12.12.1985
Neðri deild: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

145. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. meiri hl. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir nál. meiri hl. sjútvn. um frv. til laga um stjórnun á fiskveiðum. Í nál. segir svo:

„Nefndin hefur fjallað um frv. á sex fundum og átt sameiginlega fundi með sjútvn. Ed. Til fundar við nefndirnar komu fulltrúar frá Hafrannsóknastofnun, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sjávarafurðadeild SÍS, Sambandi ísl. fiskframleiðenda, Farmanna og fiskimannasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Fiskifélagi Íslands, Landssambandi ísl. útvegsmanna og Félagi smábátaeigenda.

Forsendur þess að þetta frv. er flutt eru fyrst og fremst spár fiskifræðinga um ástand helstu nytjafiska okkar. Þær hugmyndir sem nú liggja fyrir um takmörkun sóknar í fiskstofnana eru sem næst þessar: 300 þús. tonn af þorski, 60 þús. tonn af ýsu, 70 þús. tonn af ufsa, 100-110 þús. tonn af karfa og 30 þús. tonn af grálúðu. Þessi aflamörk leiða óhjákvæmilega til stjórnar á veiðunum.

Í nefndinni var ekki ágreiningur um nauðsyn stjórnar. Yfirgnæfandi meiri hluti þeirra aðila, sem nefndin kallaði á sinn fund, voru sama sinnis.

Á árinu 1984 var gerð könnun á vegum sjútvrn. á viðhorfum útgerðar- og skipstjórnarmanna á svonefndu kvótakerfi. Niðurstaða þeirrar könnunar var að 88,7% svöruðu því játandi að þörf væri á heildarstjórn fiskveiða, 46,3% svöruðu því einnig játandi að stjórna ætti fiskveiðum með aflakvóta á fiskiskip.

Nefndin sér vissa ókosti á kvótakerfinu sem aðferð til að stjórna fiskveiðum en aðrar betri leiðir virðast ekki í sjónmáli. Með þeirri aðferð til stjórnar, sem beitt hefur verið og hér er lagt til að verði áfram, hefur tekist að spara í rekstri og auka gæði hráefnisins.

Sjávarútvegurinn er sú atvinnugrein sem öll afkoma þessarar þjóðar byggist á. Með þessu frv. er reynt að komast sem næst því að njóta sem mest og best þess sem hafið hefur að geyma án þess þó að ganga um of á þann stofn er þar vex.

Með vísan til þess, sem að framan greinir, leggur meiri hl. nefndarinnar til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem liggja fyrir á þskj. 243.“

Undir þetta nál. rita Stefán Guðmundsson, Garðar Sigurðsson, Gunnar G. Schram, Halldór Blöndal og Ingvar Gíslason.

Þær brtt., sem hér liggja fyrir, eru ekki mjög stórvægilegar. En það verður að segjast að nefndin lagði sig fram um að hlusta á hagsmunaaðila og reyna að ná sem mestum sáttum í þessu máli. Ég held að ég geti fullyrt að það hafi tekist vonum framar að ná þeim sáttum sem sóst var eftir.

Þær brtt., sem fyrir liggja á þskj. 243, hljóða þannig:

„1. Við 4. gr. Við 2. málsgr. bætist nýr málsliður er orðist svo: Ráðuneytið getur þó ákveðið að skip, sem loðnuveiðar stunda, skuli aðeins eiga kost á botnfiskveiðileyfi með aflamarki.

