12.12.1985
Neðri deild: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1464 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

145. mál, stjórn fiskveiða

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala fyrir hv. 2. þm. Norðurl. e. og þaðan af síður fyrir Hannes Hólmstein, en ég vil láta örfá orð falla í sambandi við fiskveiðistjórnun.

Það er þá best að segja strax eins og er að ég er efasemdarmaður um ágæti þessa frv. Ég viðurkenni þó fúslega, eins og flestir gera í reynd, nauðsyn á því að hafa hemil á sókn í ákveðna fiskstofna og stýra því með skynsamlegum hætti, en ég hef ýmsar efasemdir um að frv. eins og það liggur nú fyrir sé endilega besta leiðin í þeim efnum. Lengi má reyna að bæta hlutina, herra forseti, og burtséð frá því hvort menn sjálfir hafa heitar sannfæringar og eru endilega fylgismenn eða ekki fylgismenn slíkra hluta tel ég ekki óeðlilegt að menn láti þær efasemdir, sem þeir hafa, fram koma og geri tillögur um þær úrbætur sem þeir sjálfir leggja til.

Ég vil einnig spyrja hæstv. sjútvrh. nokkurra spurninga í þessum efnum, enda finnst mér, herra forseti, harla einkennilegt ef þetta mál, sem á tveimur undanförnum þingum hefur sennilega tekið upp einna drýgstan tíma allra þingmála, verður mönnum varla að umræðuefni svo að heitið geti nú.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar varðandi stöðu sjávarútvegsins og að það er einkennilegt, ef hann berst í tal á hv. Alþingi, að menn sjái þá ekki ástæðu til að ræða málefni hans svo nokkru nemur. En ég vil víkja aðeins að því síðar.

Fyrst vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvað varðar ákvæði 4. gr. og þær heimildir sem þar eru í næstsíðustu málsgr. um heimild til að undanskilja kvóta ákveðinn fisk og einnig fisk sem veiðist í ákveðin veiðarfæri. Mér finnst miklu máli skipta, herra forseti, hvernig þessi ákvæði verða nýtt og ég vil spyrja: Liggur eitthvað fyrir um það? Hafa sjávarútvegsnefndir þingsins fengið að sjá hugmyndir hæstv. ráðh. í þessum efnum? Liggja fyrir drög að reglugerð um hvernig eigi að beita þessu ákvæði? Hér er um veigamikið atriði að ræða og það skiptir gífurlegu máli, sérstaklega í ákveðnum landshlutum, ef t.d. er verið að tala um línuveiðar, hvernig með þetta ákvæði verður farið. Þess vegna óska ég nokkurra skýringa á því.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðh. um útreikning á þorskaflahámarki, bæði báta og togara, þeirra sem á sóknarmarki eru. Sömuleiðis, og þá á ég við ákvæði 7. gr. um útreikning, um heimildir til umframveiði og breytingareglur. Hvernig kemur þetta samanlagt til með að hafa áhrif á þorskaflamark og hvaða möguleikar felast í þessum ákvæðum á verulegum tilflutningi þorskaflamarks milli útgerða, milli verstöðva og jafnvel milli landshluta? Það er einfaldlega þannig, herra forseti, að ef einn bætir sig þegar ákveðinn stokkur er til skipta gerir hann það væntanlega á einhvers annars kostnað. Það vex ekki fiskur í sjónum við nýjar reiknireglur í 7. og 8. gr. Það verður væntanlega úr svipuðu að moða. Spurningin er þá um skiptingu. Ef höfuðröksemd þessa frv. er nauðsyn þess að takmarka sókn í fiskstofna, og við göngum út frá þeirri forsendu, erum við að tala um skiptingu á tilteknu aflamarki. Þess vegna hljóta menn að spyrja, ef þeir selja sig undir slíka stjórnun: Eru inni í þessu frv., t.d. fyrir árið 1987, möguleikar á því að verulegt aflamagn, t.d. verulegt þorskaflamark, flytjist á milli staða, milli landshluta í gengum þessar tvær reglur? Hefur þetta verið reiknað út? Hefur verið kannað um hve mikið magn hér gæti verið að ræða og hvernig það gæti flust til út frá breytingareglunni og útreikningsreglum þorskaflahámarksins?

