12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

168. mál, Aflatryggingarsjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að biðja hæstv. þingdeild afsökunar á því hvað ég hef þurft að vera hér á hlaupum. Ekki er betra að ég hef einhvers staðar skilið punktana mína eftir með spurningunum. Ég vænti þess að ég muni þær nokkurn veginn en bið hv. fyrirspyrjendur þá að leiðrétta það og koma því á framfæri ef það er ekki rétt munað.

Í fyrsta lagi vildi ég aðeins nefna það varðandi nafnið á þessu frv. að það er þannig tilkomið að 1984 var talið að hér væri almennur aflabrestur í landinu og þá var ákveðið að gera þá breytingu að greiða almennar bætur úr Aflatryggingasjóði og leggja af hinar sérstöku bætur. Ég er þeirrar skoðunar að þessi breyting hafi verið að mörgu leyti til góðs því að þó að í mörgum tilfellum þurfi einstakir aðilar og einstakir staðir á bótum að halda er enginn vafi á því að það fyrirkomulag var misnotað af nokkrum aðilum og var mjög um það rætt. Það hafa að mínu mati ekki komið upp mörg sérstæð vandamál vegna þessarar breytingar. Almennt séð tel ég því að þetta hafi verið til góðs.

Hitt er svo annað mál að þegar afli tekur að aukast aftur má það vel vera rétt að hér sé ekki um rétt nafn að ræða. Hins vegar fara þessar greiðslur í gegnum Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins og þar af leiðandi er þetta frv. breyting á lögum um Aflatryggingasjóð.

Hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir spurðist fyrir um beiðni fiskvinnslunnar um lagfæringar og vildi ég aðeins reyna að svara því. Í fyrsta lagi bað fiskvinnslan um að endurgreiddur uppsafnaður söluskattur kæmi beint til hennar en ekki til Aflatryggingasjóðs og síðan til útgerðarinnar á árinu 1986. Því hefur að sjálfsögðu verið svarað neitandi vegna þess að þetta frv. gerir ráð fyrir öðru, enda verður vart séð hvaða bati væri í því fyrir fiskvinnsluna vegna þess að það má einfaldlega gera ráð fyrir því að það hafi tilsvarandi áhrif á fiskverð og það verð sem fiskvinnslan þarf að greiða fyrir fiskinn.

Í öðru lagi fóru þeir þess á leit að reynt yrði að leiðrétta það misgengi sem hefur orðið milli SDR og dollars, en SDR-myntin hefur breyst um u.þ.b. 13% á árinu 1985 á sama tíma og dollar hefur breyst um liðlega 2%. Þetta hefur orðið til þess að þeir, sem selja afurðir sínar fyrst og fremst í dollurum en hafa tekið lán í SDR, hafa orðið fyrir umtalsverðu tapi.

Nú er það svo að viðskiptabankarnir hafa tekið lánin í svipuðum myntum og SDR-myntin er byggð upp á. Þeir telja sig því ekki hafa haft nokkurn hag af þessum viðskiptum. Ríkisstj. hefur hins vegar beint því til Seðlabanka að hann láti fara fram útreikning á því hversu mikill mismunur hér er og hvaða leiðir séu færar í því að leiðrétta hann að einhverju leyti og einnig að koma í veg fyrir að slíkt geti endurtekið sig. Það liggur ekki fyrir niðurstaða í því en það mun verða reynt að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt og reyna að bæta það sem orðið er.

Það er mjög slæmt hversu langan tíma það hefur tekið að útflutningsatvinnuvegirnir geti valið um myntir en sú er orðin raunin nú. Það er m.a. vegna þess hversu langan tíma það hefur tekið hjá bönkunum að gera þá breytingu.

Að því er varðar skoðanir fiskvinnslunnar um rekstrartap er það ekki alveg samdóma álit annars vegar þeirra og hins vegar Þjóðhagsstofnunar hversu mikið þetta tap er. Þeir gera ráð fyrir 8-9% tapi en Þjóðhagsstofnun 2-3%. Í því sambandi verður að sjálfsögðu að líta til heildarafkomunnar því að mörg af þeim fyrirtækjum, sem um er talað, eru bæði í útgerð og fiskvinnslu. En hvað svo sem má um þessar prósentur segja er tapið umtalsvert og það er engin einföld leið til að lagfæra þá stöðu.

