11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

184. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Valdimar Indriðason flokksbróðir minn og vinur, heyrði á hljóðinu að ég bað um orðið. (VI: Ég þekkti hljóðið.) Ég geri ráð fyrir því að hann hafi kannske vitað hvað ég mundi hugsa þegar hann fór að tala í þessum dúr.

Það sem ég vildi vekja sérstaklega athygli á er að blanda ekki saman niðurgreiðslu á raforku til húsahitunar og verðjöfnunargjaldinu. Þetta er sitt hvort málið, alveg aðgreind mál út af fyrir sig. Þess vegna á niðurgreiðslan á raforku ekki neitt erindi inn í þessa umræðu sem slík.

En af þessu sérstaka tilefni og þar sem hv. þm. var að bera saman aðstöðu fólksins sem býr við rafhitun annars vegar og hinar svokölluðu dýru hitaveitur hins vegar má ég þó til með að benda á tvö atriði í þeirri umræðu sem menn leiða gjarnan hjá sér þegar verið er að gera samanburð um þessar stærðir.

Í fyrsta lagi er þessi samanburður ekki réttur. Hann byggist á taxtasamanburði. Þá vil ég biðja hv. þm. Valdimar Indriðason að taka vel eftir. (VI: Ég hlusta gaumgæfilega.) Hann byggist ekki á samanburði á raunkostnaði. Slík athugun hefur verið framkvæmd af þekktri verkfræðistofu í þessum bæ og þar kemur í ljós að miðað við taxtasamanburð er húshitunarkostnaður hjá dýru hitaveitunum ofreiknaður um 20-25%. Það er kannske af þessari ástæðu t.d. að Hitaveita Akureyrar hefur breytt um fyrirkomulag á ákvörðun á töxtum. Þetta mega menn til með, a.m.k. á þessum stað, að hafa með í umræðunni og samanburðinum um þessi tvö rekstrarform.

Hitt er svo líka mjög mikilvægt að menn taki með í umræðuna að sem betur fer eru þau byggðarlög sem eru með góðar hitaveitur, þótt þær séu með háa taxta, að eignast mjög dýrmæt fyrirtæki. Ég held að Hitaveita Akraness sé mjög gott fyrirtæki og eigi eftir að verða mjög gott fyrirtæki. Það er þess vegna alveg augljóst mál að þeir íbúar sem eiga heima í þessum byggðarlögum eru að eignast þarna mjög verðmæt fyrirtæki sem eiga eftir að skila mjög miklum hagnaði fyrir íbúana sem þar búa, sem betur fer. Það er í höndum bæjaryfirvalda á hverjum stað með hvaða hætti þau greiða niður sín fyrirtæki, hvort þau eru einvörðungu greidd með rekstrinum einum eða með töxtum.

Það eru til hitaveitur hér á landi sem eru lagðar um sveitahreppa fleiri tugi km. Ég veit t.d. um eina hitaveitu sem ég held að sé yfir 30 km að lengd og fyrir 40 notendur. Ég geri ráð fyrir að hitunarkostnaðurinn þar sé ekki hærri, hann er kannske lægri, en uppi á Akranesi. Ástæðan er sú að í þessum tilvikum eru þessar framkvæmdir fjármagnaðar með öðrum hætti en með erlendri lántöku. Sveitarfélögin hafa nefnilega vissar leiðir í þessum efnum.

Þetta fannst mér alveg nauðsynlegt að láta koma fram. Það er líka augljóst mál að hitaveitan á Akranesi og reyndar fleiri dýrar hitaveitur standa frammi fyrir vanda í rekstri, en hitt hlýtur að vera augljóst og menn vonandi sammála um að þann vanda beri ekki að leysa með því að skapa nýjan vanda á öðrum stað eða stöðum.