11.12.1985
Neðri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 2. minni hl. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 2. minni hl. iðnn. um frv. til laga um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um álbræðslu við Straumsvík, en þetta nál. er undirritað af fulltrúum Sjálfstfl. í nefndinni.

Eins og fram kemur í nál. hefur nefndin fjallað mjög ítarlega um þetta frv. á mörgum fundum og þau fylgiskjöl sem frv. fylgdu og fengið á sinn fund allmarga sérfræðinga svo og flesta þá sem stóðu í þessari samningsgerð og að henni unnu.

1. umr. um þetta mál var mjög ítarleg. Þá var rakinn sögulegur aðdragandi þessarar samningsgerðar og raktir fyrri samningar sem tengjast þessum samningum og 4. viðauki er hluti af. Ég ætla þess vegna ekki að endurtaka það, en halda mig við efni samningsins sem hér liggur fyrir og þá fyrst og fremst í ljósi nýrra upplýsinga sem fram komu í nefndinni, auk þess sem ég mun nokkuð reyna að svara a.m.k. sumu af því sem fram kom í ræðu hv. 5. þm. Austurl. áðan.

Frv. þetta felur í sér staðfestingu á 4. viðauka við aðalsamning milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium sem undirritaður var hinn 11. nóv. s.l. Þær breytingar, sem þetta samkomulag felur í sér á aðalsamningi milli aðila, eru í meginatriðum þríþættar.

Í fyrsta lagi er samið um nýja tilhögun á framkvæmd þeirra reglna er fjalla um mat á hráefniskostnaði álbræðslunnar og verðlagningu afurða hennar með tilliti til skatts.

Í öðru lagi er samið um nýjar reglur varðandi fyrningar á fastafjármunum ÍSALs og jafnframt samið um að Alusuisse leggi fram nýtt eigið fé til ÍSALs á yfirstandandi ári að upphæð 40 millj. bandaríkjadollara. Þessi breyting hefur í för með sér breyttan og hækkaðan skattstofn frá því sem áður hefur verið.

Í þriðja lagi er samið svo um að ákvæðin um lágmarksskatt ÍSALs verði óbreytt þannig að félagið greiði framleiðslugjald sem nemur 20 bandaríkjadollurum á hvert tonn af framleiddu áli án tillits til tekna. Á hinn bóginn er gerð breyting á því framleiðslugjaldi sem er umfram lágmarksgjald þannig að árleg fjárhæð þess fari eftir hagnaði á undanfarandi ári samkvæmt ákveðnum skattstiga.

Ég ætla nú að fjalla nokkuð um hvert þessara atriða fyrir sig í ljósi þeirra upplýsinga og skýringa sem sérstaklega komu fram í nefndinni.

Í fyrsta lagi er hér um að ræða nýjar viðmiðunarreglur til skatts. Þegar metinn er hráefniskostnaður álbræðslunnar og verðlagning afurða hennar með tilliti til skatts hefur frá öndverðu verið byggt á almennri viðmiðun samkvæmt meginreglunni um viðskipti milli óháðra aðila, „arm's length dealings“, eins og það heitir á ensku, en reynslan hefur sýnt að hún hefur haft í för með sér verulega óvissu um mat á tekjum álbræðslunnar á einstökum árum vegna mismunandi skoðana um eðlilegt markaðsverð og aðrar aðstæður. Þetta hefur leitt til deilna á milli aðila.

Nú er gerð breyting á. Reglan um viðskipti óháðra aðila verður áfram grundvallarregla, en verður nú framkvæmd þannig að samið er um sérstök viðmiðunarverð sem ætlað er að gefi sem besta mynd af aðstæðum á hverjum tíma. Viðmiðunarverðin eiga að gilda um viðskipti milli ÍSALs og Alusuisse eða dótturfyrirtækja Alusuisse með ál, þ.e. um afurðir verksmiðjunnar, og um súrál og rafskaut til framleiðslunnar.