Vissulega hefur gengið sigið. Þótt dollarinn hafi nú aðeins breyst, um rúm 2%, hefur gengið sigið á árinu og það hefði vissulega þurft að síga meira til að koma til móts við það áfall sem fall dollarans hefur orðið þjóðarbúinu. En þá kemur hin stóra spurning: Er það ásættanlegt í því tekjuskiptingarvandamáli sem við eigum við að stríða? Það eru engin áform um það að frekari gengissig eigi sér stað og þar af leiðandi hefur ríkisstj. ekki á nokkurn hátt orðið við þessari beiðni fiskvinnslunnar.

Að því er varðar spurninguna um hvort það sé í síðasta skipti sem frv. sem þetta sé flutt get ég að sjálfsögðu ekki fullyrt um það. Það fer eftir því hvort takast mun að taka upp virðisaukaskattskerfið í ársbyrjun 1987, sem ég vænti að muni gerast. Ég bendi hins vegar á að það er eftir að vinna allverulega í því máli hér á Alþingi. Einnig er það háð því hvernig til muni takast með þá endurskoðun á sjóðakerfinu sem hér hefur verið gerð að umtalsefni. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Skúli Alexandersson sagði um það mál, að jafnvel þótt ég vildi gjarnan að þeirri endurskoðun lyki sem fyrst verður ekkert um það fullyrt.

Hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir spurði hvort ekki væri óeðlilegt að greiða uppbót á loðnu og karfa o.s.frv. Ég vil taka það fram að útgjöld verðjöfnunardeildar byggjast fyrst og fremst á óskum seljenda og kaupenda í þeim efnum. Það gerist nefnilega þannig að í fiskverðssamningum senda aðilar sjútvrn. bréf og óska eftir því að uppbætur séu ákvarðaðar með tilteknum hætti. Það hefur oftsinnis komið fyrir að sjútvrn. hefur spurt hvort ekki sé hægt að hafa það eitthvað aðeins öðruvísi en í öllum tilvikum farið eftir þeirri niðurstöðu sem kaupendur og seljendur hafa komið sér saman um. Það á við t.d. um loðnu.

Ég bendi á að mjölvinnslan á verulegan hlut í uppsöfnuðum söluskatti eða 190 millj. áætlaðar 1986. Þar af leiðandi er eðlilegt að loðnan og loðnuskipin fái hlutdeild í þessum greiðslum. Ef þær greiðslur ættu sér ekki stað þyrftu verksmiðjurnar væntanlega að greiða hærra verð. Það sama má segja um karfann. Að sjálfsögðu má um það deila hvort þessar uppbætur séu ekki of háar, en það er í samræmi við þær niðurstöður sem hafa verið í verðlagningu.

Hv. þm. Skúli Alexandersson spurði um flutninga á mjöli. Ég verð að viðurkenna að mér er allsendis ókunnugt um þau mál. Ég heyrði það í fréttum í gær eins og hann en get tekið undir það með honum að ég tel líklegt að það stangist á við lög um samkeppni og viðskiptahætti að skipafélög komi sér saman um slíka verðhækkun. Ég hef a.m.k. trúað því fram að þessu að mörg skipafélög séu trygging fyrir því að nokkur samkeppni sé milli þeirra. Væntanlega gæti slíkt orðið til þess að viðkomandi vinnslur eða loðnubræðslur leituðu til annarra aðila um flutninga, sem væri mjög miður. En mér fannst þessi frétt hljóma nokkuð óeðlilega.

Að lokum vildi ég taka undir það með hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni að það 1 % lífeyrisframlag, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., er mjög mikilvægt. Ef uppsafnaður söluskattur fellur niður sem greiðsla til Aflatryggingasjóðs og rennur beint til vinnslunnar verður ekki lengur séð fyrir þessu fé. En ég tel að þannig hafi verið gengið frá samningum milli útvegsmanna og sjómanna að gera verði ráð fyrir því að ef það gerist verði útvegsmenn að bera þessar lífeyrisgreiðslur. Hér er um það að ræða að sjómenn fái svipaðan lífeyrisrétt og aðrir launþegar. Það hefur verið til mikillar skammar hvernig þeirra lífeyrismálum hefur verið háttað og var þessi leiðrétting að mínu mati bráðnauðsynleg og í reynd sjálfsögð því að það er ekki hægt að ætlast til þess að sjómenn sætti sig við að búa við mun lakari lífeyrisrétt en aðrir landsmenn.

Ég vænti þess að ég hafi svarað í flestu þeim fyrirspurnum, sem til mín hefur verið beint, eftir því sem mér er unnt. Ef svo er ekki vænti ég þess að það verði hér leiðrétt.