11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

184. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Valdimar Indriðason sagði að þetta gjald ætti fullan rétt á sér. Ég var eingöngu að benda hér á hvers vegna þörf er á þessu gjaldi. Ég vil vitna hér, með leyfi virðulegs forseta, í skýringar með þessu lagafrumvarpi þar sem það er réttlætt að ríkissjóður taki hér yfir 3000 millj.:

„Tillaga þessi um yfirtöku áhvílandi lána er studd þeim rökum að hin mikla byrði óhagkvæmra lána eigi í verulegum mæli rót að rekja til ákvarðana stjórnvalda um óarðbærar framkvæmdir fyrirtækjanna.“

Þetta stendur hér og þetta er orsökin. Loksins eru menn farnir að viðurkenna það með lagafrumvörpum. Þetta eru ekki eingöngu mín orð. Í kaflanum „Aðrar tillögur“ er tekið til að 1. jan. 1986 ætti ríkissjóður að taka yfir lán frá Rafmagnsveitum ríkisins upp á 2275 millj. kr. og frá Orkubúi Vestfjarða 392 millj. 1987 ætti síðan að taka við láni frá Rafmagnsveitum ríkisins upp á 665 millj. og Orkubúi Vestfjarða 392 millj. Hér sitjum við endanlega með þessi lán. Það eru landsmenn sem þurfa að greiða þetta og hér er bara verið að fara þá leið að færa þetta úr ríkissjóði og greiða niður orkuna svo að þetta komi ekki beint í skattahækkunum til launþega í landinu.

Í fskj. á bls. 15 kemur fram í rekstraráætlun Orkubús Vestfjarða að þeir reikna einfaldlega með því að eftir 1986 falli þetta verðjöfnunargjald niður og í stað þess verði afborganir af eldri lánum núll. Eftir eitt ár ættum við skv. þessu að standa frammi fyrir því að taka yfir þessi lán. Það þýðir ekkert við þessa umræðu að þrátta um það hvernig eigi að greiða þetta niður. Við komum líklega að því líka að þurfa að taka yfir skuldir þessara hitaveitna, sem hér er verið að tala um að fara að greiða niður orkukostnað hjá, því að það er fjármagnskostnaðurinn sem líka er að setja þessar hitaveitur á hausinn. Við skulum því ræða hér um staðreyndir.

Er hægt með einhverju öðru móti að lagfæra þessa hluti, að við séum ekki ár eftir ár að hækka skatta á launþegum landsins til að borga niður óarðbærar fjárfestingar? Það hlýtur að koma að því að hver einasti landsmaður fer á hausinn ef þetta heldur áfram öllu lengur. Við stöndum ekki undir þessu í mörg ár í viðbót.