11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

175. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir litlu frv. sem er árlegur gestur á þessum tíma árs. Það er í raun og veru fylgifrv. með fjárlagafrv. en varðar sjúkratryggingar. Það er framlenging á ákvæðinu um 2% sjúkratryggingagjald eða öllu heldur breyting á þeirri upphæð í samræmi við fjárlagafrv. Þetta hefur nú staðið um nokkurra ára skeið. Álagt sjúkratryggingagjald á yfirstandandi ári er um 170 millj. kr. og áætlað að innheimtist af því um 150 millj. Ætla má að álagning sjúkratryggingagjalds á árinu 1986 verði um 225 millj. og af því innheimtist um 200 millj. Þessi upphæð byggist á spá Þjóðhagsstofnunar um breytingar á milli áranna 1984 og 1985. Sú tala var því miður ekki alveg staðfest af Þjóðhagsstofnun þegar þetta frv. fór í prentun en verður það væntanlega áður en frv. kemur úr nefnd, sem ég vonast til að verði nú mjög skjótlega þannig að þetta frv. geti fylgt afgreiðslu mála nú fyrir jólin, enda nauðsynlegt til að samræmi sé á milli þessa þáttar og fjárlaganna.

Ég bendi á að í þessu frv. er einnig lagt til að gjaldstofn sjúkratryggingagjalds, þ.e. sú upphæð sem ekkert gjald skal leggjast á, hækkar úr 296 þús. í 403 þús.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn. vegna þess að hér er um mál að ræða sem varðar Tryggingastofnunina. Þó að í raun og veru sé það skattlagning líka, eða fylgi skattheimtu næsta ár, þá mun það hafa verið á undanförnum árum svo að þessum málum hefur verið vísað til heilbr.- og trn.