11.12.1985
Neðri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 4. minni hl. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 4. minni hl. iðnn. sem er á þskj. 239. Hér er um að ræða 4. viðauka við aðalsamning milli ríkisstjórnar Íslands og fjölþjóðafyrirtækisins Swiss Aluminium Ltd. Hann er lagður fram við lok endurskoðunar á gildandi ákvæðum aðalsamningsins um skattamál Íslenska álfélagsins hf., sem ríkisstj. og Alusuisse höfðu orðið sammála um að færi fram.

Einu kynni stjórnarandstöðunnar af þessu máli, áður en það var lagt fram sem frv. á Alþingi 19. nóv. s.l., voru þau að fulltrúar hennar voru boðaðir á fund hæstv. iðnrh. 17. júlí s.l. Var það til að sjá meginefnisatriði þess samnings sem undirritaður skyldi næsta dag. Hefur við þessa samningsgerð ríkt sama leynd og skortur á upplýsingum til stjórnarandstöðu og hvíldi yfir samningagerð 3. viðauka við aðalsamninginn.

Undirrituð vill ítreka þá skoðun sína að bæði eðlilegt og réttlátt væri að fulltrúar allra stjórnmálasamtaka, sem sæti eiga á Alþingi, væru hafðir með í ráðum þegar um svo mikilvægt mál er að ræða sem snertir hag allra landsmanna. Mundi slík upplýsingamiðlum og samráð tryggja betri hagsmunagæslu fyrir Íslendinga að mínu mati.

Vert er að hyggja lítillega að síðustu samningsgerð, 3. viðauka við aðalsamninginn sem samþykktur var í fyrra, en þar voru gerðar ýmsar breytingar sem hafa mikil og reyndar afgerandi áhrif á svigrúm og gerð þessa samnings sem nú liggur fyrir. Þar var t.d. fellt niður mikilvægt ákvæði um „bestu-kjaraskilmála“, sem var í grein 2.03 c í aðstoðarsamningi milli Alusuisse og ÍSALs, um að Alusuisse eigi að leitast við að „tryggja ÍSAL áframhaldandi og jafnt framboð á hráefnum með bestu skilmálum og skilyrðum sem fyrir hendi eru“. Brottfall þessa ákvæðis var knúið fram á síðustu stundu í samningsgerðinni og viðurkenndi þáverandi iðnrh. fyrir nefndinni að það væri réttilega mikil veiking á þessum ákvæðum skattalaga. Við fórnuðum þar því atriði sem þótti ein girnilegasta ástæðan til þess að taka upp samstarf við Alusuisse í upphafi, þ.e. bestu kjaraákvæðunum.

Við síðustu samningsgerð, 3. viðauka við aðalsamninginn, varð sú afdrifaríka þróun að Alusuisse tókst að kljúfa tvö nátengd málsatriði í aðskilda þætti sem samið yrði um hvorn í sínu lagi. Hér er átt við megintekjustofna Íslendinga í viðskiptum við Alusuisse, þ.e. raforkuverð annars vegar og skattlagningu hins vegar. Þó eru þessir þættir í órjúfanlegum tengslum hvor við annan og virðist ótækt að semja um annan án tillits til hins.

Divide et impera, að deila og drottna, sögðu Rómverjar og kunnu lengi tökin á því. Þetta hafa Alusuissemenn lært og hefur dugað vel. Þessu fylgdi svo uppgjöf saka og hreint siðgæðisvottorð vegna meintra skattsvika fyrirtækisins, en þau mál voru á viðkvæmu stigi fyrir gerðardómi og dómsúrskurður ekki mjög langt undan. Staða okkar þótti sterk í því gerðardómsmáli að mati lögfræðinga er ráku það mál fyrir Íslands hönd og komu á fund iðnn. bæði í fyrra og eins nú við umfjöllun þessa samnings. Því stóðum við mun verr að vígi við upphaf samninga nú hvað skattamálin varðar að við höfðum misst þá viðspyrnu sem hefði getað knúið Alusuisse til að virða hagsmuni Íslendinga. Hafði því samninganefndin um stóriðju þegar sniðið sér þröngan stakk í síðustu samningalotu.