Það er í fyrsta lagi varðandi þennan þátt gerð ný skilgreining á heimsmarkaðsverði á áli. Hið nýja heimsmarkaðsverð er sett fram í bandaríkjasentum á pund af áli og styðst við fjórþætta viðmiðun, þ. e. skráð verð á viðskiptum á London Metal Exchange, skráð viðskipti um ál í Bandaríkjunum samkvæmt birtingu í tímaritinu Metal Weeks, verð samkvæmt alþjóðlegri verðvísitölu Pechiney, franska álfyrirtækisins, sem birt er í Metal Bulletin og söluverð í viðskiptum Alusuisse við óháða aðila. Þessi tvö fyrrnefndu eru leiðbeinandi um verð á opnum markaði austan hafs og vestan, en hin síðarnefndu um framleiðendaverð. Útreikninga á heimsmarkaðsverði samkvæmt þessum verðskilgreiningum á að framkvæma ársfjórðungslega fyrir undanfarandi ársfjórðung.

Í málsgr. 26.02 er mælt fyrir um sannprófun á einu þessara verða, sem gildir að 1/4, þ.e. á svokölluðu ASIP-verði, söluverði í viðskiptum Alusuisse við óháða aðila. Það er eðlilegt að það sé sérstakt ákvæði um sannprófun á þessu verði vegna þess að hér er um að ræða verð sem annar aðilinn, Alusuisse, notar í sölum til viðskiptavina sinna.

Það er gert ráð fyrir því að ef eitthvað brestur á þær upplýsingar sem á þarf að halda við útreikninginn um hina ýmsu þætti, ágreiningur verður og ríkisstj. og Alusuisse þurfi að semja um nýjan eða breyttan viðmiðunargrundvöll, geti aðilar leitað til fyrirtækis óháðra endurskoðenda sem aðilar tilnefna sameiginlega. Ég legg áherslu á að í þessu atriði, eins og reyndar fleiri atriðum í þessum samningi, er talað um fyrirtæki óháðra endurskoðenda. Nú er það auðvitað svo að aðilar velja sér sína endurskoðendur þegar þeir óska eftir yfirferð yfir reikninga, en óháðir endurskoðendur eru aðilar sem reiknað er með og fyrir því er alþjóðleg viðskiptavenja að þriðji aðili á að geta treyst því að það sem frá slíkum óháðum endurskoðanda komi sé rétt, þar á meðal skattyfirvöld í viðkomandi landi svo og ýmsir viðskiptaaðilar. Í sjálfu sér er því ekkert óeðlilegt við það að í þessu einstaka tilviki, þ.e. þegar fjalla á um 1/4 af þessu viðmiðunarverði, sé um að ræða óháð endurskoðendafyrirtæki sem aðilar tilnefna sameiginlega. Öll stóryrði um að hér sé verið að fyrirgera að einhverju fullveldisrétti þjóðar, eins og hér hefur komið fram, eru að sjálfsögðu gjörsamlega út í hött og sýna fádæma ofstæki í þessum málflutningi öllum. Varðandi súrálsverðið er gert ráð fyrir því að kostnaðarverð á súráli verði metið til skatts eftir ákveðnu vöruskiptahlutfalli milli súráls og áls og verður álið þá reiknað eftir ofangreindu heimsmarkaðsverði eins og það er á hverjum tíma. Er hlutfallið sem ákveðið er með þessum samningi 8:1 þannig að verð hverrar einingar af súráli verður 12,50% af sömu einingu af áli á heimsmarkaðsverði.

Nú er vitað að markaðsverð er ekki til á súráli eins og á áli. Við rennum því dálítið blint í sjóinn með það hvernig verðþróun á súráli muni verða, en í því efni var lögð fyrir nefndina nýjasta spá fyrirtækisins Chase Econometrics sem íslensk stjórnvöld hafa stuðst við, bæði núverandi iðnrh., fyrrverandi iðnrh. svo og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Þegar hann sat í iðnaðarráðherrastóli bar spár Chase Econometrics oft á góma og menn báru nokkurt traust til þeirra, eins og fram kom í ýmsum málatilbúnaði hv. þm.

En þessi spá Chase Econometrics, sem nefndin kynnti sér, ber það með sér að á þessu ári er hlutfallið milli súráls og áls 1:6,6 eða 15,05%. Árið 1990 er því spáð að það verði 1:7,1 eða 14%. Árið 1995 1:7,4 eða 13,5%. Miðað við þessar spár er hið umsamda hlutfall í þessum samningi hagstæðara fyrir okkur. Ég skal fúslega viðurkenna að erfitt er að meta þetta. Hér er um að ræða spá og allar spár byggjast á forsendum sem menn eru að reyna að meta og gera sér grein fyrir en geta auðvitað breyst.

