11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Ég skal í raun og veru engu mótmæla sem hv. 6. landsk. sagði um sanngirni þess að Keflavík hefði fleiri fulltrúa í stjórn Hitaveitu Suðurnesja en frv. gerir ráð fyrir. Ég skal engu mótmæla um það sem hann dró upp að reikningslega miðað við eignaraðild væri það ekki óeðlilegt og ríkið hefði minni hlut.

En í mínum huga er það ekki þetta sem skiptir máli heldur það hvað eignaraðilarnir hafa samið um. Þeir hafa samið um það sem er í frv. Því legg ég áherslu á að það er eðlilegt að frv. sé samþykkt óbreytt. Það er í samræmi við þann vilja sem fram hefur komið í samningum eignaraðila.