12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

178. mál, jarðræktarlög

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna hverri þeirri viðleitni og tillögu sem fram kemur, bæði hér á Alþingi og annars staðar, og miðar að því að treysta grundvöll í landbúnaði. Að sjálfsögðu felst það í því að nýta sem best og með sem bestri hagkvæmni þær nytjar sem af löndum okkar berast. Þess vegna er ég þakklátur flm. þessa frv. fyrir að hún skuli hafa verið lögð fram.

Eins og kom fram hjá hv. þm. Davíð Aðalsteinssyni hefur verið starfandi milliþinganefnd búnaðarþings sem hefur fjallað um endurskoðun á jarðræktarlögunum. Það verður að segjast eins og er að síðasta búnaðarþing komst ekki að sannfærandi niðurstöðu og af þeirri ástæðu var gripið til þess ráðs að gera bráðabirgðabreytingar á jarðræktarlögunum á síðasta Alþingi, í lok þess þings. Mér er kunnugt um að milliþinganefndin hefur haldið áfram störfum sínum og mun væntanlega skila áliti fyrir næsta búnaðarþing. Þá tekur hún væntanlega í tillögum sínum mið af eða til umfjöllunar þær ábendingar sem hér voru reyndar lögfestar til bráðabirgða á síðasta vori.

Ég tel alveg sjálfsagt að þessi tillaga berist inn í þá umræðu og með því að það má ætla að jarðræktarlögin verði í umfjöllun þessarar nefndar þar til búnaðarþing hefur störf sín mun ég gera ráðstafanir til þess, ef mögulegt er, að koma þessari tillögu þangað til umfjöllunar svo að hún geti fengið þar eðlilega skoðun eins og önnur þau mikilvægu atriði sem þessi mál varða.

Það er hárrétt, sem fram kom hjá flm. áðan, að hér er áreiðanlega um að ræða heyskaparaðferð sem er að öryggi til framar flestum öðrum aðferðum sem við höfum beitt. Hins vegar er hún eigi að síður vandasöm. Þessi búnaður er viðkvæmur og því miður má sjá þess mörg dæmi að hey unnin með þessari heyskaparaðferð og þeim búnaði sem honum fylgir þoli ekki vetrarveður undir beru lofti. Það er nauðsynlegt að fram fari mat á því hvaða stöðu við eigum að velja þessari heyskaparaðferð í landbúnaði og þá jafnframt með hvaða hætti ríkisvaldið eigi að ganga þar á mót. Ég tel að það séu einmitt góðar aðstæður, með tilliti til þeirrar umfjöllunar sem fer fram um jarðræktarlögin, að meta þær aðstæður um þessar mundir.