Þriðja nýja viðmiðunin er varðandi kostnaðarverð ÍSALs á rafskautum, sem eru notuð til framleiðslunnar, og kveður á um að það verði ákveðið til skatts samkvæmt samningsbundnu verði milli Alusuisse og ÍSALs á viðkomandi ári með þeim fyrirvara að það verð sé ekki hærra en meðalverð í sölu Alusuisse á rafskautum til þriðja aðila á sama ári.

Það urðu nokkrar umræður í nefndinni um þetta ákvæði og þá ekki síst hvernig þetta verð er fundið. Í gr. 27.04 c-lið, en þar er fjallað um verð á rafskautum, segir að verð á rafskautum til annarra aðila en Alusuisse eða dótturfélaga Alusuisse á viðkomandi ári skuli fyrirtæki óháðra löggiltra endurskoðenda, sem Alusuisse tilnefnir og hefur aðgang að bókum Alusuisse, staðfesta gagnvart ríkisstj. eftir lok ársins. Að þessu ákvæði hefur verið fundið og menn bent á að með þessu sé Alusuisse fengið of mikið vald. En ég bendi á að hér er enn á ferðinni óháð endurskoðendafyrirtæki, fyrirtæki óháðra löggiltra endurskoðenda, sem á að senda upplýsingar til annars fyrirtækis óháðra löggiltra endurskoðenda með ákveðnum staðfestum upplýsingum úr bókhaldi Alusuisse. Miðað við þær alþjóðavenjur um traust á löggiltum alþjóðaendurskoðendafyrirtækjum hygg ég að eins vel sé búið um hnútana að þessu leyti og mögulegt er.

Ég vek sérstaka athygli á því, vegna þess skilnings sem hv. 5. þm. Austurl. vill leggja í þetta ákvæði, áð meiri hluti þeirra lögfræðinga sem nefndin fékk til viðtals við sig lítur svo á að staðfesting frá endurskoðunarfyrirtæki væri hluti af skattframtali ÍSALs. Eftir að skattframtal liggur fyrir með verði á rafskautum samkvæmt þessari reglu fara endurskoðendur íslenskra stjórnvalda frekar ofan í þetta mál eins og önnur og eiga sama rétt til endurskoðunar á þessu atriði og á öðrum í skattframtali. Ef upp kemur ágreiningur um einstök atriði hafa íslensk stjórnvöld fullkominn rétt til að nýta sér önnur ákvæði samningsins til að ná rétti sínum, þar á meðal leita til gerðardóms. Það var aðeins einn lögfræðingur sem ekki féllst á þetta og vildi skýra þetta á annan veg. Það var Ragnar Aðalsteinsson hrl. sem ég met mikils sem lögmann. Hann hefur að vísu verið sérstakur trúnaðarmaður hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, en ég vek athygli á að aðrir lögmenn, og þar á meðal t.d. Eiríkur Tómasson sem ekki kom nálægt þessari samningsgerð, staðfestu það sem sinn skilning að þannig ætti með þetta að fara. Meiri hluti þeirra lögmanna sem voru á fundinum og tengdust þessari samningsgerð meir en Eiríkur staðfesti þann skilning. Þannig er alveg óþarfi að vera að gera minna úr þessu ákvæði en efni standa til og ég sé satt að segja ekki hverjum er þjónað með því að túlka þetta Íslandi algerlega í óhag eins og hv. þm. vill gera.

