12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

178. mál, jarðræktarlög

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að þreyta kapp við hv. 11. landsk. þm. um það hvar og hvernig fjöldi atkvæðanna liggur. En ég vona þó að vegur BJ verði aldrei svo bágur að það hali ekki inn fleiri atkvæði en hv. þm. Mér fannst þegar hann fór að tala um röksemdafærslu bregða fyrir því, sem svo oft örlar á í máli hv. þm., að hans röksemdafærslur eru nokkuð pottþéttar innan mjög ákveðins og lokaðs ramma.

Það er greinilegt að hann áttar sig í fyrsta lagi ekki alveg á því hvor ræður hér á landi, Alþingi eða búnaðarþing. Þó að Búnaðarþing samþykki hugmynd sem þessa er alls ekki loku fyrir það skotið að Alþingi hafni henni. En segjum sem svo að hún yrði að lögum er hún eftir sem áður ekki annað en réttur eða heimild og enn þá er eftir að gera ráð fyrir henni í fjárlögum, í framlögum Alþingis, því að ekki býst ég við að það sé svo mikið umfram í þeim framlögum að menn geti farið að taka tillit til hluta sem þeir ekki tóku tillit til áður. Mér hefur ekki heyrst það á fulltrúum bænda hér á þingi, þegar þeir koma hér í ræðustól, að það sé ofgert við þá. Það þýðir að þessi réttur verður í raun og veru ekki nýtanlegur fyrr en eftir samþykkt næstu fjárlaga, þ.e. á árinu 1987, og þá eru liðnir tveir vetur frá því að mælt var fyrir þessu máli.