12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

121. mál, sala Kröfluvirkjunar

Frsm. minni hl. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram minnihlutaálit um frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Kröfluvirkjun í Suður-Þingeyjarsýslu. Það voru haldnir fjórir fundir í iðnn. um frv. og á fyrsta fundinum var sú spurning lögð fyrir Landsvirkjunarmenn og fulltrúa RARIK, hvort þeir hefðu haft áhuga fyrir því að selja þetta fyrirtæki. Þeir létu það vera að svara sjálfir, en fulltrúi iðnrn. tók að sér að svara og lýsti því þá yfir að það hefði verið iðnrn. sem hefði óskað eftir því að af þessum samningi eða þessum kaupum yrði, þ.e. hvorugur aðilinn, hvorki sá sem átti eða hafði rekstrarumsjón með fyrirtækinu RARIK né heldur sá sem keypti hafði áhuga á því að kaupa fyrirtækið.

Það liggur því ljóst fyrir að eini aðilinn sem óskaði eftir breytingu á eignaryfirráðum Kröfluvirkjunar er ríkið og forráðamenn þess sem hafa ákveðið að taka á ríkissjóð stóran hluta af lánum Kröfluvirkjunar og selja virkjunina á verði sem er bersýnilega langt undir sannvirði án þess að aðrir óskuðu eftir þessari yfirtöku. Það kom líka strax fram á fyrsta fundi nefndarinnar að fulltrúar Rafmagnsveitnanna töldu að Kröfluvirkjun, staðsetning Kröfluvirkjunar, styrkti mjög veitukerfi Rafmagnsveitnanna og flutningskerfi orku um landið og að ef þeir hefðu verið áfram rekstraraðilar að Kröflu mundi hún hafa verið nýtt að fullu svo gott sem árið um kring.

Á nefndarfundi upplýsti Einar Tjörvi Elíasson framkvæmdastjóri Kröfluvirkjunar að hámarksafl annarrar vélar virkjunarinnar væri 35 mw. Því er unnt að reka þá vél með 30 mw. að jafnaði þannig að vélin dugi til spennujöfnunar og til að auka stöðugleika kerfisins.

Með 30 mw. framleiðslu er fullkomlega raunhæft að önnur vélin skili 200-220 gw. afköstum á ári. Tvær vélar gætu þá skilað yfir 400 gwst. þegar nægrar orku hefði verið aflað, en til þess þyrfti væntanlega að bora 11-12 holur til viðbótar. Þess vegna var um það spurt hvert yrði útreiknað kaupverð virkjunarinnar ef reiknað væri með 130 gwst. orkusölu frá annarri vél Kröflu þegar frá næstu áramótum. Framleiðslugeta vélarinnar gæti orðið 204-220 gwst.

Iðnrn. reiknaði út að þessi eina breyting mundi hækka kaupverðið um 165 millj. kr. Í útreikningum á söluverði virkjunarinnar er hins vegar aðeins reiknað með 125 gwst. orkusölu frá Kröflu næstu tvö árin, 130-160 gwst. á árunum 1988-1991 og aldrei meiri orkusölu en 170 gwst. allt fram til ársins 2010.

Þá var að því spurt hvort eitthvert tillit hefði verið tekið til þess við ákvörðun kaupverðs að seinni vélin fylgir með í kaupunum og er mikils virði sem slík, auk þeirra möguleika á fullnýtingu mannvirkja sem hún býður upp á. Þessu var svarað neitandi.

Spurt var og hvort ekki væri orkumarkaður hjá RARIK fyrir alla þá orku sem Kröfluvirkjun gæti framleitt og var því svarað játandi, eins og ég nefndi reyndar áður.

Spurt var hvert yrði kaupverð virkjunarinnar ef reiknað væri með fullri nýtingu fyrri vélar nú þegar og seinni vélar 1989. Þetta dæmi virðist ekki hafa verið reiknað út við samningsgerð og var vísað til óvissu um orkuöflun.

Miðað við að hver ný borhola kosti 40 millj. kr., holurnar yrðu tólf og tengikostnaður væri áætlaður 30 millj. kr. og þessi viðbótarorka kæmi í gagnið í áföngum á árunum 1988-1990 taldi ráðuneytisstjóri iðnrn. að kaupverð Kröfluvirkjunar reiknað á hliðstæðan hátt að öðru leyti og gert er í frv. mundi teljast 388 millj. kr. hærra.

Ljóst er að enn aukin nýting á orkugetu virkjunarinnar til viðbótar við þetta, sbr. það sem áður er sagt, mundi hækka útreiknað kaupverð virkjunarinnar enn frekar.

Í ljósi þessara upplýsinga virðist ljóst að útreikningur á kaupverði virkjunarinnar er mjög umdeilanlegur. Óvissan um orkuöflun á Kröflusvæðinu er látin ráða því að virkjunin er verðlögð langt undir sannvirði. Þar sem ekkert kallar á yfirtöku Landsvirkjunar á Kröflu bendir flest til þess að réttara væri að bíða með þessa skipulagsbreytingu í orkukerfinu.

Að þessu athuguðu treysti ég mér ekki til þess að mæla með samþykkt þessa frv.

Eins og fram kom í máli hv. frsm. meiri hl. sat Ragnar Arnalds fyrir mína hönd tvo síðari fundi nefndarinnar.