Það er enginn vafi á því að þessar nýju viðmiðunarreglur eru öruggar í framkvæmd og eru líklegar til þess að forða deilum milli aðila í framtíðinni. Reglurnar um hin sérstöku viðmiðunarverð eru háðar endurskoðun á fimm ára fresti eins og fram kemur í gr. 27.07. Sú endurskoðun og ágreiningur um hana geta verið tvíþætt eins og fram kom hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, þ.e. það getur orðið sjálfstætt ágreiningsefni hvort teljandi breyting hafi orðið á aðstæðum, sem valdi því að breyta eigi þessum viðmiðunarreglum, og það atriði eitt getur farið til sjálfstæðrar meðferðar og í gerðardóm. Síðan gæti hugsanlega orðið annað gerðardómsmál um hvaða fjárhæðir hér skipta máli. Það kom fram hjá lögmönnum - öðrum en Ragnari Aðalsteinssyni - að þetta ákvæði getur líka orðið til þess að greiða fyrir málsmeðferð. Ég vek athygli á að það er t.d. algengt í skaðabótamálum að það er fyrst farið í dómsmál um hvort skaðabótaskyldan sé fyrir hendi og þegar niðurstaða í því ágreiningsefni liggur ljós fyrir er farið að fjalla um upphæð skaðabótanna og ef ekki næst samkomulag um það er sérstakt mál um það. Hins vegar er reynslan oft sú að hið fyrra mál er mjög líklegt til að greiða fyrir úrslitum máls þannig að í mörgum tilfellum er slík tvíþætt málsmeðferð líkleg til að greiða fyrir og flýta fyrir niðurstöðu mála frekar en lengja meðferð þeirra. Þessi skilningur kom fram hjá þeim lögmönnum sem nefndin fékk til viðtals við sig um túlkun og álit á þessu ákvæði.

Annað meginatriði sem þessi samningur felur í sér er breyting á skattstofni. Ég vek sérstaka athygli á því að þar er um mjög mikilvæga breytingu að ræða. Það er samið um nýjar reglur varðandi fyrningar á fastafjármunum ÍSALs í tengslum við aukningu á eigin fé fyrirtækisins og reglur um endurmat á bókfærðu verði eigna og skulda. Varðandi hið síðastnefnda er gert ráð fyrir því að endurmat miðist við tiltekna erlenda mynt, svissneskan franka eða bandarískan dollar, og Alusuisse getur í eitt skipti valið hvora mynt það vill miða við. En hjá íslenskum fyrirtækjum er nú almennt miðað við vísitölu í þessu sambandi.

Varðandi fyrningu hefur verið samið um tiltekið endurmatsverð á núverandi fastafjármunum ÍSALs sem óafskrifaðir eru með hlíðsjón af raunvirði þeirra í ársbyrjun 1985. Verður það fyrningargrunnur í framtíðinni og fjármunirnir fyrndir á næstu tíu árum. Samkvæmt eldri reglum hefði fyrning þeirra, sumpart miðuð við 15 ár og sumpart við átta ár, átt að dreifast á næstu 4-6 ár að mestum hluta. Við fyrninguna verði tekið tillit til endurmats samkvæmt framansögðu, en fyrning vegna gengistaps á lánum fellur hins vegar niður. Með nýju reglunum verða afskriftir hjá ÍSAL lægri en ella næstu árin, en hærri í staðinn þegar lengra líður og afskriftastofninn hækkar nokkuð.

Nefndin fékk Stefán Svavarsson til viðtals við sig um þetta mál sérstaklega og skýrði hann það út fyrir nefndarmönnum. Það kom fram hjá honum að í samningi þessum væri kappkostað að reikningsskil fyrirtækisins ÍSALs sýndu á sem rökrænastan hátt raunverulega afkomu og efnahag þess. Af þeim sökum væri nú lagt til að reikningsskilavenjum fyrirtækisins að því er tekur til afskrifta og gengismunar yrði breytt í grundvallaratriðum. Aðferð ÍSALs í meðhöndlun gengismunar byggir á þeim skattalögum sem giltu til ársloka 1978. Fyrirtækið eignfærir því allan gengismun af öðrum lánum þegar frá er dreginn gengishagnaður af veltufjármunum. Nettógengismun hvers árs hefur verið skipt á tiltekna eignarhluta og afskrifaður á eftirstöðvum 15 ára afskriftartíma eða fimm árum eftir því hvort er lengra.

Með þessum hætti hefur fyrirtækið fengið afskriftir endurmetnar í upphaflegt kostnaðarverð varanlegra fastafjármuna. Gallinn er hins vegar sá að endurmatið hefur átt stofn sinn í nettóskuld fyrirtækisins en ekki í eignunum sjálfum og vegna taprekstrar hefur því afskrift verið hærri en annars hefði orðið. Eignirnar hafa auk þessa verið endurmetnar vegna gengismunar á innborgað hlutafé sem hefur þó ekki verið afskrifað. Niðurstaðan af þessu er sú að bæði afskriftir og eignamat hefur verið villandi þar sem fyrirtækið hefur þurft að beita umræddum reikningsskilareglum.