Megintilgangur þeirrar endurskoðunar, sem liggur til grundvallar þessu frv., er tilgreindur í athugasemdum við frv., með leyfi forseta:

„Að gera reglur um framleiðslugjaldið skýrari og öruggari í framkvæmd, þannig að síður verði hætta á deilum í því efni, og tryggja eðlilegar skatttekjur af starfsemi félagsins.“

Til þess að ná þessum markmiðum var í fyrsta lagi samið um nýja tilhögun á skattlagningu á aðföngum álbræðslunnar, þ.e. rafskautum og súráli. Rafskautin eru flutt inn frá rafskautaverksmiðju Alusuisse í Rotterdam, en verðlagning þeirra varð m.a. tilefni deilna áður þar sem endurskoðunarfyrirtækið Coopers and Lybrand taldi að ÍSAL hefði verið látið greiða verulegt yfirverð fyrir rafskaut og fór það mál fyrir gerðardóm.

Verðlagning rafskauta er vandasamt mál, eins og kom fram í máli talsmanna ríkisstj. í þessum umræðum hér á þingi. Það er ekki fyllilega ljóst hverjir megi teljast óskyldir aðilar skv. gr. 27.04 a. Enn fremur er ekki auðvelt fyrir Íslendinga að ganga úr skugga um hvert rafskautaverð til óskyldra aðila er þar sem Alusuisse tilnefnir sjálft fyrirtæki óháðra löggiltra endurskoðenda til að kanna það en Íslendingar verða að treysta þeim upplýsingum.

Súrál hefur nú verið tengt heimsmarkaðsverði á áli þannig að eitt tonn af áli komið til Rotterdam að viðbættum löndunarkostnaði jafngildir átta tonnum af súráli komnum (cif) til Straumsvíkur, þ.e. súrálsverðið er 12,5% af heimsmarkaðsverði á áli. Þessi tenging hefur bæði kosti og galla. Hún ætti að tryggja sanngjarnari verðlagningu á súráli en verið hefur hingað til. Hins vegar, eins og viðurkennt var af formanni samninganefndarinnar á fundi iðnn., mun hún ekki nýta til hagnaðar fyrir ÍSAL þar aðstæður sem verða þegar súrálsverð lækkar en álverð hækkar. Þeirri stöðu hefur nú verið afsalað.

Enn fremur hefur verið tekin upp ný skilgreining á heimsmarkaðsverði á áli þar sem notuð er formúla svipuð þeirri sem byggt var á varðandi orkuverð í samningnum frá því í fyrra.

Sú stærð í þessari formúlu, sem líklegust er til að valda ágreiningi, er ASIP, en það táknar álverð við sölu frá Alusuisse og einnig frá tveimur þýskum álbræðslum í eigu Alusuisse til óháðra viðskiptavina. Endurskoðunarákvæði, sem þetta varða, tryggja ekki hagsmuni Íslands nægilega vel að mínu mati. Það er íslenskum stjórnvöldum að vísu heimilt að skipa endurskoðendur, en einungis í samráði við Alusuisse sem þarf að samþykkja endurskoðandann. Einhliða ákvörðunarréttur Íslendinga er þarna fallinn brott. Útreikning þennan má svo ekki endurskoða þannig oftar en einu sinni og er það mjög heftandi. Auk þess hefur hér, að því er mér virðist, glatast í reynd hugmyndin um „armslengdarverð“ sem þó átti að liggja til grundvallar í allri samningagerðinni þar sem álverðið er hér bundið við fastar verðviðmiðanir.

Í öðru lagi hefur verið samið um nýjar reikningsskilareglur þar sem reynt hefur verið að lagfæra helstu skekkjuvalda eins og fyrningu, fjármagnskostnað og gengistap. Var þetta gert ekki síst með það fyrir augum að gera skattstofninn áreiðanlegri. Þó hefur fyrningartími verið lengdur talsvert og hlýtur það að koma ÍSAL til góða og þar með Alusuisse. Jafnframt hefur Alusuisse lagt fram fé, 40 millj. bandaríkjadollara, til að tryggja eiginfjárstöðu ÍSALs, lækka skuldir fyrirtækisins og þar með vaxtagjöld. Ekki er þó ljóst að hve miklu leyti þessi bætta eiginfjárstaða og auknar fyrningar vega hvort annað upp.

