12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

84. mál, skráning skipa

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í ræðu frsm. var frv. þetta upphaflega flutt hér í deildinni á síðasta ári og þá var það til þess að veita heimild til þess að íslenskt eignarhald þyrfti ekki að vera á skipum til þess að þau gætu fengið skráningu. En það frv. sem við fjöllum um hér er yfirfarið frv. um skráningu skipa. Það eru ýmsir þættir sem þar hafa verið leiðréttir, til nýs tíma og til fyllingar.

Til umræðu í nefndinni kom einnig einn þáttur til viðbótar, um einkarétt á nafni skips og hvernig það skyldi úr gildi falla við dauða einkaréttarhafa. Það munu vera mörg nöfn skráð á einkarétt og eigendur eru látnir. Óskað var eftir því að við fjölluðum um þetta en einhverra hluta vegna hefur það ekki komið til frekari afgreiðslu í sambandi við brtt. Ég fylgdist ekki alveg með þessu til loka en ég vil spyrja formann nefndarinnar, frsm., af hverju þetta hafi ekki verið frekar skoðað.

Einnig kom í ljós að það er ekki aðeins að veitt séu einkaleyfi frá Siglingamálastofnun, skv. fyrri lögum og væntanlega áfram skv. þessum lögum, heldur eru í gildi alveg sérstök lög um einkarétt á nafni skipa. Þar á ég við lög um einkarétt Eimskipafélags Íslands á Fossunum. Ég vildi aðeins benda á að um þetta var fjallað í nefndinni og talið eðlilegt að frá þessu væri gengið í lögunum, hvernig með skyldi fara við lát einkaréttarhafa, en einhverra hluta vegna hefur þessu ekki verið fylgt eftir og það kemur ekki fram í brtt.