11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

184. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Við hv. þm. erum nú orðnir vanir því að í ríkisstjórn þeirri sem nú situr sé ýmiss konar hringl á ferðinni og löngum erfitt að átta sig á hvað stendur til og hvað ekki, og hvað stendur eftir af yfirlýsingum frá fyrri tíð og hvað ekki.

Allir þekkja það ótrúlega hringl sem verið hefur á þessu hausti á tekjuöflunaráformum ríkisstj. þar sem stórbreytingar og síðan afturköllun á fyrirhuguðum breytingum gerast næstum að segja í hverri viku haustsins. Verðjöfnunargjald af raforku flokkast undir eitt af þessum mörgu málum sem ríkisstj. hefur verið að hringla með, gefa út stórar yfirlýsingar um, draga þær síðan til baka gefandi engar skýringar á því hvernig fjármuna ætti að afla til að koma fram stefnu ríkisstj. í þessu máli.

Stefna ríkisstj. hefur verið að fella niður verðjöfnunargjaldið. :að var sá boðskapur sem okkur hv. þm. var boðaður á s.l. hausti fyrir einu ári síðan. Ég tók þá til máls, þegar þetta mál var hér til umræðu, og varaði mjög við þessari stefnu. Ég vil ekki láta fella niður verðjöfnunargjaldið. Ég álít að verðjöfnunargjaldið sé óhjákvæmilegt til þess að tryggja (Iðnrh.: Það er ekki verið að fella það niður.) - já, ég veit það - ég álít að verðjöfnunargjaldið sé óhjákvæmilegt til þess að tryggja jöfnuð í raforkuverði og ég bendi á það að síðan þessi stjórn kom til valda hefur ójöfnuður á þessu sviði farið ört vaxandi. Það hafði tekist í tíð seinustu stjórnar, undir forustu Hjörleifs Guttormssonar þáv. iðnrh., að ná fram verulegum áfanga til jöfnunar milli þeirra taxta sem lægstir voru, þar á meðal taxta Rafmagnsveitna Reykjavíkur, annars vegar og svo hins vegar taxta Rafmagnsveitna ríkisins sem hæstir hafa verið.

En í tíð þessarar stjórnar og sérstaklega undir forustu fyrrv. iðnrh., Sverris Hermannssonar, fór þessi munur mjög ört vaxandi. Þetta er eitt af mestu áhyggjuefnum fólksins út um dreifðar byggðir landsins, þ.e. hinn hái orkukostnaður og mikli munur sem er á orkuverði annars vegar hér í þéttbýlinu og hins vegar í dreifbýlinu úti um land þar sem ekki eru hagkvæmar raforkuveitur eða rafveitur á einstökum stöðum.

Ég spurði mjög grannt eftir því hér fyrir einu ári síðan og hygg að hæstv. núv. iðnrh. minnist þess, hvar ætti að afla fjár svo að Rafmagnsveitur ríkisins stæðu ekki uppi með gífurlegan skuldabagga og yrðu að hækka taxta sína verulega umfram það sem orðið var. Þáv. iðnrh. hélt hins vegar mjög stíft og fast við það að þetta gjald ætti að fella niður og steig þarna fyrsta skrefið í þá áttina með þeim afleiðingum að enn hefur sigið á ógæfuhliðina á þessu ári. Vegna þess að ég veit að núverandi orkuráðherra er skilningsgóður á mörg mál þá bendi ég honum á þetta vandamál og bið hann að gæta vel að því að láta ekki síga enn frekar á ógæfuhliðina. Hann greip hér fram í fyrir mér og benti á að ekki væri verið að lækka verðjöfnunargjaldið að þessu sinni. Og það er alveg rétt. Ég stend hér alls ekki upp til þess að áfellast hæstv. ráðh. fyrir að flytja þetta frv. Það er síður en svo. Ég er ánægður með það að verðjöfnunargjaldið skuli framlengt. En ég vek hins vegar athygli á því að flutningur frv. ber vott um mikinn hringlandahátt hjá ríkisstj. og er ekki í neinu samræmi við allar þessar miklu yfirlýsingar fyrrverandi orkuráðherra sem birtust okkur þm. fyrir einu ári síðan. Og vissulega hlýtur að vera nú tilefni til þess að spyrja hæstv. ráðh. að því þegar hann tilkynnir það hér að þetta gjald eigi bara að standa nú í eitt ár:

Í fyrsta lagi hvað þá eigi að taka við. Það væri fróðlegt að vita það hvort ríkisstj. sé gjörsamlega stefnulaus hvað það snertir, að hún sé bara hér að framlengja - í einhverju ráðleysi greinilega þvert gegn sinni eigin stefnu -þetta gjald sem ég er út af fyrir sig ánægður með vegna þess að ég vil halda gjaldinu, eða hvort fyrirhugaðar eru þá einhverjar breytingar eftir eitt ár.

Og í öðru lagi hvort núverandi orkuráðherra vilji sjá svo til að í tíð hans, því hann er nú nýbyrjaður störf á þessu sviði, verði tryggt að munurinn milli orkuverðs í dreifbýli og svo aftur á þéttbýlisstöðum aukist ekki enn frekar en orðið er, heldur verði reynt að stíga þar ákveðin skref til verðjöfnunar.