11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

184. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Það eru líklega ekki fleiri þm. Vesturl. í salnum en ég skal vera stuttorður. Hér var aðeins vikið að Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Það er mála sannast að hitaveitan er í miklum fjárhagsvanda og þarf ekki að rekja það. Ég vildi í þessu sambandi spyrja hæstv. iðnrh. að því á hvaða stigi viðræður forsvarsaðila hitaveitunnar eru við ráðuneytið og ríkisstj. Forsvarsaðilar veitunnar hafa haft uppi ýmsar tillögur í þessu efni vegna erfiðrar fjárhagsstöðu Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.

Það hefur raunar margoft komið fram í umræðum um Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar að hæstv. fyrrv. iðnrh. Sverrir Hermannsson hafi gefið yfirlýsingar vegna Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Í þessu efni var rætt um að hitaveitan þyrfti, til þess að standa sæmilega undir sér, að losna við af sínum fjárhagsklyfjum 6 millj. dollara. Mig langar sem sagt að heyra það frá hæstv. núv. iðnrh. á hvaða stigi þessi mál eru, á hvaða stigi viðræður eru um Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar við stjórnvöld.

Varðandi þau orð sem hér hafa fallið og verðjöfnunargjaldið er ljóst að vegna fjárhagsstöðu Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða er full þörf á afrakstri þessarar gjaldtöku til að létta undir með þessum fyrirtækjum. Ég tel þessa millifærslu fullkomlega réttlætanlega en vænti svara frá hæstv. iðnrh. um það sem ég spurði um.