Í þriðja lagi hefur svo verið samið um óbreyttan lágmarksskatt, þ.e. framleiðslugjald sem nemur 20 bandaríkjadollurum á hvert tonn af áli. Þessi upphæð hefur að sjálfsögðu rýrnað síðan 1975 og jafngildir nú um 11,45 bandaríkjadollurum og er óverðtryggð, eins og hæstv. iðnrh. gaf upp hér í umræðunum fyrr. Þetta veldur miklum vonbrigðum í þessum samningum - og ég tek undir með hv. 2. þm. Reykn. í því efni - og er nú komið á daginn hve slæmt það var að vera búinn að spila út öllum trompunum sem hefðu getað knúið fram hærra grunngjald. Auk þess hefur svo verið samið um breyttan skattstiga sem miðaður er beint við nettóhagnað fyrirtækisins á undanförnu ári og leikur á bilinu frá 35% (lágmark) upp í 55% (hámark).

Það hefur komið í ljós á fundum nefndarinnar að hagkvæmni þessa skattstiga umfram þann sem nú gildir byggist fyrst og fremst á því hverjar tölur og stærðir eru notaðar sem forsendur. Þær tölur byggjast síðan fyrst og fremst á spám um það hvað verða muni á álmörkuðum heimsins í framtíðinni. Reynslan hefur sýnt að mjög varlegt er að treysta spám í áliðnaði, einkum eftir 1980, þær hafa svo oft reynst rangar. T.d. eru þessar spár m.a. mjög háðar því hvert mat menn leggja á styrk bandaríkjadollars, en skoðanir manna skiptast í þeim efnum eftir því hvorum megin Atlantshafsins þeir búa.

Það er því engan veginn víst að hinn nýi skattstigi muni í öllum tilvikum tryggja hærri skattatekjur en núgildandi skattakerfi. Sú staða gæti komið upp að núgildandi skattakerfi væri hagstæðara, einkum ef álverð helst áfram lágt og einnig hagnaður. Þrátt fyrir að hið nýja skattakerfi sýni hækkaðar skattatekjur við vissar spá-aðstæður - vil ég vitna í Árna Kolbeinssón sem kom á fund nefndarinnar - þá hafa í reynd ekki orðið neinar stökkbreytingar til hækkunar á sköttum, einkum þar sem grunngjald hefur ekkert hækkað. Hins vegar geta breyttar reikningsskilareglur gefið aukna skattavon þó ekki megi gleyma því að ÍSAL hefur sýnt neikvæðan meðalhagnað s.l. 15 ár.

Endurskoðunarákvæði í gr. 27.07 er á heildina litið til bóta, en þó hefði mér þótt æskilegra að binda ekki endurskoðun á fimm ára fresti eingöngu. Nú er enn fremur skertur enn meir réttur til endurskoðunar aftur í tímann, en sá réttur hafði þegar verið takmarkaður í samningunum í fyrra. Tími, sem gefst til endurskoðunar ársreiknings, er nú mjög naumur, aðeins fjórir mánuðir.

Það má segja að þessi samningur torveldi ÍSAL að einhverju leyti að svíkja undan skatti. Þó hefur engan veginn verið sett undir allan leka og má t.d. vara við því að hluti af heildarfjármagnskostnaði Alusuisse vegna lántöku fyrirtækisins verði færður yfir á ÍSAL sem tap.

Kvennalistinn hefur lengi talið eðlilegt að um ÍSAL giltu íslensk skattalög. Það virðist því miður lítið hafa verið reynt við þessa samningsgerð að knýja slíkt fram og var reyndar talað um það í nefndinni af einum gesta hennar að það hefði ekki verið jarðvegur til að ná upp stemmningu fyrir slíkt.

