11.12.1985
Neðri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstvirtur forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka hv. iðnn. og formanni hennar vel unnin störf við afgreiðslu nefndarinnar á þessu frv. til laga um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um álbræðslu við Straumsvík.

Nefndin hefur kallað til sín fjöldann af sérfróðum mönnum til athugunar á viðaukasamningnum eins og fram kemur í gögnum nefndarinnar og sem staðfestir vönduð vinnubrögð af hennar hálfu.

Ég sé ástæðu til að þakka hæstv. forseta fyrir að greiða götu þessa frv. og ég sé enn fremur ástæðu til að þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir góða samvinnu um að hraða afgreiðslu þessa máls. En ég vil hryggja hv. þm. Hjörleif Guttormsson með því að staðfesta traust mitt á samninganefndinni og það stendur ekki til að ég breyti samsetningu hennar.

Vegna ummæla hv. þm. um seðlabankastjóra, að hann taki sér frí eftir 25 ára hrakfallasögu, vil ég taka fram að ég tek ekki undir það álit. Ég held að hann hafi öðlast mjög veigamikla og verðmæta reynslu fyrir íslensku þjóðina á þessum 25 árum og hann hefur líka traust mitt. Sem sagt, staða seðlabankastjóra er ekki laus til umsóknar.

Ég mun hér aðeins stikla á stóru því að nefndarmenn hafa gert glögga grein fyrir málinu og svarað allri gagnrýni sem fram hefur komið. Nefndin hefur klofnað í afstöðu sinni og skilar fjórum nefndarálitum. Sjálfstæðismenn í iðnn. styðja frv. með rökum sem sett voru fram af sérfræðingum ráðuneytisins. Með áliti sjálfstæðismanna fylgja nokkrar töflur og útreikningar sem sérfræðingar ráðuneytisins og samninganefndir létu nefndinni í té. Vísa má til þess álits og fylgiskjala um frekari rökstuðning með frv. því að ég vil reyna að stytta mál mitt sem kostur er.

Minnihlutaálit kemur frá framsóknarmönnum sem styðja frv. en meta ávinning af samningsgerðinni á nokkuð annan veg en fulltrúar Sjálfstfl. í iðnn. Í áliti sínu benda þeir réttilega á að í samningnum séu tveir meginþættir, skattstofn og skattstigi. Telja þeir ákvæðin um reikningsskil til hagsbóta og ávinning að nýjum reglum um viðmiðunarverð. Hins vegar virðast þeir taka framtíðarspám um álverð með nokkrum fyrirvara. Er þetta skiljanleg afstaða og eðlilega er rúm fyrir ólíkt mat á aðstæðum að þessu leyti.

Í viðamiklu minnihlutaáliti frá Alþb. rekur hv. þm. Hjörleifur Guttormsson helstu gagnrýni á þennan viðauka svo og um málsmeðferð. Þegar hefur verið fjallað um flest þau atriði sem koma fram í þessu áliti en benda má þó á eftirfarandi:

1. Það er fullyrt að lágmarksskattur fari hríðlækkandi. Rétt er að raunvirði dollarans fer nokkuð lækkandi. Hins vegar er rétt að benda á að Alusuisse hafði um þetta bindandi samning frá 1975, þ.e. um óverðtryggt grunngjald til 1994. Ekki var sá forsendubrestur fyrir þeirri till. nú að sterk krafa væri um leiðréttingu á gjaldinu svipað og átti við um raforkuverðið. Ítrekuð ósk var sett fram um hækkun gjaldsins en samningar tókust ekki um það.

2. Það er fullyrt að heildartekjur fari lækkandi. Útreikningar, sem lagðir voru fram í iðnn., sýna hið gagnstæða. Í fyrsta lagi mun skattstofninn hækka með bættum reikningsskilum og endurfjármögnun. Í þeim tilvikum sem líklegust eru um þróun álverðs og hagnað ÍSALs verða heildarskatttekjur hærri.

3. Fullyrt er að aðhald að ÍSAL verði veikara. Eins og margrætt er hér í deildinni breytist almennur réttur til skattaeftirlits ekki við þessa samninga. Tímafrestur til árlegs eftirlits og endurskoðunar er fullnægjandi að mati Coopers & Lybrand. Skylt er nú að láta endurskoðun ársreikninga fara fram árlega og fari sú endurskoðun fram er heimilt að vefengja ársreikningana jafnvel eftir 1. okt. á því ári sem endurskoðunin fer fram.

