11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég ítreka það enn á ný að hér er um sanngirnismál að ræða, þ.e. brtt. sem fyrir liggur, og bendi á að hæstv. iðnrh. talaði um að áhrif Keflavíkurbæjar væru tryggð. Það væri náttúrlega alveg eins hjá ríkinu þó að það hefði einn fulltrúa í staðinn fyrir tvo. Það er sanngirnismál að ríkið hafi ekki tvo fulltrúa en Keflavíkurbær með helmingi hærri eignaraðild hafi aðeins einn.

Ég bendi á, í framhaldi af því sem hv. þm. Skúli Alexandersson sagði áðan, að Alþfl. er næststærsta stjórnmálaaflið á Suðurnesjum, en við höfum hvergi fulltrúa í þessari stjórn eða stjórnum vegna samsetningar meiri hluta. Og ég er alveg sannfærður um það að hefði þetta frv. verið sent til bæjarstjórna og sveitarstjórna á Suðurnesjum hefði þessi tillaga mín hlotið stuðning. Ég er sannfærður um það. Ég féll hins vegar frá því að frv. yrði sent til sveitarstjórnanna til umsagnar vegna þess að lögð var á það mikil áhersla að frv. fengi afgreiðslu fyrir jól.

Það er mjög óeðlilegt að fulltrúalýðræði skuli vera þannig uppbyggt að jafnsterkur aðili og Alþfl. er á Suðurnesjum skuli ekki hafa tækifæri til þess að segja sitt álit. Þeir sem undirrita þetta fyrir hönd Keflavíkurbæjar eru fulltrúar meiri hlutans og hefði þetta komist inn til bæjarstjórnar Keflavíkur til ákvarðanatöku, sem ekki hefur gerst, er ég alveg sannfærður um að þeir hefðu léð þessari brtt. minni atkvæði og sveitarfélögin önnur sem þarna eru. Enda sjá allir sem sjá vilja að hér er um sanngirnismál að ræða og mjög eðlilegt að þessi háttur sé á hafður.