12.12.1985
Neðri deild: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

145. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 254 um frv. til laga um stjórn fiskveiða. Það er undirritað af mér einum.

Í fyrsta lagi segir svo í nál., með leyfi forsefa: „Alþingi hefur ekki enn þá fjallað á fullnægjandi hátt um grundvallarspurningar sem vakna þegar sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar er ávísað til einstakra útgerðarmanna.“

Þá vil ég vísa til þess að alveg síðan þetta mál var fyrst til umræðu haustið 1983 hafa menn velt fyrir sér ýmsum hlutum, t.d. stjórnarskrárákvæðum í sambandi við þessi mál. Menn hafa velt því fyrir sér hvort það sé réttlætanlegt að byrja á þessari úthlutun eins og þá var gert og horfa síðan upp á það aðgerðarlaust eða aðgerðarlítið að þessar úthlutanir gangi kaupum og sölum og verði mönnum að peningum eða verðmætum án þess að þeir veiði þann fisk sem um ræðir. Ég tel að ekki sé við það unandi að menn leiti ekki svara við þessum spurningum. Það er ekki nóg að segja að eitthvað þurfi að gera og vandinn blasi við. Menn mega ekki víkja þessu máli frá sér.

Í öðru lagi segi ég svo í þessu nál., með leyfi forseta: „Með þessu frv. og fyrirrennurum þess eru stigin afdrifarík spor til smásmugulegra afskipta stjórnvalda af höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar. Þegar hliðsjón er höfð af verðákvörðunum, launasamningum, olíuverði og allri fjármögnun sjávarútvegs er augljóst að greinin er algerlega orðin á hendi ríkisvaldsins. Embætti sjútvrh. er jafngildi forstjórastöðu í ríkisfyrirtæki með einkaleyfi til útgerðar og fiskvinnslu á Íslandi.“

Ég tel að það blasi raunar við mönnum eins og málin eru orðin núna að allar þær stærðir, sem einhverju máli skipta í sambandi við sjávarútveg, eru orðnar beint á könnu sjútvrn. og það sem meira er, mönnum innan greinarinnar virðist flestum farið að líka þetta býsna vel. Menn þekkja það við aðrar kringumstæður að á endanum kunna menn því gjarnan bærilega þegar þeir eru sviptir ábyrgð, aðrir taka ábyrgð á gjörðum þeirra og þeir eru leystir undan samkeppni og undan því að bera ábyrgð á sjálfum sér og gjörðum sínum. Það er að mínu mati það sem er að gerast í sjávarútvegi og er óviðunandi og má alls ekki verða til frambúðar, eins og mönnum sýnist þó með umræðunni um þessi mál, vegna þess að það fer ekkert á milli mála að menn eru að tala um fyrirkomulag sem greinin á ekki eftir að losna úr á næstu áratugum.

Í þriðja lagi segi ég í þessu nál.:

„Fylgismenn frv. hafa notað þau rök því til stuðnings að þetta fyrirkomulag samstilli veiðar og vinnslu, lækki útgerðar- og vinnslukostnað og auki gæði afurða. Engin gagnger athugun hefur þó farið fram á þessum þáttum. Fullyrðingarnar eru lítt studdar staðreyndum og vitnisburður hagsmunaaðila er mjög mismunandi. Það er óviðunandi að þessar viðamiklu stjórnunaraðgerðir séu ekki studdar með marktækum rannsóknum.“

Hér kem ég að því sem mjög hefur gert vart við sig í þessu máli, þ.e. að menn vísi til þess að fyrir tilverknað kvótakerfisins hafi orðið margs konar endurbætur innan sjávarútvegs. Það kemur að vísu ekki fram í afkomu hans í heild en menn telja þó að í ýmsum atriðum hafi þetta kvótafyrirkomulag orðið mjög til góðs. Þá vísa menn gjarnan til þess að það hafi orðið aukin og bætt samstilling veiða og vinnslu, útgerðar- og vinnslukostnaður hafi lækkað, gæði aflans hafi aukist og að arður í greininni hafi vaxið, m.a. vegna þess að menn hafa leitað nýrra tegunda til veiða. Það er að mínu mati það eina sem er sæmilega rétt af þessu. Ef farið er grannt ofan í saumana á hinu er stuðningur við hin atriðin meira og minna byggður á líkum og kringumstæðum sem menn kannske hafa á tilfinningunni en geta ekki almennilega skýrt eða sannað.

