11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Í ræðu minni áðan beindi ég einni spurningu til hæstv. fjmrh., en henni var ekki svarað hér þannig að ég ítreka nú spurningu mína.

Ég spurði hæstv. fjmrh. að því hverjar væru, miðað við það frv. til lánsfjárlaga sem hér liggur fyrir, erlendar skuldir í hlutfalli af þjóðarframleiðslu. (Fjmrh.: Ég svaraði því.) Nei, því svaraði hæstv. fjmrh. ekki samkvæmt þeirri reikningsreglu sem var notuð þegar þetta var reiknað út á síðasta ári, hann svaraði samkvæmt nýju reiknireglunni, ekki samkvæmt þeirri reglu sem áður var notuð. Þetta reyndi hv. frsm. minni hluta fjh.og viðskn. að fá upp gefið og út reiknað eftir að málið var afgreitt frá nefndinni en tókst ekki. Þjóðhagsstofnun gat ekki lagt honum þessa tölu til. Ég geri samt ráð fyrir því að hæstv. fjmrh. hljóti að hafa þessa tölu, því hvernig á hann annars að sjá hvort raunveruleg aukning er á erlendum lántökum á milli ára eða ekki? Hvernig á hann annars að geta gert grein fyrir þeirri stefnu sem hann stendur að í frv. til lánsfjárlaga. Ég fer þess á leit við hæstv. ráðh. að hann reyni að svara þessari spurningu hér.

Það sem hæstv. ráðh. hins vegar gerði þegar hann kom hér í ræðustól var að snúa út úr orðum mínum varðandi Byggingarsjóð ríkisins. Hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir er að vísu búin að koma hér í stólinn í millitíðinni og staðfesta að hennar skilningur á þeim 600 millj. til Byggingarsjóðs ríkisins, sem hér er um að ræða, sé sá sami og minn. Hæstv. fjmrh. til fróðleiks skal ég lesa fyrir hann það sem stendur í grg. með frv. til laga um sérstaka fjáröflun vegna húsnæðismála á árunum 1985 og 1986 þar sem fyrsti flm. er Páll Pétursson og hæstv. fjmrh. sjálfur var flm. að á síðasta þingi. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Þó að stjórnarflokkarnir hafi þannig beitt sér fyrir ýmsum ráðstöfunum í þágu húsbyggjenda og húskaupenda eru mörg viðfangsefni óleyst í húsnæðismálum, ekki síst vegna þess vanda sem skapast hefur vegna misgengis milli launa og lánskjara. Það er hins vegar ógjörningur að auka fjárframlög hins opinbera til þess málaflokks nema sérstök fjáröflun komi til, bæði vegna halla á ríkissjóði og eins þess að aukinni lántöku erlendis hefur verið hafnað. Til þess að unnt sé að taka á brýnasta vanda húsbyggjenda og húskaupenda er með þessu lagafrv. gerð tillaga um sérstaka fjáröflun til þeirra viðbótarráðstafana“ - ég endurtek, viðbótaráðstafana - „sem stjórnarflokkarnir hafa gert og munu beita sér fyrir á þessu ári.“

Það er alveg ljóst af grg. með þessu frv., sem hefur halað inn þær 600 millj. sem hér er um að ræða, að hér er um viðbótarfjárframlög að ræða. Enda kemur það skýrt fram í því bréfi, sem kom í gær frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun til fjh.- og viðskn. Alþingis, að 600 millj. af þeim 1300, sem ætlaðar eru til Byggingarsjóðs ríkisins, eru vegna þessarar sérstöku fjáröflunar. Ef við drögum þessar 600 millj. frá kemur í ljós að það vantar 60 millj. í Byggingarsjóð ríkisins. Hjá því verður ekki vikist, hæstv. fjmrh.

Ég gerði að umræðuefni í ræðu minni hérna áðan að halli á fjárlögum þessa árs hefði farið langt fram úr áætlun. Við afgreiðslu fjárlaga þessa árs fyrir ári síðan var gert ráð fyrir að halli á fjárlögum yrði 743 millj. kr., eða þar um bil. Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar í fyrradag stefnir nú allt í það að hallinn á fjárlögum ársins verði 2000 til 2500 millj. kr. Við erum hér að ræða frv. til lánsfjárlaga, frv. um það hvernig tekið verði fé til þess m.a. að mæta þessum halla. Nú spyr ég hæstv, fjmrh.: Hvernig hefur hann hugsað sér að brúa þetta bil? Þýðir þessi stóraukni halli á fjárlögum, að það lánsfjárfrv., sem við erum hér að ræða, sé ekki bara „aðeins svolítið ómarktækt“, eins og hefur verið látið í veðri vaka, heldur fullkomlega ómarktækt því að hér er um 1500-2000 millj. mismun að ræða?