2. Við 9. gr. 1. tölul. 1. málsgr. orðist svo:

Veiðar eru ekki heimilar á eftirgreindum tímabilum:

a. Í tíu daga um páskahelgi í mars 1986 og í apríl 1987. Enn fremur í tíu daga í ágúst og sjö daga í júní og október, hvorn mánuð, ár hvert. Fari mánaðarlegt aflamark báta undir 10 brl. í einhverjum landsfjórðungi niður fyrir tvo þriðju af meðalafla þess mánaðar síðustu þrjú árin vegna ógæfta er ráðherra heimilt að aflétta næstu veiðistöðvun á eftir skv. þessum staflið.

b. Frá og með 15. des. 1986 til og með 15. jan. 1987 og frá og með 15. des. 1987 til og með 31. des. 1987.“

Í frv. sjálfu var gert ráð fyrir því að veiðistöðvun þessara smábáta yrði um 120 dagar. Hér er hins vegar gerð sú breyting að veiðistöðvunin verður ekki nema rétt um 50 dagar. Það er vissulega mikil leiðrétting sem þessir smábátar hafa hér fengið og ég segi það enn og aftur að forsvarsmenn samtaka þeirra, sem voru stofnuð fyrir örfáum dögum, eru sæmilega sáttir við þessa leið. Á yfirstandandi ári voru stöðvunardagar 114 og á árinu 1984 voru þeir 61. En með þeim breytingum, sem við leggjum hér til, er horfið frá 120 dögum, eins og segir í frv., og farið ofan í 50 daga.

Þriðja brtt., sem við flytjum, er við 12. gr. Þar segir:

„Aftan við greinina bætist ný málsgr. er orðist svo: Óheimilt er að færa aflamark af skipi sem ekki hefur verið haldið til veiða næstliðið almanaksár.“

Hér erum við að hnýta það enn fastar, ef svo mætti segja, við erum að reyna að ganga tryggilega frá því, að skipi, sem ekki hefur verið haldið til veiða, sé óheimilt að selja afla.

„4. Við 20. gr. Greinin orðist svo:

Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1986 og gilda til 31. des. 1987. Þó skal 2. málsgr. 13. gr. ekki taka gildi fyrr en 1. febr. 1986 og skal gilda til þess tíma ákvæði 12. gr. þessara laga um framsal aflamarks skipa, sem eigendaskipti verða á, eftir því sem við getur átt. Jafnframt eru á gildistíma laga þessara felld úr gildi 10. og 14. gr. laga nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.“

Við þekkjum og höfum heyrt í fréttum að Fiskveiðasjóður hefur verið að kaupa nokkur skip nú undanfarið og er að undirbúa að bjóða þau aftur til sölu. Það er ljóst að það tekst ekki og verður ekki gert fyrir áramót, ekki með öll þessi skip. Þó mun það trúlega verða gert með a.m.k. tvö þessara skipa. Við teljum hins vegar eðlilegt að þessi skip öll sitji við sama borð hvað aflamark snertir að þessari sölu afstaðinni og þess vegna framlengjum við þennan frest til 1. febr.

„5. Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðist svo:

Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. gr. laga þessara er heimilt að veita skipum, sem smíði var hafin á hér á landi fyrir árslok 1983, veiðileyfi sem miðast einkum við veiðar á vannýttum stofnum.“

Hér er verið að opna fyrir þann möguleika að þau skip, sem legið hafa við bryggju og almennt hafa gengið undir nafninu „raðsmíðaverkefnin“, geti komist til veiða. Það er opnað með þessum möguleika eins og hér segir: „Heimilt er að veita skipum, sem smíðuð hafa verið hér á landi fyrir árslok 1983, veiðileyfi sem miðast einkum við veiðar á vannýttum stofnum.“ Hér er um fjögur skip að ræða en m.a. vegna þess að þessi skip hafa ekki haft möguleika til að fá kvóta hefur ekki tekist að selja þau. En ég hugsa að það þurfi að huga að ýmsu öðru í þeim efnum áður en þau verði leyst frá bryggju.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira. Ég vonast til að hér geti orðið málefnalegar umræður um þetta mál. Þetta var ítarlega rætt hér um daginn og ég vænti þess að menn reyni að sjá til þess að við getum þokað þessu máli það áleiðis að við getum afgreitt það sem fyrst til Ed.