11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

184. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Ég skal játa að ég hef ekki haft tíma til að fara í gegnum þetta frv. eins og hefði þurft að gera fyrir slíka umræðu, en þar sem ég á ekki sæti í þeirri nefnd sem um það fj allar vildi ég minnast á fáeina liði.

Í stöðunni núna er ekki um annað að ræða en að framlengja þetta gjald. Ég held að það séu allir sammála um það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að þetta er enginn hringlandaháttur. Þetta er afmarkaður tekjustofn. Þetta á fullkominn rétt á sér eins og ástandið er.

Það sem ég vildi aftur á móti minnast á er hvernig þeim tekjum sem aflað er með þessu gjaldi er varið. Frv. segir að það séu 20% í Orkubú Vestfjarða og 80% sem fari til Rafmagnsveitna ríkisins. Það er víst full þörf á þessu. En hvernig stendur á því að þarna er niðurgreitt rafmagn til hitunar sem gerir allmikla röskun á töxtum annarra rafveitna?

Ég rek augun í töflu á bls. 20 frá Sambandi íslenskra rafveitna. Þar er raforkuverðið samkvæmt gjaldskrá 1. okt. 1985. Í dálki 2 er talað um húshitun. Rafmagnsveitur ríkisins selja niðurgreitt rafmagn til húshitunar á 0,93 kr., en það er 1,56 kr. í taxta. Orkubú Vestfjarða er með 1,58 kr. í taxta, en með niðurgreiðslum er verðið 0,95 kr. Ég þarf ekki að rekja þetta lengur. Þannig er þetta víða á svæðinu.

Ég bendi á þetta vegna þess að sum byggðarlög, og þar skal ég koma beint að efninu, t.d. hitaveitusvæði Akraness og Borgarfjarðar og sama hygg ég að sé að segja um Akureyri og tvær aðrar minni veitur í landinu, greiða orðið það háan hitunarkostnað að hitaveitur þar eru komnar í jafnháan taxta og kynt væri með olíu. Væri þá nokkurt óréttlæti í því að þessi veitusvæði, sem þannig er ástatt um, fengju einhvern hluta af verðjöfnunargjaldinu til að greiða niður hjá sér? Ég sé enga sanngirni í því að sum svæði á landinu fái styrk með verðjöfnunargjaldinu meðan önnur verða að nota hæstu taxta. - Ég heyri að þm. Egill Jónsson biður um orðið á eftir. Ég tek það fram að ef ég tala af ókunnugleika verður það leiðrétt. - En ég tel ekki sanngirni í því t.d. að íbúar Akraness greiði 13,5 millj., að ég best veit, í verðjöfnunargjald af rafmagni á sama tíma sem þeir borga toppprísinn til húshitunar hjá sinni hitaveitu. Er ekki hægt að jafna þarna eitthvað á milli án þess að vera að mismuna fólki verulega? Það var einu sinni glæsilegt að hafa nýjar hitaveitur og talað mikið um að þær væru innlend orka og ómissandi fyrir íbúa staðanna, en núna er að bresta á að vissu leyti, ég segi ekki landflótti en fólk hugsar sig mjög um hvað snertir búsetu vegna þessa, eins og var áður á hinum dýru rafhituðu svæðum.

Þetta vildi ég benda á hér og hvort það væri réttlæti í þessum efnum. Þó geri ég mér ljóst að hitaveita og rafveita er ekki það sama. En þetta er samanburður milli svæða sem hlýtur að vera mjög stingandi fyrir menn að horfa á.