Nú er lagt til að afskriftir á næstu árum verði reiknaðar af áætluðu matsverði í erlendri mynt miðað við 1. janúar 1985 og það verð er umsamið 89 millj. bandaríkjadala. Þessi stofn færist til gjalda á tíu árum við meðalgengi hvers árs. Í raun er því verið að afskrifa eignirnar í erlendri mynt en umbreytt í krónur í reikningsskilum fyrirtækisins og í skattalegu tilliti. Þar sem afskriftir eru reiknaðar með þessum hætti og rekstrarreikningurinn til skatts í raun í erlendri mynt þarf ekki að taka tillit til þess gengismunar sem fyrirtækið verður fyrir gagnvart íslensku krónunni, hvorki á skuldir né veltufjármuni. Með þessum hætti er eytt áhrifum innlendrar verðbólgu á reikningsskil fyrirtækisins og niðurstaðan er miklu skýrari mynd af afkomu og efnahag þess að svo miklu leyti sem með reikningsskilareglum er unnt að draga hann fram.

Fram kom í nefndinni að samkvæmt beiðni ÍSALs hafa fastafjármunir fyrirtækisins í árslok 1984 verið metnir af ráðgjafarfyrirtækinu American Appraisal sem er mjög virt fyrirtæki í sinni grein. Niðurstaða matsins var sú að markaðsverð eignanna, eða „fair market value“ eins og það er orðað, væri 89 millj. 226 þús. bandaríkjadalir og sú tala var lögð til grundvallar í þessum samningum. Stefán Svavarsson var sérstaklega inntur eftir áliti sínu á þessu mati og hann lagði fram vottorð, sem er fylgiskjal I með þessu nál., þar sem hann staðfestir, svo vitnað sé í vottorð hans, með leyfi forseta, hvernig matið fór fram og segir svo:

„Að mínu mati er umrædd skýrsla fagmannlega unnin og tel ég því að niðurstaðan um matið sé raunhæf.“ Þetta segir þessi íslenski endurskoðandi.

Samkvæmt samkomulagi aðila hefur Alusuisse nú lagt fram eigið fé til ÍSALs á yfirstandandi ári að upphæð sem nemur 40 millj. bandaríkjadollara. Hefur eiginfjáraukningin verið notuð til að lækka núverandi skuldir ÍSALs og þar með til beinnar lækkunar á vaxtagjöldum. Þessi ráðstöfun hefur í för með sér grundvallarbreytingu á efnahag og rekstrarafkomu fyrirtækisins og mun vaxtasparnaður nema mun hærri fjárhæð en hækkun fyrninga.

Því hefur verið haldið fram að Alusuisse hafi borið samkvæmt núgildandi aðalsamningi að hækka eigið fé og því hafi ekki verið ástæða til að semja um það atriði sérstaklega. Í því sambandi hefur verið vitnað til 21. gr. aðalsamnings þar sem segir að innborgað hlutafé ÍSALs eins og það er ákveðið á hverjum tíma skuli aldrei vera minna en sem svarar fjárhæð er jafngildi 1/3 af bókverði fastra fjármuna þess.

Ég vil af þessu tilefni taka fram að endurskoðunarfyrirtæki íslensku ríkisstjórnarinnar, Coopers & Lybrand, hefur aldrei gert athugasemdir við eiginfjárstöðu ÍSALs. Þvert á móti kemur fram í síðustu endurskoðunarskýrslu vegna ársins 1984 að þetta hlutfall sé umfram það hlutfall sem aðalsamningur gerir ráð fyrir miðað við þær reikningsskilavenjur sem hafi tíðkast.

