11.12.1985
Neðri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

127. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það er 127. mál Ed. Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði hefur verið lagður á síðan 1979. Hann hefur verið lagður á með sérstökum lögum sem gilt hafa í eitt ár í senn. Á þessu ári er gert ráð fyrir að innheimtar tekjur af þessum skatti verði 90 millj. kr. Það er ráð fyrir því gert í fjárlagafrv. að skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði nemi um 110 millj. kr. en skili í innheimtum tekjum um 100 millj. kr. Af þeim sökum er frv. þetta lagt fram fyrir Alþingi nú. Ég tel að að svo stöddu þurfi ekki frekari skýringa við. Frv. gerir ráð fyrir að skatthlutfallið haldist óbreytt og þessi tekjustofn verði framlengdur um eitt ár svo sem verið hefur hin síðari ár. Ég vænti þess að góð samvinna takist um skjóta afgreiðslu málsins hér í hv. Nd. og legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.