Herra forseti. Með þessari samningsgerð er verið að skrifa Íslendingasögu. Hún er reyndar ekki bara Íslendingasaga heldur miklu fremur Álvers saga og Íslendinga þar sem álver er gerandinn, sá er hefur frumkvæðið, tögl og hagldir, en Íslendingar eru þolendur, þeir sem eiga undir högg að sækja, mennirnir sem kljást við marghöfða þursinn. Mér finnst ævinlega eins og ég sé að lesa upphaf að leikriti þegar ég kem að 1. gr. frv. og reyndar þess samnings sem fyrir okkur lá í fyrra. Þar er eins og verið sé að telja upp persónur og leikendur og ég vitna, með leyfi forseta: „Ríkisstjórnin“, „Alusuisse“, „Kaupstaðurinn“, „ÍSAL“, „Dótturfélag Alusuisse“, „Fylgiskjöl“, „Fylgisamningar“, „Bræðsla“. - Hér finnst mér vanta þann sem leikurinn bitnar einna helst á, en það er: „Ísland“ eða „Íslenska þjóðin“. Reyndar finnst mér líka, þar sem ég er farin að tala um nafngiftir, bæði óviðeigandi og reyndar út í hött að tala um dótturfélag og móðurfyrirtæki í þessu sambandi. Af þeim 35 329 starfsmönnum sem teljast til Alusuisse út um allan heim þykist ég viss um að mikill minni hluti eru konur. Og enn vissari þykist ég um það að konur stjórna litlu um gjörðir þessa fyrirtækis. Ég mun því fremur kjósa að ræða um sonarfélag og föðurfyrirtæki.

Þessi framvinda Álvers sögu og Íslendinga er því miður, a.m.k. síðan ég kynntist málum, aðeins leikin og skráð af fáum einstaklingum sem hafa allt of lítil samráð nema við þröngan hóp manna. Þetta tel ég bæði alvarlegt og hættulegt. Hér á Alþingi virðast menn vera búnir að fá sig fullsadda af málinu, hafa gefist upp fyrir því, láta það yfir sig ganga sem væri það árstíð, náttúrulögmál. Flestir þm. hirða ekki um að setja sig inn í þetta flókna, tæknilega erfiða mál, en leiða það hjá sér og málið siglir gegnum þingið án gagnrýnnar afstöðu alls þorra þm. Sömuleiðis virðist málið fá litla umfjöllun í þjóðfélagsumræðunni nú. Það hefur sannarlega færst úr sjónmáli fyrir allan þorra manna sem hafa misst á því áhuga, en er einungis á höndum örfárra einstaklinga.

Það út af fyrir sig er nógu alvarlegt. Hitt þykir mér þó ekki síður ískyggilegt að einmitt þessir menn virðast hafa svo ríflegan skammt af barnatrú á þetta harðsvíraða fjölþjóðafyrirtæki að úr hófi keyrir. Þeir virðast æ ofan í æ verða eins og leir í höndum þessa fyrirtækis sem annálað er fyrir óbilgirni, já, ófyrirleitni, og þykir viðsjárverður viðskiptaaðili víða um heim. Hvaðan kemur þeim þessi góða trú? Ekki getur hún verið byggð á reynslu. Mér var kennt í geðlæknisfræði að dómgreind væri skilgreind sem sá hæfileiki manna að geta lært af reynslunni. Ég get ekki staðið hér og vænt þessa heiðursmenn um dómgreindarleysi. Hlýt ég ekki að ætla að þarna hafi skeð eitthvað líkt og í ævintýrunum forðum þegar menn gengu í hamra með álfum eða á vit annarra vætta? Þeim var glapin sýn og þeir gleymdu mannheimum og skuldbindingum sínum við þá. Kannske var þeim gert að bíta af bjartsýnisepli um leið og þeir gengu inn í samninganefndir. Þarna hljóta yfirnáttúrleg öfl að vera að verki. Þetta getur ekki verið einleikið, samningalotu eftir samningalotu, allt frá fyrstu byrjun.

Kvennalistinn hefur svo lágan grunsemdarþröskuld í þessum efnum að við getum ekki, eins og formaður samninganefndar um stóriðju, treyst Alusuisse né heldur erum við vissar um að fyrirtækið sé heiðarlegt, eins og hann heldur fram. Við höfum þá trú að þetta fyrirtæki hafi reynt öll lög og reglur í bókinni út í ystu æsar til að ná rétti sínum, en síðan jafnvel brotið þær í sama tilgangi.

