23.10.1985
Neðri deild: 6. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

65. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. upplýsingar hans um þetta efni. Ég teldi ekki aðeins æskilegt heldur nauðsynlegt að það lægi fyrir fyrr en seinna af hálfu stjórnar Byggðastofnunar hvaða reglur hún hyggst láta gilda um þessi efni þannig að landshlutasamtökin hafi um það fulla vitneskju hvaða möguleika þau hafa til þess að leita eftir fjármagni hliðstætt því sem gilti skv. lögum, áður en þeim var breytt, um Framkvæmdastofnun ríkisins. Ég held að landshlutasamtökin hafi yfirleitt varið þessu fjármagni, sem þau fengu skv. eldri lögum, til mjög gildra verkefna, þýðingarmikilla verkefna, og það væri mjög miður ef þau féllu niður svo ekki sé meira sagt.

Ég minni á að við Alþýðubandalagsmenn stóðum að sérstökum brtt. um þetta efni sem felldar voru, en þá var að því látið liggja, eins og hæstv. félmrh. raunar gerði hér áðan, að það stæði landshlutasamtökunum áfram opið að sækja um þetta fjármagn. Séu hér hv. þm., sem geta upplýst þetta, úr stjórn Byggðastofnunar, úr ríkisstjórnarliðinu, þá væri vissulega gott ef það kæmi fram hér við þessa umræðu hvort stjórnin hefur tekið á þessu máli og mótað um það reglur.