12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

121. mál, sala Kröfluvirkjunar

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstvirtur forseti. Aðeins örfá orð. Við 1. umr. þessa máls saknaði ég þess að ekki skyldu fylgja frv. spádómar um hversu kostnaðarsamt yrði að afla gufu vegna þeirrar vélar virkjunarinnar sem enn hefur ekki verið tekin til nota og verður líklega ekki í bráð. Að mínum dómi kom það greinilega fram í umræðum í nefndinni að mjög erfitt er að spá fyrir um kostnað vegna borana, öflunar gufuorku. Að vísu kemur það sem fram kom í nefndinni um það efni fram í nál. minni hl. iðnn. Það er staðreynd að um það voru allmiklir fyrirvarar.

Mér finnst aðalatriði þessa máls vera að einu gildir hver er eigandi þessa fyrirtækis. Sá eigandi kæmist einfaldlega ekki hjá því að taka tillit til þess ástands sem er á orkumarkaðnum, þ.e. eins og sakir standa er langtum meiri orka í okkar kerfi en þörf er fyrir. Og vegna þess að í nál. minni hlutans er oft þannig tekið til orða, „spurt var“ o.s.frv., vil ég bæta við: Spurt var hvort RARIK mundi virkja enn meir, þ.e. afla gufu og taka til notkunar vél nr. 2 ef virkjunin væri áfram á hendi RARIK. Það kom greinilega fram, og vísa ég þá til þess sem ég sagði áðan og endurtek það, að forsvarsaðilar RARIK mundu alls ekki leggja út í slíkt, einfaldlega með tilliti til stöðunnar á orkumarkaðinum eins og sakir standa.

Við 1. umr. málsins hafði ég uppi hugleiðingar um það hvort Landsvirkjun mundi einhvern tíma síðar, hugsanlega um næstu aldamót eða svo, virkja eða afla gufu til þess að taka í notkun aðra vél, vél virkjunarinnar nr. 2. Engar fyrirætlanir liggja fyrir um þetta eins og fram hefur komið. Hins vegar kann svo að fara að mínum dómi að til þessa bragðs verði tekið. En um það er ekkert hægt að segja nú. Ef svo verður og sá kostur verður talinn hagkvæmari en aðrir kemur það einfaldlega fram í lægra orkuverði til landsmanna. Svo einfalt er það mál í mínum huga.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vildi aðeins taka þátt í þessari umræðu og ítreka þá skoðun mína að ég held, þrátt fyrir allt, að hér hafi verið valin sú leið sem óumflýjanlegt var að fara.