Formaðurinn álítur Alusuisse ekki hafa orðið sekt um skattsvik heldur hafi verið um að ræða ágreiningsatriði um túlkun á samningsákvæðum. Ég verð að segja að mér blöskrar þessi barnatrú og finnst að þessi hjartahreini formaður ætti fremur skilið að starfa við góðgerðastofnun en að standa í stríði við óprúttna hörkukarla út í heimi sem teyma hann bláeygan. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, sem er um margt glöggur maður, skrifaði grein fyrir margt löngu sem hét „Alusuisse er engin góðgerðarstofnun“. Þetta ættu fleiri að athuga sem byrjunarstig í endurskoðun sinni og afturhvarfi til þeirra mannheima sem þeir þrátt fyrir allt tilheyra. Og ég segi: Velkominn heim, Ólafur liljurós. Það þýðir ekki að koma kokhraustur heim eins og hv. fyrrv. iðnrh. og segja eins og Jón sterki í Skugga-Sveini: „Sáuð þið hvernig ég tók hann, piltar?" og síðan búum við við lægsta raforkuverð sem hefur verið í lengri tíma. Það þýðir heldur ekki fyrir fulltrúa Íslendinga í samninganefndum að bera á borð fyrir þm. sterka vörn fyrir fyrirtækið en beita nær engri gagnrýni gagnvart því. Slíkt er ekki bara ótrúverðugt, það er beinlínis gagnsefjandi og vekur upp grunsemdir um það við hvern þeir samningamenn eru bundnir sterkustum tryggðaböndum eða hvort þeir hafi í raun svo litla sjálfsgagnrýni til að bera.

Að mati formanns samninganefndarinnar var reyndar ekki búist við miklu af þessum samningum og því e.t.v. ekki að vænta annars en að litlu yrði Vöggur feginn. En megum við biðja um meiri metnað fyrir Íslands hönd. Ég held að okkur sé hollt að rifja það upp að styrkur fjölþjóðafyrirtækja liggur m.a. í því að þau byggjast á miklu fjármagni sem hreyfanlegt er milli þjóðríkja til sonarfyrirtækja í viðkomandi löndum. Þessi stórfyrirtæki eru í eðli sínu landlaus og gegna ekki sömu samskiptareglum og lönd gera jafnan sín á milli. Þessar reglur eiga ekki síst við um skattareglur þar sem skattayfirvöld eins ríkis geta ekki krafist endurskoðunar á reikningum annars ríkis eða jafnvel hins þriðja og fjölþjóðafyrirtækin leika bókhaldslistir sínar á hlaupum undan skattayfirvöldum einstakra landa, geyma jafnvel fjöregg sín í skúffum á skattlitlum smáeyjum í Karabíska hafinu.

Íslendingar eru ekki þeir einu sem hafa átt í útistöðum við Alusuisse því að fyrirtækið hefur líka átt í útistöðum við stjórnvöld í Ástralíu síðan 1977. Grundvallaratriðið í þeirri deilu er að sonarfyrirtæki Alusuisse í Gove hefur selt súrál til föðurfyrirtækisins Alusuisse fyrir óheyrilega lágt verð, verð sem er allt að því 25% lægra en það sem aðrir súrálsútflytjendur fá fyrir sitt súrál. Þessi deila náði hámarki á síðastliðnu ári þegar áströlsk skattayfirvöld sendu Alusuisse fyrsta skattreikning sinn upp á 15 milljónir dollara. Skattayfirvöld sögðu að fyrirtækið hefði með verðlagningarákvörðunum sínum vantalið tekjur sínar um 100 milljónir dollara milli áranna 1976 og 1979. Það þarf ekki að taka það fram að fyrirtækinu finnst þetta ósanngjörn hegðun sem ógni rekstrargrundvelli súrálsvinnslunnar. Viðskiptamálaráðherra Ástralíu og áströlsk stjórnvöld standa nú í ströngu vegna þessara deilna við Alusuisse og hugleiða að stöðva útflutningsleyfi til fyrirtækjanna í Gove. Fulltrúum íslensku samninganefndarinnar, sem spurðir voru álits um þessar deilur Alusuisse við Ástralíumenn, þótti lítið til þeirra koma. Þetta væru deilur sem Alusuisse yrði að útkljá við Ástrali og kæmu okkar máli ekki við. Nú eða þá að þeir vissu lítið um þetta mál annað en það sem sést hefði í völdum blaðagreinum úr áströlskum blöðum. Þetta finnst mér dæmalaust andvaraleysi og skortur á heildarsýn. Það hlýtur að skipta miklu máli hvernig svo stór viðskiptaaðili okkar eins og Alusuisse er er staddur á alþjóðlegum vettvangi, svo ekki sé talað um hvernig því sonarfyrirtæki vegnar þaðan sem ÍSAL kaupir meginhráefni sitt, súrál. Vitanlega eru tengsl þarna á milli, meira að segja mikilvæg tengsl, þar sem súrál flutt ódýrt út frá Ástralíu hefur síðan hækkað í verði yfir hafið á leið til Íslands þar sem það er selt okkur. Það er að mínu mati hættuleg blekking eða hreinn barnaskapur að líta fram hjá þessu eða láta sem það skipti ekki máli.

