11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

184. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Til að svara hv. síðasta ræðumanni vil ég segja að umræður hafa farið fram við iðnrh. um vanda Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar en þær eru ekki komnar á lokastig. Það eru margar ráðstafanir sem þar koma til greina, m.a. að fulltengja hitaveituna við þá sem ekki hafa hitaveitu í dag en hafa þó verið hvattir til að nota annars konar húshitunaraðferðir af opinberum aðilum. En málið er ekki komið á það lokastig að ég geti greint nánar frá því.

Ég vil biðja hv. þdm. um að hraða afgreiðslu þessa máls til nefndar og svo í nefnd því að það þarf að framlengja þetta frv. fyrir jólafrí.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. talaði hér um stefnu ríkisstj. og að hún sé að fella að fullu niður verðjöfnunargjaldið. Það er rétt og það er niðurstaða meiri hluta nefndar sem skoðaði þetta mál. En eins og við báðir vitum, sem erum báðir fyrrv. fjmrh., er ekki rétti tíminn til að gera það á þessu stigi og ég segi fyrir mína parta að ég treysti mér ekki til að mæla með því eftir ekki lengri tíma í embætti iðnrh. en raun ber vitni.

Ég fagna því að hv. þm. hefur lýst samstöðu með þessum þætti og geri alls ekki lítið úr þeim jöfnuði sem náðst hefur á milli taxta Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Rafmagnsveitna ríkisins í tíð Hjörleifs Guttormssonar sem iðnrh.

Hvað á að taka við að ári - það get ég ekki gefið upp að sinni. Stefna ríkisstj. er óbreytt, hér er um frestun að ræða. Ef ég sé ástæðu til að breyta henni mun ég gera það á því tímabili. En ég tek líka undir það hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. að það þarf að tryggja það, hvað sem gert verður, að munurinn á orkuverði milli dreifbýlis og þéttbýlis aukist ekki.

Ég endurtek ósk mína um að þetta frv. megi fá hraða afgreiðslu í þessari hv. deild og nefndum.