Að lokum eru í þessum þætti settar fram reglur um fyrningu á nýjum fastafjármunum hjá ÍSAL og þar er miðað við sama fyrningartíma og nú gildir samkvæmt íslenskum skattalögum. Þessar reglur eru háðar endurskoðun á fimm ára fresti. Rétt er að benda á að fyrirtækið hefur hér eftir sem hingað til rétt á að leggja allt að 20% af hagnaði sínum í varasjóð. Menn hafa látið að því liggja í þessum umræðum að hér sé um nýtt ákvæði að ræða og verið að bera saman í töflum annars vegar skattgreiðslur með varasjóði fram í tímann og svo án varasjóðs vegna fortíðarinnar, en það hefur engin breyting verið gerð á þessari heimild. Hins vegar er nú bætt við ákvæði þess efnis að ÍSAL verður skylt að endurmeta framlögin í varasjóðinn frá ári til árs eftir að þau eru í hann komin. Það þýðir í raun að ef varasjóðurinn er greiddur út greiðist af honum skattar í samræmi við raunverulegt verðgildi.

Stefán Svavarsson endurskoðandi lagði í nefndinni fram útreikninga um samanburð á áhrifum breyttra afskriftareglna og vaxtagreiðslna á afkomu ÍSALs árin 1980-1984, þ.e. vegna fortíðarinnar. Sá útreikningur er birtur sem fskj. II með þessu nál. og sýnir að síðustu fimm ár hefði skattstofn hækkað verulega samkvæmt hinum nýju reglum. Þá kemur enn fremur fram í þessum útreikningum að ætla megi að skattstofn ÍSALs hækki vegna ofangreindra atriða um 6,5 millj. bandaríkjadala á árinu 1985. Samninganefnd um stóriðju hefur á grundvelli þessara útreikninga Stefáns Svavarssonar látið reikna áhrif þessara breytinga á skattstofn ÍSALs á framleiðslugjald áranna 1980-1984, þ.e. ef þessar nýju reglur hefðu þá verið í gildi. Þar kemur fram að hefði nýr samningur verið í gildi það tímabil hefðu skattar verið samtals 38,4% hærri eða um 3,3 millj. dollara. Þessir útreikningar fylgja einnig með á sérstöku fskj., fskj. III.

Ég mun þá aðeins víkja að sjálfum skattstiganum, en í samningunum var samið um að ákvæði um lágmarksskatt ÍSALs verði óbreytt þannig að félagið greiði framleiðslugjald sem nemi 20 bandaríkjadollurum á hvert tonn af framleiddu áli án tillits til tekna.

Það kom fram í nefndinni að það hefði verið leitað eftir því allfast að fá hækkun á lágmarksskatti ÍSALs en ekki orðið um það samkomulag. Það er vitað mál að fastur skattur án tillits til afkomu er fyrirtækjum, bæði íslenskum og erlendum, þyrnir í augum. En í staðinn fyrir að fá hækkað þetta fasta gjald var gerð breyting á því framleiðslugjaldi sem er umfram lágmarksgjald og það tengt mun meir afkomu fyrirtækisins en áður. Árleg fjárhæð þess fer því eftir nettóhagnaði á undanfarandi ári skv. ákveðnum skattstiga á bilinu 35-55%. Þessi viðbótarskattur verður greiddur í dollurum eins og verið hefur og hagnaður umreiknaður í dollara með tilliti til skattstigans.

Þá var samið um þá breytingu á reglum um skuldajöfnun framleiðslugjalds við skattinneign ÍSALs frá fyrri árum að ekki verði notuð til skuldajafnaðar nema 50% af því framleiðslugjaldi sem er umfram 20 bandaríkjadollara á tonn, en áður bar að nota alla viðbótarfjárhæðina í þessu skyni. Hinn helmingur viðbótargjaldsins kemur strax til útborgunar. Þetta atriði er að sjálfsögðu verulega til hagsbóta fyrir okkur Íslendinga.