Íslenskir samningamenn virðast eina ferðina enn hafa verið haldnir óhóflegri bjartsýni og verið ofhlaðnir af góðri trú í viðskiptum við Alusuisse. En það er löngu ljóst að þar er um viðsjárverða viðskiptaaðila að ræða en ekki góðgerðastarfsemi. Það kemur glöggt fram af orðalagi þessa frv. að óttinn við deilur og löngunin til að eyða þeim hefur orðið yfirsterkari einarðri hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd. Það eru undarlegar áherslur á því hvað talið er eftirsóknarverður ávinningur í samningsgerðinni í athugasemdum við frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Með samningi þeim, sem nú liggur fyrir, er lagður grundvöllur að traustri framkvæmd á skattamálum ÍSALs vegna núverandi álbræðslu og teknar upp nýjar reglur í því skyni er verða munu til mikillar einföldunar og sparnaðar á fyrirhöfn og kostnaði við skattheimtu gagnvart fyrirtækinu. Jafnframt munu þær draga stórlega úr líkum á deilum eins og þeim sem orðið hafa á liðnum árum.

Með samningum er enn fremur lokið lausn þeirra mála sem á dagskrá hafa verið varðandi núverandi álbræðslu í Straumsvík samkvæmt bráðabirgðasamningnum frá 1983. Umræðum um stækkun álversins verður haldið áfram, en ekki er tímabært að fjalla nánar um stöðu þeirra nú.“

Vonandi var ekki gefið eftir í þessum samningum til að tryggja framtíðarmöguleika á stækkun álversins. Ef svo er hefur miklu verið fórnað fyrir lítið. Það er löngu ljóst að stóriðjustefnan hefur gengið sér til húðar. Hún hefur verð nefndur kostur gærdagsins. Smáfyrirtæki eru og verða kjölfestan á sviði iðnaðar. Auðlindir landsins eru ekki aðeins fiskimið, jarðvarmi og fallvötn heldur einnig og ekki síður hreint loft, tært vatn og ómengað land. Það eru nú orðin ómetanleg auðæfi í iðnvæddum heimi. Síðast en ekki síst er menntun, hugvit og þekking grundvöllurinn að uppbyggingu og nýsköpun í atvinnulífinu.

Stóriðja er fjármagnsfrek og býður upp á fá störf. Við vorum að heyra rétt áðan að störfunum við álverið í Straumsvík hefði fækkað úr 700 í 600. Hvað á að gera við þær 25 þúsundir sem koma út á vinnumarkaðinn fram að aldamótum? Og stóriðja hefur ekki heldur reynst okkur arðbær. Ég vil ítreka og minna hv. þm. á það að meira en helmingur af erlendum skuldabagga okkar, sem nú íþyngir okkur, er vegna stórvirkjanaframkvæmda í tengslum við stóriðjuna.

Það er kominn tími til þess að Íslendingar líti sér nær og hugi að framtíðinni. Álrisanum hefur enn sem fyrr tekist að ná undirtökunum og hefur sveigt samningagerðina í þá átt að tryggja hagsmuni sína langt umfram hagsmuni Íslendinga. Í heildina tekið er þessi samningur ríkisstj. við Alusuisse því óviðunandi og því leggur Kvennalistinn til að frv. þetta verði fellt.