11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

186. mál, almannatryggingar

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ég lýsi stuðningi við frv. og skil það vel að það er nauðsynlegt að breyta þarna orðalagi úr því að þannig er tekið á þessu máli hjá Tryggingastofnun á þann stífasta máta sem unnt er að gera, eins og gjarnan er gert á þeim bæ, því miður, og sjálfsagt að laga það til. Hér er að vísu um tiltölulega lítið mál að ræða í þessum stóra málaflokki sem tengist fæðingarorlofi almennt og lengingu þess.

Ég vildi aðeins, vegna þess að það er alkunna hér á þingi að hæstv. núv. heilbr.- og trmrh. hefur haft sérstakan áhuga á þessum málum og beitti sér á sínum tíma fyrir ákveðinni lausn varðandi fæðingarorlofsmál, koma inn á þau mál nú, m.a. með tilliti til þess að hér hefur verið lagt fram í deildinni enn á ný, frv. til laga um lengingu fæðingarorlofs í sex mánuði, sem er flutt af hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, og ég tel óhjákvæmilegt að heilbr.- og trn., þegar hún fær það mál til umræðu, taki fyrir og afgreiði frá sér með einhverjum hætti það mál í stað þess, eins og verið hefur núna síðustu tvö ár, að það hefur ekki verið afgreitt. Ég hef sagt það hér áður og segi það enn að í ljósi þess hvað þetta er mikilvægt mál þá megi það ekki dragast lengur að ákveðin áfangalausn a.m.k. til viðbótar fáist í þetta mál, þó við göngum nú kannske ekki götuna alveg til enda eins og gert er ráð fyrir í frv. hv. þm. Sigríðar Dúnu - og væri það þó það æskilegasta og besta.

En í ljósi þessa þá vildi ég beina þeirri fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. hvort fyrirhugað sé af hálfu hæstv. ráðh. að leggja fram frv. um breytingu á fæðingarorlofi, lengingu þess á einhvern hátt, jöfnun þess á einhvern hátt, frá því sem nú er. Það er ágætt að fá upplýsingar um það nú, áður en við förum á síðari stigum að fjalla um frv. á þskj. 205, hvort einhverjar ráðagerðir eru uppi hjá hæstv. ráðh. - sem ég endurtek að hefur sýnt þessu máli og sýndi því á sínum tíma mikinn áhuga og kom ákveðinni lausn í gegnum þingið - hvort hæstv. ráðh. er með ráðagerðir á prjónunum um það að vinna að áfangalausn þessa máls nú, eða hvort það er ákveðið að láta það mál vera í þeim óviðunandi farvegi sem það er í í dag, vegna þess að þegar þessu var breytt síðast þá var vitað mál að þar var um áfangalausn eina að ræða og þurfti miklu betur að gera.