Því til stuðnings vil ég benda á að þegar um þetta hefur verið spurt á fundum hv. nefndar með hagsmunaaðilum er mjög mismunandi hvaða svör nefndin fær. Sumir halda því statt og stöðugt fram að öll þessi hagræðing eigi sér í raun og veru stað, samstillingin og gæðaaukningin sem ég nefndi áðan. Aðrir halda því hins vegar fram að þetta verði ekki. Þeir sem halda því fram að þessar umbætur verði játa í sama orðinu að það sé mjög erfitt að segja hvað er vegna kvótans, hvað er vegna annarra breyttra aðstæðna, hvað er vegna þess að markaður hefur haft þarna áhrif. Þannig eru fjöldamörg atriði sem ráða þessu.

Nú geri ég mér alveg grein fyrir því að það er mjög erfitt að kanna þetta mál þannig að það sé óyggjandi. Hins vegar liggur á ráðuneytinu sú kvöð að gera það. Menn leggja nefnilega ekki að mínu mati út í svo stórvirkar stjórnunaraðgerðir sem þessar án þess að þær séu studdar vitneskju sem ekki er eingöngu byggð á líkum.

Þegar eftir því var gengið í hv. nefnd fengust gögn sem voru tekin saman um þessi mál. Þar er að telja punkta um sóknarsparnað sem eru merktir SPS, dagsettir 6. desember og punktar vegna veiðarfæra, merktir SPS 6. desember. Í gögnum um sóknarsparnað, sem eru úr útvegi 1984, kemur fram að menn telji að viss samdráttur hafi orðið í sókn og sparnaður um leið en segja hins vegar að ekki sé hægt að rekja þessa sóknarminnkun alla til áhrifa kvótakerfisins. Eins og ég sagði áðan er málið óljóst og ég segi aftur: Ég geri mér grein fyrir því að það er erfitt að komast að niðurstöðu um þetta en engu að síður hvílir á ráðuneytinu sú skylda.

Sama má segja um punkta vegna veiðarfæra. Þetta eru líkur sem eru ekki nægilega traustar að mínu mati til að byggja þessar stórvirku aðgerðir á.

Síðan var dreift plaggi sem er dagsett 16. okt. og er frá Jóni Sigurðssyni forstjóra Þjóðhagsstofnunar til sjútvrh. og fjallar um áhrif kvótakerfisins á útgerð og fiskvinnslu. Ég ætla aðeins að lesa upp úr þessu plaggi, með leyfi forseta:

„Um áhrif kvótakerfisins á útgerð og fiskvinnslu.

1. Aukin hagkvæmni í útgerð. Telja má víst að kvótakerfið hafi leitt til sparnaðar í útgerðarrekstri, t.d. minni olíukostnaðar og minni veiðarfærakostnaðar en ella, vegna þess að menn reyna að taka leyfilegt magn þegar hentugast er. Því miður liggja enn ekki fyrir reikningar fyrir útgerðina í heild á árunum 1984 og 1985 en í áætlunum Þjóðhagsstofnunar er reiknað með því að í kjölfar nýju fiskveiðistjórnarinnar hafi fylgt 9-10% sparnaður í sóknartengdum útgerðarkostnaði. Fyrir botnfiskveiðiflotann í heild er hér um nálægt 400 millj. kr. á ári að ræða miðað við núgildandi verðlag. Á sama hátt má telja víst að kvótakerfi í loðnu og síldveiðum hafi gert þær veiðar hagkvæmari en fyrr. Samtök útvegsmanna gera ekki athugasemdir við þessar áætlanir og vísbendingar úr útgerðarreikningum, sem fyrir liggja, virðast ekki stangast á við þær.“

