12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

84. mál, skráning skipa

Frsm. (Egill Jónsson):

Virðulegur forseti. Samgn. Ed. Alþingis hefur fjallað um frv. til laga um skráningu skipa. Niðurstaða hennar er samhljóða. Hún mælir með því að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem fram eru lagðar á þskj. 220.

Samgn. sendi málið til umsagnar og bárust umsagnir frá Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Allir þessir aðilar mæltu með samþykkt frv. og lögðu áherslu á að þeirri afgreiðslu yrði hraðað. Auk þess ræddi nefndin m.a. við Magnús Jóhannesson siglingamálastjóra, en hann var sem kunnugt er einn af aðalhöfundum frv.

Veigamesta breytingin frá gildandi lögum felst í 2. mgr. 1. gr. frv. þar sem samgrh. er veitt heimild til að leyfa skráningu kaupskipa hér á landi án þess að meginkröfu laganna um eignarhald íslenskra aðila sé fullnægt, en þó með því skilyrði að um sé að ræða skip sem gert er út hér á landi með íslenskri áhöfn, að skipið uppfylli ákvæði íslenskra laga og reglna og hafi ekki heimild til að sigla undir fána annars ríkis. Með þessari breytingu verða kaupskip, sem skráð verða á skipaskrá skv. þessari heimild, að lúta eftirliti íslenskra stjórnvalda hvað varðar öryggi skips og búnaðar. Eftirlit íslenskra stjórnvalda með skipum í eigu erlendra aðila, sem gerð eru út hér á landi með íslenskri áhöfn, er nú nánast ekkert þrátt fyrir ákvæði 2. málsgr. 2. gr. laga um eftirlit með skipum.

Ég vísa til þess sem ég áðan sagði, að á þskj. 220 flytur samgn. Ed. brtt. við frv. Þær brtt. eru fyrst og fremst varðandi orðalag og framsetningu en ekki að því er lýtur að efnisatriðum frv. Ég vil því, virðulegi forseti, gera tillögu um að málinu verði vísað til 3. umr.