11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég verð vör við það að ef menn kveðja sér hljóðs á þessum degi í hv. Alþingi dæsa menn. Við erum strax komin í tímaþröng. En ég hef yfirleitt ekki eytt löngum tíma í ræðustól þannig að ég hef ekkert á samviskunni þó að ég standi upp og geri örfáar athugasemdir.

Þar sem hæstv. ráðh. minntist á húsnæðismálin vildi ég segja að ég hafði nákvæmlega sama skilning á þessu máli og hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. En hæstv. ráðh. hefur rétt fyrir sér. Þetta er auðvitað ekki bundið í lögum. En skilningur alþm. þegar viðbótarlög voru samþykkt um fjáröflun til húsnæðismála, skilningur stjórnarandstöðuþingmanna a.m.k., var sá að þarna væri um viðbót að ræða við það fé sem áætlað er í lögum og sú viðbót var áætluð tímabundið í tvö ár ef ég man rétt. Mér finnst því alveg rétt að álykta sem svo að hér sé um að ræða 60 millj. kr. lækkun frá því fjármagni sem eðlilegt hefði verið að færi til húsnæðismála.

Eins og ég sagði í upphafi ætta ég ekki að helga mér langan tíma í þessari umræðu, en langar samt að leggja fram örfáar spurningar.

Þrátt fyrir ákvæði laga, stendur hér. Þetta var líka á s.l. ári. Þrátt fyrir ákvæði laga skal þessi og hinn sjóðurinn skerðast. En hvað kom á daginn? Jú, það komu aukafjárveitingar. Það var ekkert að marka það sem samþykkt var á Alþingi og hét „Þrátt fyrir ákvæði laga“. Í mörgum tilfellum var fyllt upp í ákvæði laga með aukafjárveitingum. Er þá ekki alveg eins gott að við fáum yfirlýsingu um það nú að annaðhvort verði ekki aukafjárveitingar til að fylla upp í þessi ákvæði, þannig að þetta sé marktækt, eða það verði ákveðnar aukafjárveitingar til að fylla upp í ákvæði laga svo að í raun og sannleika verði aldrei um neina skerðingu að ræða? Mér finnst það skipta töluverðu máli að við séum að fjalla um marktæk plögg. Mér finnst það skipta töluverðu máli þegar við erum að tala um ríkisfjármál hvort hallinn verður rúmar 700 millj. eða hvort hallinn verður 2,5 milljarðar eins og við stöndum frammi fyrir núna. Þetta hefur þó nokkuð að segja varðandi erlenda skuldasöfnun. Það er alltaf hægt að nota reiknitölur og fá út prósentur eins og hér eru: 52,9% af landsframleiðslu standa erlendar skuldir í 1986. En það er búið að breyta reikningsaðferðinni. Nú er mér ekki nákvæmlega kunnugt um hvernig henni var breytt og hvernig mál stæðu væri reiknað eftir þeirri gömlu reiknitölu sem áður var og áætlaði að skuldahlutfallið væri 63,9% í árslok 1985. Hér er því mjög erfitt að bera saman vegna þess að þær forsendur vantar sem liggja til grundvallar.

En virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja tímann lengur, en ræði væntanlega um þetta betur við 3. umr.