4. Fullyrt er að skattalögsagan sé áfram erlendis. Það er rétt að alþjóðlegir endurskoðendur framkvæma endurskoðunina. Hins vegar hefur íslenskt aðildarfélag Coopers & Lybrands, Endurskoðunarmiðstöðin hf., N. Manscher, tekið aukinn þátt í endurskoðuninni. Þannig er stefnt að því að Íslendingar yfirtaki vinnu við endurskoðun næstu árin.

5. Staðhæft er í nál. að málsmeðferð hafi verið hrakleg. Hv. þm. gagnrýnir skort á samráði við stjórnarandstöðuna og að of mikil leynd hafi hvílt yfir samningsgerðinni. Nú er það svo að samningar, sem varða viðskipti, verða að vera trúnaðarmál. Möguleiki til að skiptast á upplýsingum í trúnaði getur og greitt fyrir því að samningar náist. Mikilvægt er að gagnkvæmur trúnaður ríki milli aðila. Hitt má vel viðurkenna að samráð geti orðið að líða nokkuð fyrir bragðið.

Ekki verður fjölyrt frekar um útreikninga sem fylgja nál. og áður hefur verið fjallað um. Ágreiningur er milli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og mín um mat á tölulegum niðurstöðum og við það verður sitja eftir leiðréttingu þá sem margrædd er.

Ég vil ekki fjölyrða mikið um minnihlutaálit Kvennalistans sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir flutti. Mörg sjónarmið þm. eru athygli verð en ég er þeim ekki þar með sammála. Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir ræddi um að ekki bæri um of að treysta Alusuisse vegna skattamálanna. Þetta má taka undir að því leyti að hafa verður virkt skattaeftirlit með ÍSAL. Einmitt það hefur verið tryggt með lögbundnum árlegum endurskoðunum. Ég hef áður lagt áherslu á þýðingu þessa ákvæðis.

Virðulegi forseti. Ég mun reyna að stytta mál mitt mjög og fletta hér upp í lokaorð og þau eru svohljóðandi:

Um mat á ávinningi af samningi þessum verður að hafa hugfast að megintilgangur samningsgerðarinnar var að bæta framkvæmd skattlagningarinnar, m.a. með betri reikningsskilum og reikningsreglum, og semja um viðmiðanir til að framkvæma armslengdarákvæði samningsins án þess að sífelldar deilur kæmu upp um það mál. Þessu meginmarkmiði hefur verið náð. Auk þess hefur veruleg eiginfjáraukning átt sér stað. Ekki voru sérstök rök fyrir því að réttmætt væri að krefjast nú aukinna skatta af ÍSAL nema í tengslum við aukinn hagnað. Með samningnum er lagður grundvöllur að bættri afkomu ÍSALs og tryggður aukinn skattur eftir því sem afkoma fyrirtækisins batnar.

Loks er rétt að árétta að hinar endurskoðuðu reglur um framleiðslugjald taka aðeins til núverandi álbræðslu. Um stækkun álversins og hugsanlega samninga þar að lútandi verður ekki rætt nánar hér. Þó er alveg ljóst að samkomulag um málefni fyrri tíðar er nauðsynlegur grundvöllur þess að unnt sé að fjalla með ábyrgum hætti um stækkun álversins. Nauðsynlegt er því að hraða afgreiðslu máls þessa, sem felur í sér lokalausn þeirra mála sem á dagskrá hafa verið varðandi núverandi álbræðslu skv. bráðabirgðasamningum frá 23. sept. 1983, þannig að hefja megi viðræður um stækkun álversins á nýju ári með hreint borð. Rétt er og að minna á að von okkar um aukinn ávinning af álbræðslunni hlýtur að vera tengd stækkun hennar og varðar það jafnt aukna orkusölu, aukna atvinnu, auknar skatttekjur sem og almennan þjóðhagslegan ávinning af starfseminni.

Virðulegi forseti. Ég vil aftur bera þakkir mínar fyrir góða afgreiðslu forseta deildarinnar.

Umr. (atkvgr.) frestað.