan meðferð málsins. Og það er líka af þeim ástæðum sem ég vil segja við hæstv. iðnrh. að bréfaskriftir til saksóknara ríkisins eru út af fyrir sig góðar svo langt sem þær ná, en þær duga ekki alveg. Þær duga ekki alveg vegna þess að sá hluti þessa máls sem einkum hefur verið til umræðu og snýr að hæstv. iðnrh. fjallar ekki um lögbrot, fjallar ekki um brot á lögum, fjallar ekki um afbrot í réttarlegum skilningi þess orðs, heldur fjallar um þá þætti sem snerta hagsmunagæslu, trúnað og efnislega meðferð mála innan ramma laganna. Ég sagði við hæstv. iðnrh. í sjónvarpinu á föstudaginn að það væri best fyrir þjóðina, en ég bætti einnig við - en hæstv. ráðh. er kannske búinn að gleyma því - að það væri einnig best fyrir hann að taka þannig á þessum málum. (Gripið fram í.) Já, hann var af heilindum settur fram, hæstv. iðnrh. (Iðnrh.: Ég efast ekkert um það.) Það er gott að hæstv. ráðherra efast ekki um það því þar með var ég að benda á þá aðferð sem skynsamlegust væri úr frá hagsmunum ráðherrans sjálfs. Ég skil ósköp vel að hæstv. ráðherra uni því illa að liggja undir þeim ásökunum sem að honum hefur verið beint. En það er hins vegar misskilningur hjá hæstv. ráðherra, fyrst hann gerði að umtalsefni þessar sögur og þennan róg og þessar athugasemdir, að þær væru sprottnar frá okkur í stjórnarandstöðunni. Það er mikill misskilningur og ég vitna bara til fréttaflutnings sjónvarpsins í þeim efnum og þeirrar athugasemdar sem formaður þingflokks Sjálfstfl. gerði við þann fréttaflutning.

Hæstv. iðnrh. sagði að við sumir lifðum á því að ríkið borgaði okkar laun og ef við færum fram úr áætlun þá borgaði ríkið. Það er að vísu rétt að við höfum sumir starfað við menntastofnanir þessa lands, en það er einmitt þegar á viðskiptasviðinu fara að gerast þeir hlutir að menn fara fram úr áætlun og ríkið á að borga sem nauðsynlegt er að taka málin til umfjöllunar með þessum hætti sem gert hefur verið í dag.

Síðan vék hæstv. ráðherra að tilkomu sinni í bankaráð Útvegsbankans í upphafi þessa áratugs. Og reyndar hafði áður hæstv. viðskrh. gert sér erindi í ræðustólinn til þess að koma því sérstaklega að, svo ég vitni orðrétt í hæstv. ráðherra, „að það hafi bara verið hluti sjálfstæðismanna sem lagt hafi til að Albert Guðmundsson færi í bankaráðið en hins vegar hefðu það aðallega verið Alþb. og Framsfl. sem bæru ábyrgð á þeirri sögu.“ Ég tók þennan þátt málsins ekki til umfjöllunar, ekki vegna þess að það væri neitt feimnismál í mínum flokki að ræða það, heldur vegna þess að ég taldi e.t.v. ekki rétt að verða fyrri til að fara að rekja þá sögu eins og hún gekk. Það var auðvitað alveg ljóst að þeir ráðherrar Sjálfstfl. og þm. Sjálfstfl. sem studdu ríkisstj. Gunnars Thoroddsens áttu hugmyndina að því að Albert Guðmundsson yrði formaður bankaráðs Útvegsbankans. Eins og hæstv. iðnrh. gat um sjálfur en hæstv. viðskrh. gleymdi að geta í sinni ræðu samþykkti þingflokkur Sjálfstfl. allur, á þeim árum, að Albert Guðmundsson, þótt hann væri fulltrúi Gunnars Thoroddsens, tæki sæti í bankaráðinu svo það þýðir ekkert fyrir hæstv. viðskrh. Matthías Bjarnason að koma svo hér og vera með orðalagi að skjóta sér undan ábyrgðinni af Albert Guðmundssyni í þessu bankaráði og reyna að koma henni alfarið yfir á okkur. Þeir bera þar ábyrgð á honum líka, hv. þm. Halldór Blöndal og Eyjólfur Konráð og Geirsmafían öll sömul eins og hún leggur sig.

