11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

184. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ef ég ræð mér mann til að hreinsa húsið mitt þá segist hann ætla að hreinsa húsið mitt og hann ætli að taka fyrir það ákveðið gjald. Ég borga honum fyrir það og hann skilar mér þessu verki á einhverjum ákveðnum tíma. Ef hann ekki gerir það hefur hann ekki unnið til launa sinna.

Það er stefna ríkisstj., segir hæstv. iðnrh., að afnema verðjöfnunargjald. Þessi ríkisstj. á núna eitt ár eftir, þ.e. það eru þrjú ár gengin af hennar stjórnartíð. Hún er búin að tapa af sénsinum að halda stefnunni, þ.e. hún stendur ekki við það verk sem hún tók sér fyrir hendur. Hún ætlar ekki að skila því verki sem hún lofaði að skila. Því miður er ekki hægt fyrir þjóðina að taka þessa menn af launum, hún á engan kost annan en að segja afstöðu sína til þeirra að stjórnartíma þeirra liðnum en þá með þeim undarlega hætti, sem við þekkjum af okkar kosningalöggjöf, sem gerir kjósandanum nánast ókleift að segja skoðun sína.

Hvenær í ósköpunum á þessu að linna hér á landi að menn skuli komast upp með það ár eftir ár, stjórnartíma eftir stjórnartíma, að segjast ætla að gera þetta og segjast ætla að gera hitt og gera aldrei neitt og fólkið búi áfram við sama klúðrið ár fram af ári og áratug fram af áratug? Er það virkilega þannig að ekki sé til í landinu sá mannskapur sem getur tekið að sér að stjórna þessu tiltölulega litla þjóðfélagi með tiltölulega litlu vandamál miðað við aðrar þjóðir þannig að skaplegt sé að lifa í þessu landi og fólk geti einhvern tíma sagt og horft yfir farinn veg: „Mikið andskoti var gott að lifa þá.“