Það er augljóst af orðalagi í þessum upplestri að þarna byggja menn á tilfinningu frekar en staðreyndum. Sama gerist í lið 2 sem heitir, með leyfi forseta, „Bætt meðferð aflans.“:

„Kvótakerfið ætti einnig að stuðla að bættri meðferð aflans þar sem menn geta ekki lengur bætt sér upp lakari gæði með því að moka upp fiski. Gæðaflokkurinn 1984 af þorskaflanum sýndi að 85,5% fór í 1. gæðaflokk samanborið við rúmlega 80% árið áður. Gæðaflokkun 1985 virðist vera svipuð og 1984.“ - Þarna höfum við aftur þessa fyrirvara sem eru slegnir með óljósu orðalagi. Þessi grein endar þannig, með leyfi forseta:

„Auðvitað er ekki hægt að fullyrða að þessi breyting stafi eingöngu af breyttri fiskveiðistjórn en hún gæti átt hér hlut að máli.“

Síðan er fjallað í þriðja lagi um aukna verðmætasköpun og þar höfum við upplýsingar. Þar vitum við að menn hafa t.d. sótt meira í rækju en þeir gerðu áður og menn þakka það tilvist kvótakerfisins. Það má væntanlega rökstyðja þá niðurstöðu. En eins og forstjóri Þjóðhagsstofnunar kemst að orði í niðurlagi þessa kafla, með leyfi forseta, þá segir hann:

„Líkt og varðandi bætta meðferð aflans er ekki hægt að fullyrða að þetta stafi eingöngu af breyttri stjórn fiskveiða en hún hefur án efa ýtt rækilega við mönnum að þessu leyti.“

Þar er ég sammála honum. En, eins og ég segi, mér finnst það ekki henta virðingu ráðuneytisins að hafa ekki ábyggilegri gögn úr að vinna og um að fjalla þegar um svona viðurhlutamikið mál er rætt.

Svo að ég víki aftur að nál. þá segir þar í 4. lið: „Þetta stjórnkerfi er allt of flókið og smásmugulegt þegar tillit er tekið til þess að afli og sókn geta tekið gífurlegum breytingum vegna utanaðkomandi aðstæðna. Þegar sveiflur í þessum þáttum geta numið tugum prósenta er út í hött að stjórna með aðferðum sem elta menn næstum upp á annan aukastaf.“

Það er augljóst þegar skoðað er hvað gerst hefur hér á undanförnum árum og menn telja sig vita og skilja, sem hafa komið að þessum hlutum, að það eru gífurlega miklar breytingar í þessari grein af náttúrlegum aðstæðum sem menn ráða ekki við. Þar ráða veður og vindar, hitastig sjávar og ýmsir fleiri þættir sem valda sveiflum í þessu kerfi sem nemur tugum prósenta. Þess vegna eru þarna á ferðinni breytistærðir sem geta gífurlega mikið sveiflast og hafa áhrif á afla, sókn o.fl. Hins vegar virðist stjórnkerfið leita miklu meiri nákvæmni en eðlilegt má teljast við þessar breytilegu aðstæður. Þess vegna er þetta stjórnkerfi, eins og ég segi í nál., „allt of flókið og smásmugulegt“, það leitar miklu meiri nákvæmni en þessar síbreytilegu aðstæður í fiskveiðum leyfa.

Í fimmta lagi segi ég í nál.:

„Það er nauðsynlegt að verja íslenska fiskstofna gegn ofveiði. Slíkt á að gera með því að hemja afkastamesta hluta flotans þegar mest hætta er á ofveiði. Slíkt stjórnkerfi verður að finna. Hugmyndir Farmanna- og fiskimannasambands Íslands í því efni ætti að athuga nánar.“

Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að menn þurfa að verja fiskstofna ofveiði. Um það deila menn alls ekki. Ég tel að skynsamlegar aðferðir í þeim efnum eigi að beinast að tvennu. Í fyrsta lagi: Hvenær er mest hætta á ofveiði? Það er í vertíðartoppi á vetri og síðan er það um sumar - þetta er reyndar í toppnum sem kemur um sumarið. Menn hafa margsinnis komið að þessu í 1. umr.