Það er alveg rétt að ég átti viðræður við Albert Guðmundsson um þessi málefni þegar þau voru í deiglunni og þær snerust m.a. um það, og er rétt að það komi hér fram fyrst aðrir hafa orðið til þess að hefja máls á þessu atriði, að formennska í stjórn Hafskips færi mjög illa saman við það að vera formaður bankaráðs Útvegsbankans. Hæstv. viðskrh. sagði áðan að Albert Guðmundsson hefði verið tregur til þess að taka þessa formennsku í bankaráðinu að sér. Fyrst hæstv. viðskrh. varð til þess að leiða þennan þátt inn í umræðuna er rétt að ég láti koma fram að að mínum dómi stafaði þessi tregða fyrst og fremst af því að því var haldið fram og sagt í þessum umræðum, m.a. af mér og okkur, að það gæti kostað ákveðnar fórnir af hálfu Alberts Guðmundssonar að taka þessa formennsku að sér, m.a. að láta af formennsku í stærsta viðskiptavini bankans. Af því stafaði þessi tregi við að taka þetta starf að sér. Hitt er svo athyglisvert að auðvitað skein í gegnum ummæli hæstv. viðskrh. Matthíasar Bjarnasonar tilraun til þess að koma ábyrgðinni á Albert Guðmundssyni af Sjálfstfl. og yfir á okkur hina.

Vegna þess hvernig hæstv. iðnrh. talaði í kvöld af miklum og heitum huga vil ég endurtaka og ítreka það sem ég sagði fyrr í dag að ég tel ekki rétt að Sjálfstfl. komist upp með það að reyna að fórna Albert Guðmundssyni í þessu máli. Þó hlutur hans sé stór er hann ekki nema hrókur meðal hinna mörgu taflmanna Sjálfstfl. í málinu. Það er greinilegt að þær tilraunir sem hæstv. iðnrh. vék að í sinni ræðu koma einnig úr hans eigin flokksranni og eru kannske harðastar þaðan vegna þess að þar hafa átökin um hann verið sterkust og heitust og mest. Þess vegna getur maður skilið þá ræðu sem hæstv. iðnrh. flutti áðan. En það er hins vegar nauðsynlegt að bæði hann og aðrir geri sér grein fyrir því að þetta mál snýst ekki nema að mjög litlu leyti um hann. Það snýst að vísu um hann að hluta til en það er heil herfylking af öðrum áhrifa- og forustumönnum Sjálfstfl. sem þar bera stóra ábyrgð og eru kallaðir til sögunnar, fyrrv. þm. flokksins sem eru bankastjórar Útvegsbankans, fyrrverandi þingmenn flokksins sem eru formenn bankaráðs Seðlabankans, forustumenn í félögum flokksins og flokksráðum, flokksskrifstofum og kjördæmissamböndum.

Hæstv. iðnrh. vitnaði til þess að forsrh. hefði greint frá því að í viðtölum við fyrrv. bankastjóra Útvegsbankans hefði það komið fram, eins og hæstv. iðnrh. fór með þann texta hér, að Albert Guðmundsson hefði engin afskipti haft af útlánum bankans meðan hann var formaður bankaráðs. Það er rétt að það komi fram að það er ekkert skýrt sagt í þessari yfirlýsingu, eins og frá henni er greint í Morgunblaðinu, heldur eingöngu að hann hafi ekki haft afskipti af útlánum Hafskips í Útvegsbankanum. Um önnur útlán er ekkert sagt í yfirlýsingunni. Ég vil segja í fullri einlægni við hæstv. iðnrh. að það er mjög nauðsynlegt í málflutningi hans í þessu máli sem og öðru að nákvæmnin sé mikil þegar um málin er fjallað.

