12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

178. mál, jarðræktarlög

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Eins og mörgum er vafalaust kunnugt hefur nefnd á vegum Búnaðarfélags Íslands setið að störfum um nokkurt skeið vegna endurskoðunar á jarðræktarlögum. Þessi nefnd skilaði áliti til þess búnaðarþings sem síðast sat. Menn vita flestir um framhaldið, þ.e. sú nefnd sem sett var á fót af hálfu ríkisstj. gerði ákveðnar tillögur um breytingar á 10. gr. jarðræktarlaga varðandi framlög til verkefna. Frv. um þetta efni var samþykkt á þinginu í fyrra. Þá var aðeins einn þáttur þess lagabálks tekinn til umræðu og afgreiðslu hér á Alþingi. Jarðræktarlögin eru til endurskoðunar áfram hvort tveggja á vegum þeirrar nefndar sem ég gat um og jafnframt þeirrar nefndar sem ríkisstj. fól að endurskoða jarðræktarlögin.

Þetta mál, sem hér er á ferðinni, um styrkhæfar geymslur vegna plastklæddra rúllubagga, er mér ekki kunnugt um að, eins og komist var að orði, hafi gleymst. Ég geri hins vegar fastlega ráð fyrir því, úr því slík ábending er komin fram með þessum hætti, að málið verði tekið til skoðunar enn frekar. Reyndar hafa þessi mál verið rædd. Það er ekki svo að skilja. En ég held að þau hafi ekki gleymst, eins og hv. flm. þessa frv. komst að orði. Endurskoðunarnefndin mun vafalaust hyggja að þessu máli, en ég vil ekki síst benda á að styrkir voru auknir, aðstoð var aukin vegna byggingar votheysgeymslna með samþykkt þess frv. sem lá fyrir þinginu í fyrra. Í því fólst ákveðin stefna, ef svo má að orði komast, um heyverkun.

Hæstv. forseti. Ég ætlaði aðeins að segja örfá orð, koma þessu að. Deildin hefur takmarkaðan tíma, eins og fram hefur komið, og ég læt þetta nægja.