12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

121. mál, sala Kröfluvirkjunar

Frsm. meiri hl. (Björn Dagbjartsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. iðnn. Nál. er á þskj. 209 og í því segir að nefndin hafi ekki orðið sammála og að minni hl. muni skila séráliti og að Stefán Benediktsson hafi verið fjarstaddur afgreiðslu málsins. Meiri hl. nefndarinnar flytur brtt. á þskj. 210 svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við 2. gr. bætist: svo og skuldbindingum um gufuafhendingu vegna Hitaveitu Skútustaðahrepps og Léttsteypunnar hf. samkvæmt samningum ríkisins og eigenda jarðanna Reykjahlíðar og Voga, dagsett 18. mars“ - þar mun vanta inn í „og 4. maí“ og verður það leiðrétt við endurprentun þskj. - „1971, sbr. yfirlýsingu aðila 1. júlí 1975 og 23. júní 1982.“

Þessi brtt. er í samræmi við ósk frá sveitarstjórn Skútustaðahrepps sem lagði áherslu á að þessi atriði yrðu bundin í lögum. Málsaðilar, þ.e. Landsvirkjun og iðnrn., höfðu ekkert við þessa breytingu að athuga og töldu eðlilegt að verða við þessum óskum. Eins og segir í nál. þá fjallaði nefndin um þetta mál á alls fjórum fundum og fékk til sín níu sérfróða menn. Hv. þm. Ragnar Arnalds sat tvo síðustu fundi nefndarinnar í fjarveru hv. nm. Skúla Alexanderssonar.

Ég sé á áliti minni hl. að hv. þm. Ragnar Arnalds hefur upplýst kollega sinn mjög vel um það sem gerðist á þessum tveimur síðustu fundum.

Ég held að óhætt sé að segja að kaupverðið eða upphæð kaupsamnings hafi verið það efni sem fyrst og fremst var um rætt á þessum fundum. Samkvæmt beiðni hv. þm. Ragnars Arnalds voru lagðir fram nýir útreikningar á verðmæti virkjunarinnar, m.a. nýjar forsendur eða þær að borað yrði eftir meiri gufu og vél 2 tekin í notkun eftir u.þ.b. fimm ár með því móti og að því tilskildu að ekki þyrfti að bora nema 11-12 holur til að knýja hina vélasamstæðuna af fullu afli og mátti samkvæmt þessum útreikningum fá verðmæti upp í 1300-1500 millj. kr. En fjármagnskostnaðurinn eða greiðslu- eða skuldastaðan þessu samfara varð aftur gífurleg eða 3-4 milljarðar á tímabilinu 1990-2000. Auk þess þurfti auðvitað að gera ráð fyrir því að markaður væri fyrir þá orku sem þarna kæmi og það á fyllsta verði.

Meiri hl. taldi fremur ólíklegt að stjórnvöld, hver sem þau hefðu verið, væru reiðubúin að leggja út í slíka tvísýnu á næstunni. Hitt kom einnig fram að sem stendur er ekki næg gufa fyrir nema u.þ.b. 25 mw. framleiðslu. Strax á árinu 1988 eða fyrr verður að bora eftir meiri gufu. Það kom einnig fram hjá fulltrúum Landsvirkjunar að fyrirtækið hefur fullan hug á að láta rannsóknir halda áfram og geta þær auðvitað leitt til þess að hagkvæmt verði að virkja á þessu svæði fyrr en ella. Rök hv. þm. Ragnars Arnalds í þessari umræðu voru m.a. að ekkert hefði legið á að skipa þessum málum á þann hátt sem varð ofan á.

Ég er þessu ósammála og meiri hl. iðnn. var það reyndar. Ég tel einmitt að vegna þeirrar óvissu og óljósu stöðu sem fyrirtækið og starfsmenn þess voru í hafi verið nauðsynlegt að ráða þessum málum til lykta og á þennan hátt sem hlýtur að vera sá eðlilegasti. Það er auðvitað ljóst að kaupverðið er og verður áfram deiluefni, en ég held að sá rökstuðningur sem fram kom í viðtölum nefndarinnar hafi verið fullnægjandi og a.m.k. er það ljóst að kaupandi telur verðið síst of lágt þó að ýmsir aðrir telji svo vera.

Kröfluvirkjun verður í höndum nýrra eigenda frá áramótum. Það kom fram í máli fulltrúa Landsvirkjunar að þeir telja mikilvægt að Kröfluvirkjun haldi áfram að gegna sínu hlutverki til spennujöfnunar á þessu svæði og til þess var talið heppilegast að keyra virkjunina á 20-25 mw. afli. Til þess aftur á móti að grundvöllur eigi að vera fyrir meiri orkuframleiðslu, sérstaklega á sumrin, þarf að koma til stóraukning á sölu eða þá að hætt verði við Blönduvirkjun alfarið um sinn. Það var skýrlega upplýst á fundunum að keyrsla vatnsaflsvirkjana Landsvirkjunar væri miklum mun ódýrari kostur en orkuframleiðsla með gufu og þess vegna mundi Kröfluvirkjun verða stöðvuð að sumarlagi enn um skeið.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta mikið fleiri orðum. Ég hef reyndar ekki skilið þann jarðarfarartón sem hefur komið fram í málflutningi sumra stjórnarandstæðinga í þessu máli, ekki síst hjá hv. þm. Ragnari Arnalds. Ég lít a.m.k. ekki á mig í hlutverki neins líkmanns eða útfararstjóra. Ég tel að aðeins sé verið að afgreiða sjálfsagt og eðlilegt mál á eðlilegan hátt.