Hæstv. iðnrh. vék einnig að því að ég hefði nefnt Byggung og var að leiða líkur að því að ég hefði gert það vegna þess að tengdasonur hans var einn af stjórnendum fyrirtækisins. Það er mikill misskilningur. Ég nefndi þetta fyrirtæki vegna þess, eins og ég gat um, að þetta væri eitt af stórfyrirtækjunum sem hefðu verið í viðskiptum við Útvegsbankann og væri samkvæmt þeim heimildum sem ég hefði, líkt og önnur stórfyrirtæki, í alvarlegri hættu. Viðskipti þess við Útvegsbankann gætu þess vegna haft í för með sér verulegt tap fyrir bankann.

Herra forseti. Því miður hafa ekki komið fram í þessum umræðum nægilega skýr svör af hálfu hæstv. viðskrh. við því hvort leitað hafi verið eftir öðrum sölumöguleikum á eignum Hafskips til þess að tryggja það að tjón Útvegsbankans yrði sem minnst. Það er mjög alvarlegur áburður sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson vék að í sinni ræðu og kemur fram í forsíðuviðtali við stefán Árnason forstjóra í Dagblaðinu í dag. Hann greinir frá því, samkvæmt kunnugleika sínum í hinum alþjóðlega viðskiptaheimi, að það verð sem Eimskipafélagið sé látið greiða fyrir skipin sé brotajárnsverð og hægt hefði verið að fá miklu hærra verð fyrir þessi skip ef gjaldþrotið hefði verið auglýst á alþjóðlegum fjármálamarkaði og mönnum boðið að bjóða í skipin. Þar með sé verið að nota erfiðleika Hafskips og Útvegsbankans til þess að Eimskipafélag Íslands auðgist með óeðlilegum hætti. Það er þáttur þessa máls sem nauðsynlegt er að mun nánar og ítarlegar verði um fjallað. Einnig er nauðsynlegt að hæstv. viðskrh. svari því a.m.k. síðar í þinginu þó að hann hafi ekki gert það hér og nú hvort hann er reiðubúinn til þess að birta með einhverjum hætti þá skýrslu bankaeftirlitsins yfir skuldástöðu stærstu skuldunauta bankakerfisins alls.

Herra forseti. Ég vil svo einnig vekja athygli á því að í frásögn fjölmiðla hefur komið fram að Hafskipsmálið hefur haft í för með sér mikilvægt tjón fyrir önnur íslensk skipafélög með því að hækka verð á þeirri þjónustu og þeim vörum sem þau þurfa að kaupa til rekstursins erlendis. Þar með getur þetta mál haft í för með sér stórhækkað verð sem almenningur verður að greiða fyrir þá þjónustu sem önnur skipafélög veita við flutning á vörum til landsins.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, greina frá því að fyrir u.þ.b. tveimur árum síðan, í þann mund sem hæstv. iðnrh. hefur sagt að hann hafi yfirgefið fyrirtækið og aðrir tekið við og þessir vondu hlutir fóru að gerast - og er reyndar athyglisvert að hæstv. iðnrh. skuli sérstaklega taka það fram að ekkert slíkt hafi verið til í fyrirtækinu í sinni tíð - sendu stjórnendur Hafskips viðskiptavinum fyrirtækisins, eigendum og öðrum þeim sem við fyrirtækið höfðu samskipti hérlendis sérkennilega kveðju. Þessi kveðja var prentuð á sérstakt spjald sem send var öllum þessum aðilum. Og í ljósi sögunnar sem við getum skoðað í dag er þetta merkilegur texti, afar merkilegur texti, satt að segja spádómsorð sem gefa okkur tilefni til þess að velta því fyrir okkur hvort öll þessi saga hafi kannske verið með ráðnum huga gerð en ekki samfella mistaka og óvæntra og ófyrirsjáanlegra erfiðleika eins og menn hafa rætt hér.

Herra forseti. Ég ætla að ljúka þessari umfjöllun með því að lesa þessa kveðju sem Hafskip sendi öllum viðskiptavinum sínum hérlendis, eigendum fyrirtækisins, hluthöfum og öðrum fyrir nokkrum misserum síðan. Hún er stutt. Hún er u.þ.b. tíu orð. Hún er á þessa leið:

„Gærdagurinn er ógild ávísun. Morgundagurinn er loforð um borgun. Dagurinn í dag er reiðufé. Notaðu það.“