12.12.1985
Efri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

184. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Frsm. minni hl. (Stefán Benediktsson):

Virðulegi forseti. 31. okt. s.l. leyfði ég mér að leggja nokkur orð í belg á fundi í Sþ. um þingsköp. Þar kvartaði ég yfir því að fá mál væru fram komin af þeim sem ríkisstj. hefði tilkynnt að hún ætlaði að leggja fram og sum hver mjög stór og skoraði þar á ríkisstj. að taka sér tak og leggja þau mál fram strax sem henni væri alvara um að hlytu afgreiðslu á þessu þingi. Ég skoraði líka á samþm. mína að vera vel á verði og láta ekki knýja sig til að afgreiða mál með hraði sem vandlegrar skoðunar þyrftu við.

Hæstv. forseti Sþ. tók til máls í þessari umræðu um þingsköp og sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég tel að það sé ekki ástæða til að gera þetta að sérstöku ádeiluefni nú í byrjun þings. Ég sé ekki ástæðu til að ætla annað heldur en vinnubrögð ríkisstj. verði með þeim hætti sem við kjósum þannig að það verði leitast við að dreifa þingmálum sem mest á allan þingtímann. Og ég hef ástæðu til að ætla það, og raunar tel mig geta sagt það, að það er vilji hæstv. forsrh. og þá geri ég ráð fyrir ríkisstj. í heild.“

Nú gerist það að frv., sem hér liggur frammi og er í sjálfu sér hvað greinafjölda snertir ekki stórt, liggur fyrir. Það var lagt fram fyrir þremur dögum. Það var mælt fyrir því degi eftir að það var lagt fram. Það var tekið til umfjöllunar á fundi iðnn. í morgun og nál. skilað. Með leyfi hæstv. forseta vildi ég fá að lesa úr athugasemdum við þetta lagafrv.

„Í grg. með frv.“, segir þar, „til laga um verðjöfnunargjald af raforkusölu, sem varð að lögum nr. 120/1984, var vísað til yfirlýsingar iðnrh., er hann gaf á Alþingi 14. des. 1983, þess efnis að hann mundi beita sér fyrir lækkun gjaldsins í áföngum eða niðurfellingu þess, enda yrði séð fyrir fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða með öðrum hætti.“

Síðan segir enn fremur:

„Við afgreiðslu máls þessa í desember 1984 náðist ekki samstaða um þær leiðir sem nefndin þá lagði til. Þess í stað var ákveðið að lækka gjaldið úr 19% í 16% og að sú tilhögun héldist í eitt ár, þ.e. árið 1985.

Í grg. með því frv. var tekið fram að það bæri að skoða sem fyrsta áfanga þess að verðjöfnunargjaldið yrði fellt niður.“

Menn gerðu ráð fyrir því, þegar þeir samþykktu þetta frv. síðast, að haldið yrði áfram að leita leiða til að fella þetta gjald niður. Þess vegna taldi ég ærna ástæðu til þess, þegar frv. kom nú fram, að skoða það mjög vandlega með tilliti til þess að þarna á að framlengja frv. án nokkurra annarra breytinga en þeirra að lengja lífdaga þess um eitt ár án nokkurra breytinga á gjaldinu.

Þess vegna, hæstv. forseti, og vegna þess að ég mótmæli vinnubrögðum sem þessum, og þá er ég ekki að gagnrýna meðnm. mína heldur þá sem að þessu máli standa og þá sem fjölluðu um þetta mál í fyrra og sögðu mjög skýrt að þeir skoðuðu það sem áfanga til að fella þetta gjald niður, get ég ekki samþykkt svo hraða afgreiðslu á þessu mjög svo mikilvæga máli. Við erum að tala um mjög alvarlegt og umfangsmikið mál og mál sem snýr einkum og sér í lagi að spurningu um réttlæti og óréttlæti varðandi búsetu í landinu. Eins og aðstoðarbankastjóri Seðlabankans, Sigurgeir Jónsson, upplýsti á fundi okkar í morgun, svo að ég vitni að miklu leyti orðrétt í hans orð sem ég man, hefur snarast svo um á þessu hrossi að 1/3, notendanna, þ.e. kaupendanna, greiða 2/3 orkuverðsins á meðan 2/3 kaupendanna greiða einungis 1/3. Út af þessu hefur styrinn staðið undanfarin ár, hvernig mætti rata á einhvern veg réttlætis og jöfnunar þar sem öllum væri gefinn jafn réttur. Sú afgreiðsla sem við erum að framkvæma horfir gersamlega fram hjá þeim möguleika að skoða þetta til hlítar og reyna að komast að einhverri niðurstöðu sem ekki var komist að í fyrra en allir menn sem þá töluðu lögðu ríka áherslu á að yrði að ná sem allra fyrst. Ég tel að því markmiði sé ekki náð með því að framlengja líf þessara laga enn eitt árið.