12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

178. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Norðurl. v. fyrir þá ábendingu sem hann hefur komið á framfæri um að skýrari ákvæði þurfi í jarðræktarlögum til að hægt sé að haga þar málum í samræmi við nýjustu tækni á því sviði sem frv. fjallar um. En það hefur verið rakið hér hvernig þau mál eru í athugun. Vegna síðustu orða hv. 8. þm. Reykv. vil ég aðeins leggja áherslu á að ætlunin er að frv. til breytinga á jarðræktarlögum komi fyrir þetta þing og þar verði haldið áfram í þá átt sem stefnt var í með bráðabirgðabreytingunni á s.l. vori.

Ég vil líka þakka hv. 8. landsk. þm. fyrir áhuga hennar á stuðningi við nýjungar í landbúnaði og þá sérstaklega þá atvinnugrein sem nú er í örastri uppbyggingu og vexti, þ.e. loðdýraræktin, en jafnframt leiðrétta þann misskilning að fóðurstöðvarnar hafi ekki notið neins stuðnings. Það er alveg rétt að þær eiga í nokkrum erfiðleikum þar sem þær þarf að byggja upp áður en loðdýrabúin eru farin að skila afrakstri, en stuðningur þar er verulegur úr Framleiðnisjóði í samræmi við þau markmið sem hann hefur. Út á vélar og tæki er veitt framlag sem nemur 45% af stofnkostnaði. Ég held að ekki sé hægt að segja að þar sé ekki um neinn stuðning að ræða. En það er alveg rétt að fóðurstöðvarnar eiga í nokkrum vanda vegna þess að uppbygging þeirra verður að vera örari en markaðsþörfin hverju sinni. Það er því, eins og fram kom í orðum hv. 8. landsk. þm., þörf fyrir stuðning við nýjar búgreinar, en samt sem áður ekki ætlunin að leggja hinar hefðbundnu niður. Við viljum styðja nýjar búgreinar og álitlegar og halda áfram þeirri stefnu, sem mörkuð var í vor, að breyta ákvæðum jarðræktarlaga eins og annarra laga í samræmi við breyttar aðstæður og þarfir hverju sinni þó að þar verði ekki allt fellt niður.