12.12.1985
Neðri deild: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

145. mál, stjórn fiskveiða

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég tek undir þau orð hv. 3. þm. Reykn. Kjartans Jóhannssonar að það er því miður ekki svigrúm eða tími til að fjalla sem skyldi um það mál sem hér er á ferðinni vegna tímaskorts þannig að ég mun ekki flytja langt mál. Hins vegar vil ég gera nokkuð grein fyrir minni afstöðu til þess.

Hv. þm. Ólafur Þórðarson, framsóknarmaður og stuðningsmaður stjórnarinnar, leyfði sér þann munað að óska einkaframtakinu í Sjálfstfl. til hamingju með þann sósíalisma sem í þessu frv. felst. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að það eru mjög skiptar skoðanir um frv. og um þá aðferð sem frv. felur í sér í sambandi við fiskveiðar Íslendinga. Ég er einn þeirra sjálfstæðismanna sem eru þeirrar skoðunar að stjórn fiskveiða á Íslandi sé best ef hún er í höndum útgerðarmanna og sjómanna og þeir njóti ráðgjafar fiskifræðinga, en við viljum ekki að þessu sé miðstýrt með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir af innisetumönnum eða stjórnmálamönnum. Þessu vildi ég koma á framfæri til að taka af öll tvímæli um að hamingjuóskir sem þessar eru óþarfar gagnvart Sjálfstfl. Þetta er ekki stefnumál Sjálfstfl.

Þegar kvótinn var settur á sínum tíma, fyrir tveimur árum, lýsti ég því yfir í mörgum ræðum að ég væri ósammála þeirri heildarstefnu sem fólst í kvótafyrirkomulaginu, þ.e. þeirri miðstýringu, og ég greiddi atkvæði samkvæmt því. Ég greiddi sem sagt atkvæði á móti kvótafyrirkomulaginu. Ég ætla ekki að fara nánar út í þær rökfærslur sem ég beitti á þeim tíma. Ég vísa til þess sem stendur í þingtíðindum. En ég vil taka það fram að ég hef ekki breytt um afstöðu og mun greiða atkvæði á móti kvótafyrirkomulagi hér á þingi eftir sem áður.

Ég vil einnig leyfa mér í þessu sambandi að vekja athygli á tveim atriðum. Hið fyrra er að ég lýsti því yfir í desember 1983 að ég óttaðist að þessi fiskveiðistefna og kvótastefna mundi hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútveg í heild. Þegar ég tala um sjávarútveg á ég bæði við útgerð og fiskvinnslu. Ég sagði þá að því miður óttaðist ég að þetta kvótafyrirkomulag mundi hafa það í för með sér að staða sjávarútvegs og fiskiðnaðar mundi versna mjög. Einnig óskaði ég eftir á því augnabliki þegar þetta var til umræðu að lagðar yrðu fram áætlanir um hvernig ætti að tryggja afkomu útgerðar og fiskvinnslu og greindi frá við þá atkvæðagreiðslu að þetta væri annað meginatriðið í afstöðu minni gegn þessu fyrirkomulagi. Þær áætlanir voru ekki lagðar fram heldur vísað til þess að það mundi koma í ljós við framkvæmd kvótans hver yrði niðurstaða þessa máls fyrir útgerð og fiskvinnslu í landinu.

Í allri þeirri umræðu sem fram hefur farið á þingi undanfarna daga hefur það farið fram hjá hv. þm. og einnig fjölmiðlum að það var haldinn fundur fyrir tveim dögum með fulltrúum sjávarútvegs eða fiskvinnslu, sem er annar meginþáttur sjávarútvegs, og ráðherrum núv. ríkisstj., a.m.k. var einn ráðherra mættur. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upphaf þeirrar tillögu sem fulltrúar sjávarútvegs lögðu fyrir hæstv. ráðh. á umræddum fundi þannig að það komist inn í þingtíðindi þó að ekki hafi verið um það fjallað fyrr.

Á þessum fundi lögðu fulltrúar sjávarútvegs, fiskvinnslu, nota bene, eins og ég hef nefnt hér áður, fram svohljóðandi tillögur á plaggi sem er dags. 10. des. 1985 og segir svo í upphafi, með leyfi forseta:

„Fiskvinnslan stendur frammi fyrir svo brýnum vanda að nú þegar verður að hefjast handa um að bæta rekstrarskilyrði hennar. Samtök fiskvinnslunnar ætla að nú sé 8-9% tap á frystingu og tap hefur verið á söltun á þessu ári. Vegna þessarar alvarlegu stöðu telur fiskvinnslan að grípa verði til eftirfarandi aðgerða“, og kemur þá að því meginatriði:

„1. Viðskiptahallinn, hin geigvænlega skuldasöfnun þjóðarinnar og tapreksturinn í sjávarútvegi sýna að gengi krónunnar er rangt skráð og í raun þegar fallið. Við nauðsynlega leiðréttingu á gengi krónunnar verður að grípa til allra mögulegra ráðstafana til þess að slíkt leiði til varanlegra breytinga á hlutföllum milli tekna og kostnaðar í sjávarútvegi. Hér skiptir fyrst og fremst máli að stöðva innstreymi af erlendu lánsfé og beita ströngu aðhaldi í peninga- og lánsfjármálum.“

Hvað skyldi felast í þessari yfirlýsingu? Hér hafa hv. þm. eytt fleiri dögum í að ræða um gjaldþrot eins fyrirtækis. Það gjaldþrot mun hljóða upp á nokkur hundruð millj. Ekki er alveg ljóst enn þann dag í dag hvað það er mikið. En hvað skyldi felast í yfirlýsingu fiskvinnslumanna?