Menn hafa leitast við að gera samanburð á nýju skattkerfi og eldra skattkerfi. Ég hef áður vikið að því sem fram kemur á fskj. II og Stefán Svavarsson hefur útbúið þar sem hann reiknaði samanburð á áhrifum breyttra afskriftareglna og vaxtareglna á afkomu ÍSALs árin 1980-1984, þ.e. hvaða áhrif hinar nýju reglur hefðu haft á skattstofninn ef þær hefðu verið í gildi á þeim tíma. Eins og ég gat um kemur þar fram og á skattaútreikningnum á fskj. III að skattar á þessum árum hefðu verið mun hærri eftir hinu nýja kerfi. Þetta er staðreynd, þetta er sú staðreynd sem við getum miðað fortíðina við sem við þekkjum. Á hinn bóginn er erfiðara að spá um framtíðina eins og við öll vitum og þarf ekki að hafa mörg orð um. Enda margt í óvissu bæði um þróun álverðs á næstu árum, um gengisþróun, sem skiptir hér mjög miklu máli, og ýmislegt annað sem kemur til greina þegar hagur svona fyrirtækis er metinn.

Nefndin hefur fengið upplýsingar um nýjustu spá fyrirtækisins Chase Econometries til ársins 1995 um þróun álverðs svo dæmi sé tekið. Skv. þeirri spá er gert ráð fyrir því að verð á LME-markaðnum muni hækka frá meðalverði 1985, 49,64 sent á pund, upp í 128,97 sent á pund árið 1995. Þetta er sem sagt á verðlagi hvers árs.

Nefndin hefur fengið útreikninga frá tveimur aðilum um afkomu og skattgreiðslu ÍSALs miðað við mismunandi álverð. Önnur taflan er frá samninganefnd um stóriðju en hin taflan er frá sérstökum trúnaðarmanni hv. 5. þm. Austurl., Ragnari Árnasyni lektor. Þá fylgdi frv. einnig tafla um samanburð skattgreiðslna Íslenska álfélagsins við mismunandi hagnað og var hún leiðrétt. Það voru smá villur í henni, eins og fram kom í upphafi, sem hafa orðið tilefni ótrúlegra málalenginga hér í hv. deild, bæði af hv. síðasta ræðumanni svo og af hálfu formanns Alþb. sem flutti u.þ.b. klukkutíma ræðu um villuna hér við 1. umr. þessa máls.

Samninganefnd um stóriðju hefur sem sagt látið reikna töflu um áhrif skattstofnsbreytinga á nokkur dæmi um afkomu og skattgreiðslu ÍSALs miðað við mismunandi álverð. Þá eru menn auðvitað að reyna að spá fram í tímann og miða við þá breytingu sem hefði orðið á skattstofni að meðaltali árin 1980-1985, sbr. töflu frá Stefáni Svavarssyni þar um. Þessi tafla er fylgiskjal IV með þessu nál.

Auðvitað verður að líta á þessar töflur allar með miklum fyrirvörum því að þær eru spá um óviss atriði sem erfitt er að meta. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það kann að orka tvímælis að ætla að yfirfæra breytingar á skattstofni, meðaltalsbreytingar sem urðu á síðustu fimm árum, yfir á næstu ár. En sú aðferð er ekkert verri en hver önnur. Af þeim útreikningi geta menn séð að hinn nýi skattur skv. nýjum samningi mun undir engum kringumstæðum verða lægri en skattur skv. eldri samningi en verulega hærri eftir því sem álverð hækkar.

Ég vil sérstaklega gera að umtalsefni töflu sem Ragnar Árnason gerði. Eftir að Elías Davíðsson fór af landi brott hefur Ragnar Árnason verið einkaráðgjafi hv. þm. og Alþb. um álmál. Hann hefur lagt fram sérstaka töflu sem mikið tilefni er til að gagnrýna því að forsendur hennar eru greinilega lagaðar að niðurstöðum sem áttu að koma út úr henni fyrir fram. Þessar forsendur koma fram í fskj. VI með nál. hv. 5. þm. Austurl. sem heitir „Áætluð rekstrarafkoma og skattgreiðslur ÍSALs“. Síðan er gerð grein fyrir þeim forsendum sem þessi tafla miðast við og byggir á og það er alveg augljóst að þessar forsendur eru mjög lagaðar í hendi sé svo ekki sé meira sagt.

Við skulum taka sem dæmi í 2. tölul. Þar er gert ráð fyrir að hráefniskostnaður muni hækka sem hlutfall af söluverðmæti skv. nýju skattkerfi. Hvar eru rök fyrir því? Það eru engin rök fyrir því að hráefnisverð muni verða skv. nýju skattkerfi 41,5% af söluverðmæti á móti 40,5% skv. gildandi skattkerfi. Fyrir því eru engin rök. Þvert á móti mætti leiða að því líkur að þróunin yrði í öfuga átt.

