11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

184. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Þetta mun vera 25. fundur þessarar hv. deildar og á dagskrá fundarins í dag eru 17 mál. Ég held að það sé í fyrsta skiptið sem ég hef hlustað á þingfréttir í útvarpinu og þingfréttaritari taldi ekki ástæðu til að telja upp hvert það mál sem væri á dagskrá deildarinnar þar til nú að hann nefndi að það væru 17. Hingað til hafa því ekki verið það mörg mál á þessari dagskrá að við höfum í fæstum tilfellum notað þann tíma sem deildunum hefur verið ætlaður til funda. Nú eru hér allt í einu 17 mál á dagskrá og m.a. það mál sem hér er til umræðu, komið frá ríkisstj., mál sem hefði verið hægt að leggja fyrir deildina fyrir löngu síðan og hefði verið hægt að afgreiða frá deildinni. En nú eru trippin rekin þannig að það er þrýst hér inn málum sem ætlast er til að séu afgreidd á skömmum tíma.

Þetta mál er óskaplega lítið í sniðum en samt í eðli sínu dálítið sérstakt. Það er aðeins um framlengingu ákveðinnar millifærslu, en millifærslu sem var búið að lýsa yfir hér á hv. Alþingi fyrir ári síðan að mundi verða breytt með stórum orðum yfirlýsingar um það að þetta verðmiðlunargjald yrði fellt niður í áföngum. En nú á síðustu dögum þingsins kemur síðan frv. um að ekki verði staðið við þessi fyrirheit ríkisstj., lagt fram frv. um að fallið hafi verið frá öllum fyrri fyrirheitum.

Í athugasemdunum er þó fyrirheit um að staðið skuli við þessi loforð, það skuli bara gert á næsta ári. Þetta eru svipuð loforð og hæstv. ríkisstj. hefur verið að gefa undanfarandi og gaf okkur t.d. í sambandi við samþykkt vegáætlunar sem ég hef nefnt hér í þessum ræðustól fyrr í haust, samþykkt vegáætlunar í vor. Þá var gerð samþykkt um hvernig þar skyldi að staðið næstu tvö árin. Það liðu ekki nema fjórir mánuðir þar til fallið var frá því. Einhvern veginn liggur það beint fyrir að manni finnist sem ekki sé ætlunin að standa við það sem hér er gefið fyrirheit um.

En það sem kom mér frekast til að standa hér upp og biðja um orðið var ræða hv. 3. þm. Vesturl. þar sem hann benti á það misræmi sem væri í orkuverði hér á landi og nauðsyn þess að það væru fleiri en raforkunotendur sem nytu þeirrar verðjöfnunar sem hér er verið að leggja til að haldið verði áfram. Ég vil leyfa mér að taka undir þessi tilmæli og þessa ábendingu hv. 3. þm. Vesturl. og undirstrika það sem hann sagði hér að það er ansi mikið misræmi í því að verið sé að greiða niður raforku til húsahitunar á sama tíma og þarf að innheimta mjög hátt orkugjald, eins og á sér stað á hitaveitusvæði Akraness og Borgarness.

Ég lít svo á að það sem hv. 11. landsk. þm. sagði hér í sambandi við hitaveitur eins og Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar að það ætti bara að taka úr sveitarsjóðunum og borga niður - (EgJ: Sagði hann það?) Það var nálægt því að ýmis sveitarfélög borguðu sín fyrirtæki niður á ýmsan máta, ekki endilega með taxtagjaldi. Það lá í orðum hans að hægt væri að gera það með beinum greiðslum á annan máta. Það er varla um aðrar leiðir að ræða en að gera það með beinu taxtagjaldi ellegar þá beinum greiðslum úr viðkomandi bæjar- eða sveitarfélögum. Ég sé ekki þar neinn mun á milli nema þá að einhverjar aðgerðir af ríkisins hálfu komi til, einhver millifærsla, eins og hv. 3. þm. Vesturl. benti á að eðlilegt væri að gera og þyrfti að skoða.

Ég tel fulla ástæðu til þess að í sambandi við umfjöllun þessa máls verði þessi þáttur skoðaður, hvort ekki sé æskilegt að líta á stöðu þeirra hitaveitna sem nú standa mjög höllum fæti og eru með mjög hátt orkugjald. Á ekki að leita ráða til þess að fá annaðhvort fjármagn úr þessum verðjöfnunarsjóði eða finna einhverja aðra leið til að létta byrði þessara hitaveitna?

Þetta frv. kemur til þeirrar nefndar sem ég á sæti í og ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar nú um það.