Að mínu mati í fyrsta lagi þetta: Eftir tveggja ára kvóta er fiskvinnslan að klára eigið fé. Það er sem sagt komið á daginn, sem ég spáði, að með þessu fyrirkomulagi og þeirri stefnu sem mörkuð var á þeim tíma mundi eiga sér stað mikil eignatilfærsla, þ.e. frá einkaaðilum til opinberra sjóða. Nú er svo komið að eigið fé í þessum fyrirtækjum er að komast niður í núllið.

Í öðru lagi: Þessi yfirlýsing jafngildir að 1-2 milljarða kr. þarf aðeins til að halda þessari atvinnugrein gangandi. Ég tel að ég hefði brugðist skyldu minni sem þm. ef ég hefði ekki vakið athygli á þessu atriði á þinginu í dag vegna þess að það er til skammar hvað hv. þm. hafa eytt miklum tíma í það ógæfumál sem hér hefur verið til umræðu undanfarna daga og leyft sér þann munað að fjalla ekki um það sem alvarlegra er og meira virði. Ég vona að menn snúi sér nú að stóru málunum.

Ég vil síðan sem þm. fyrir Reykjavík leyfa mér að vekja athygli á einu atriði sem getur haft gífurlega mikil áhrif á afkomumöguleika útgerðar umfram það sem þegar hefur verið sagt um slæma stöðu hennar. Það kæmi til viðbótar á erfiðleika útgerðar og fiskvinnslu hér á Suðvesturlandi. Þegar kvótinn var ákveðinn í desember 1983 varð mér mjög tíðrætt um karfann í kvótanum. Þótt maður sé á móti einhverju verður auðvitað að ræða þá stöðu sem upp kemur þegar meiri hlutinn hefur greinilega ákveðið annað. Og kvótinn hafði verið ákveðinn og hefur, eins og komið hefur fram, meirihlutafylgi á hv. Alþingi. Þess vegna ætla ég að leyfa mér að líta á þetta dæmi og vekja athygli á því að karfinn sem átti að vera sáluhjálparatriði fiskvinnslunnar á Suðvesturlandi, sérstaklega hér í Reykjavík og Hafnarfirði, var þegar fyrir tveimur árum á niðurleið. Ég leyfði mér að vekja athygli á því og vara við afleiðingum þessa fyrir fiskvinnslu og afkomu manna hér á Reykjavíkursvæðinu.

Það hefur komið í ljós að á þessu svæði frá Grindavík og upp á Akranes hafa fyrirtæki í fiskvinnslu hrunið niður. Þeim hefur fækkað, fólk hefur misst atvinnu sína og menn tapað eigum sínum. Enn þá heldur þetta áfram.

Í nál. meiri hl. er gert ráð fyrir að karfakvótinn geti verið á bilinu 100-110 þús. tonn. Ef sú áætlun stæðist má segja að fiskvinnslan í Reykjavík og hér á suðvestursvæðinu stæði jafnilla og áður miðað við þær forsendur sem gefnar voru 1983, væri sem sagt á niðurleið. En ef litið er á frv. eins og það liggur hér fyrir og skoðað álit fiskifræðinga á möguleikum í sambandi við karfaveiðar segir m.a. í greinargerð þar sem verið er að meta horfur á karfaafla, með leyfi forseta:

„Með tilliti til þess sem að ofan greinir leggur Hafrannsóknastofnun til að hámarksafli á Íslandsmiðum 1986 [þ.e. karfa] verði 85 þús, tonn af báðum karfategundum samanlagt.“

Þetta er mat fiskifræðinga. Nú er ég ekki að halda því fram að það þurfi endilega að vera rétt. En því miður, eftir samtöl mín við sjómenn á þessu svæði og skipstjóra, óttast ég að mat fiskifræðinga hvað þetta atriði áhrærir sé rétt og hugsanlega sé ástandið enn verra. Það þýðir fyrir fiskvinnsluna í Reykjavík og í Hafnarfirði, þ.e. hjá þeim fyrirtækjum sem eru háð karfanum, að grípa verður til annarra aðgerða sem fela þá auðvitað í sér að það verður að færa til frá öðrum tegundum til þessarar vinnslu ef hún á að standast. Mér finnst þess vegna teflt á tæpasta vað að það skuli vera byggt á 100-110 þús. tonna áætlun.

Ég lofaði því, herra forseti, að verða ekki langorður og alls ekki harðorður, en ég vildi láta þessa skoðun mína koma fram strax í upphafi þessa máls undir 2. umr. Ég vil einnig segja að lokum að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson þarf ekki að óska okkur sjálfstæðismönnum til hamingju með Karl Marx. Við höfum okkar Hannes Hólmstein Gissurarson. En þó að hann sé nú ekki endilega minn meistari erum við ekki að afneita frjálshyggjunni þótt allir séu ekki sammála um það mál sem hér um ræðir.