Ef við tökum 4. tölul. í þessum forsendum, laun og stjórnun, sem sé 16,5 millj. dollara. Þessi kostnaður var 18,5 1981, 14,5 1984. Höfundur virðist vilja fara þarna einhvers konar meðalleið og telur að framtíðarlaun og stjórnunarkostnaður verði einhvers staðar þarna mitt á milli. Í þessum útreikningum er ekkert tillit tekið til þeirrar staðreyndar, sem ég veit að höfundi þessarar töflu er fullkunnugt um, að á árunum 1981-1982 voru verulegar fjárfestingar gerðar hjá ÍSAL til hagræðingar og framleiðniaukningar sem hafa m.a. leitt til þess að starfsmannafjöldi hefur minnkað úr 700 niður í um 600 og mun svo verða í framtíðinni. Hér er því um augljósa blekkingu að ræða í forsendum þessarar töflu sem þarna hefur verið lögð fram.

Sama er uppi á teningnum í sambandi við annan framleiðslukostnað. Það eru engin rök færð fyrir því að hann muni hækka sérstaklega. Það er gert ráð fyrir því að hann verði 11 millj. dollara en hann var á árinu 1984 9,8 millj. dollara.

Varðandi afskriftir, sem er 7. tölul. í þessu dæmi, er gert ráð fyrir því að nýja skattkerfið gefi 8,9 millj. dollara í afskriftir en gildandi skattkerfi 16,4 millj. dollara. Fjármagnskostnaður er skv. nýja skattkerfinu 5,5 millj. og gildandi skattkerfi 7,9 millj.

Ég tel að í þessum samanburði sé ekki tekið nægilegt tillit til breytinga á skaftstofni sem rækilega hefur verið gerð grein fyrir hér og ég hef gert hér í mínu máli. Ég vil mjög harðlega gagnrýna að slík tafla sé lögð hér fram sem undir fræðilegu yfirbragði er greinilega lögð fram til að sýna blekkjandi og villandi niðurstöður.

Nefndin leitaði til allmargra aðila eins og fram hefur komið og hún leitaðist við að fá fram umsagnir manna um þennan samning. Ég vil sérstaklega vitna í það sem Árni Kolbeinsson ráðuneytisstjóri sagði, en hann tók það skýrt fram að hann hefði ekki verið með í þessari samningagerð þótt hann hefði komið að ýmsum skattalegum efnum á fyrri stigum málsins. Hann var því ekki að verja sinar eigin gerðir í þessu efni eins og ýmsir þeir sem nefndina heimsóttu. Niðurstaða hans var sú að hann sagðist hafa það á tilfinningunni að þetta kerfi mundi ekki verða okkur óhagstæðara, líklega koma út í beinum hagnaði fyrir okkur Íslendinga. Þessi ummæli ráðuneytisstjórans met ég að sjálfsögðu mjög mikils.

Herra forseti. Ég fer nú að ljúka máli mínu. Hv. 5. þm. Austurl. hefur haldið hér langar ræður um þetta mál. Ég verð að segja að mér finnst hann hafa mjög langt seilst í röksemdafærslu og reyndar með ólíkindum hversu langt hann hefur gengið og teygt sig í röngum fullyrðingum og útúrsnúningum. Mér finnst allur þessi málflutningur benda til þess að hér sé um að ræða fjörbrot manns sem hafði með þennan málaflokk að gera sem ráðherra í næstum fimm ár, náði engu fram og miðaði frekar afturábak í þessum mikilvægu málum fyrir okkur Íslendinga. Þessi viðbrögð flokkast því að mínu mati frekar undir sálfræði en pólitík. Ég fullyrði að allur hans málflutningur bendi til þess að hv. þm. sjái ekki skóginn fyrir trjánum í þessu máli.

Niðurstaða þeirra sérfræðinga, sem við höfum fengið til okkar, er sú að þessi samningur sé hagstæðari en sá sem við höfum haft með að gera. Þess vegna leggjum við, sem undir þetta nál. ritum, ég, Friðrik Sophusson og Gunnar G. Schram, eindregið til að þetta frv. verði samþykkt.