Síðan á maður líka að spyrja sig: Hverjir eru afkastamestu áhrifavaldarnir í þessu sem við ráðum yfir? Það eru auðvitað togararnir eða sá hluti flotans sem veiðir mest. Skv. þessu eiga menn t.d. ekki að vera að eltast við karla á litlum trillum vegna þess að að mínu mati er eltingarleikurinn við þá svipaður og að setja aukaskatt á orf og ljá til að koma í veg fyrir offramleiðslu í landbúnaði eins og ég sagði hér í 1. umr.

Ég hef ekki upp á slíkt stjórnkerfi að bjóða vegna þess að eins og allir vita kostar mikla vinnu, mikla yfirlegu, margra manna vinnu, eins og þetta stjórnkerfi hefur kostað, að búa til slíkt stjórnkerfi. En ég bendi á að hægt er að finna það. Það verður einungis, eins og önnur mannanna verk, að vinna að því. Ég vil benda á að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands hefur lagt fram hugmyndir í því efni sem eru mjög athyglisverðar.

Að síðustu í 6. tölul. þessa nál. segi ég, með leyfi forseta:

„Íslenskur sjávarútvegur mun aldrei standa undir viðunandi lífskjörum ef hann er flattur út í meðaltöl.“ Ég held að þetta sé mjög mikilvægt. Að mínu mati stöndum við núna í íslenskum sjávarútvegi frammi fyrir því að menn í greininni eru að sætta sig við að lenda í þessu kerfi. Það er allt annað hljóð í þeim en var þegar þessu kerfi var fyrst hreyft. Þá spurðu þeir eðlilega ákveðinna grundvallarspurninga og efuðust eins og menn eiga að gera. Núna eru þeir hins vegar komnir inn í þetta. Þeir horfa á þetta innan frá. Þeir finna þetta vissa öryggi sem kerfið veitir. Það tekur enginn af þeim þennan fisk. Þeir geta gengið að honum næstum því úti í sjó vegna þess að þeir eru búnir að fá honum úthlutað uppi á Lindargötu. Þeir ganga næstum með hann í vasanum. Þetta er að mínu mati ekki sú hvatning sem hlýtur að verða að vera í svo mikilvægri atvinnugrein eins og sjávarútvegur er á Íslandi.

Ef ég tala um þetta stjórnkerfi eins og það liggur fyrir í heild get ég sagt það ráðuneytismönnum til hróss að ef við gefum okkur að þessa leið eigi að fara, að það eigi að hafa ákveðinn kvóta á hverri einustu fleytu, ef við gefum okkur að það sé hin rétta leið og þessu eigi að fylgja mjög nákvæmlega tel ég að þetta stjórnkerfi sé mjög vel útfært. Það má kannske orða það þannig að innan fangelsisins ríki fullkomið skipulag og innan fangelsisins ríki réttlæti. Þegar menn eru búnir að vera nógu lengi inni í því sætta þeir sig við það. En svo eru aðrir sem ekki eru inni í því og vilja helst ekki lenda í því. Þá spyrja menn annarra spurninga. Menn spyrja stærri spurninga um hvort slíkar reglur eigi yfirleitt að setja. Það er því miður svo að það eru sífellt færri sem spyrja þessara spurninga núna. Við höfum búið við þetta kerfi í tvö ár og menn eru hættir að spyrja stóru spurninganna um þetta og eru farnir að velta fyrir sér fyrirkomulaginu innan fangelsisins alveg eins og fangarnir þegar þeir fara að einbeita huganum að því hvað sé í matinn og hvernig vaktaskipti séu og þess háttar en spyrja ekki: Hvers vegna í ósköpunum var okkur stungið hingað inn?