Ég vil einnig spyrja ráðherra hvort menn hafi verulega hugað að þeim möguleika að heimila að flytja þorskaflahámark sóknarskipa milli skipa innan sömu útgerðar. Það er óheimilt ef ég hef lesið þetta frv. rétt. En ég vil spyrja um helstu röksemdirnar gegn því. Ég skal endurtaka fyrir hæstv. sjútvrh. Hann var upptekinn að spjalla við nafna minn, hæstv. forsrh. Ég spyr hvort það hafi verið rætt og athugað hvort ekki væri mögulegt að heimila flutning á þorskaflahámarki þeirra skipa sem eru á sóknarmarki milli skipa innan sömu útgerðar. Hver eru helstu rökin gegn því? Einhver hljóta þau að vera úr því að það er ekki heimilað. Ég hef orðið var við að útgerðaraðilar, sem eru með fleiri en eitt skip, telja sér ekki fært að velja sóknarmark vegna þess að þessi heimild er ekki fyrir hendi.

Þá vil ég víkja að smábátaveiðum og 9. gr. frv. sem um þær fjallar eða takmarkanir á veiðum þeirra báta. Ég vil segja fyrst að ég fagna þeim breytingum til rýmkunar sem þar hafa orðið og má segja að framför sjútvrh. sé ekki lítil miðað við þær hugmyndir sem hann mun hafa verið með í kolli sínum eða hans menn í septembermánuði s.l. þegar þær fréttir spurðust út að halda ætti slíkum bátum frá veiðum í 150 daga á næsta ári eða næstu þremur árum jafnvel eins og frv. mun víst hafa litið út þá. Þetta eru samkvæmt mínum útreikningum og minni vasatölvu, sem vonandi hefur ekkert bilað við þá útreikninga, um 50 dagar sem þessir bátar skulu vera frá veiðum. Það er gífurleg framför og ástæða til að fagna sinnaskiptum ráðherrans í þessu efni. Þess vegna er e.t.v. ekki ástæða til að vera að fjölyrða frekar um þessa grein. Ég vil þó láta mína skoðun koma fram. Hún er sú að þó ég fagni þessari rýmkun óttast ég að hún komi nokkuð misjafnt niður vegna þess að hún er fyrst og fremst yfir vetrarmánuðina. Það eru fyrst og fremst þau ákvæði frv. um stopp í svartasta skammdeginu sem brtt. meiri hl. dregur úr, en stoppin eins og þau eru í 9. gr. að öðru leyti halda sér. Þá á ég við páskahelgi í mars og í apríl 1987, tíu daga í ágúst bæði ár og sjö daga í júní- og októbermánuðum hvort ár um sig. Ég óttast t.d. að þeim smábátasjómönnum sem sækja sjó fyrir norðan land og austan muni ekki nýtast sem skyldi sú rýmkun sem kemur fram í svartasta skammdeginu og þeim mun blóðugra verði það fyrir þá að þurfa að stoppa veiðar í tíu daga í ágúst og einnig í júní og október. Ég hefði talið heppilegra, alla vega frá þeirra sjónarhóli, að dreifa rýmkuninni þannig að einhver minnkun á stoppum yrði yfir sumartímann og þess í stað þá eitthvað tekið inn vetrarmánuðina. Þetta kann að jafnast sæmilega út með tilliti til landsins í heild og ég býst við að á ýmsum öðrum svæðum á landinu fagni menn alveg sérstaklega því að veiðar skuli ekki stoppaðar í jafnlangan tíma í desember, janúar og fram í febrúar, en ég óttast að þetta komi ekki alveg sanngjarnt niður og því er eðlilegt að spyrja: Var ekki möguleiki á því að hafa inni í þessari grein eða einhvers staðar annars staðar í frv. ákvæði umfram þau sem eru til að gera veiðileyfastjórnunina gagnvart þessum aðilum sveigjanlegri eða binda hana að einhverju leyti við landshluta hvað þetta snertir?

Maður hlýtur einnig að velta fyrir sér afkomu eða hag þeirra byggðarlaga sem byggja nánast 100% á svona veiðum. Ég vil nefna Grímsey sem dæmi. Bakkafjörð og fleiri slíka staði mætti taka. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að í slíkum tilfellum ætti að leyfa mönnum að veiða eins og þeir geta og náttúran og aðrar aðstæður muni takmarka það og reyndar meira en nóg. Menn þurfa ekki heldur að hafa miklar áhyggjur af því að smábátaveiðar á slíkum stöðum gangi svo nærri fiskstofnum að ástæða sé til sérstakra takmarkana.

Ég vil einnig benda á, þó að það komi þessu máli kannske ekki beint ekki við, og þó, því að menn eru að ræða um hagkvæmni í útgerð í öðru orðinu gjarnan þegar fiskveiðistjórnun ber á góma, að sennilega er tilkostnaður við veiðar hvergi í heiminum minni en t.d. frá Grímsey þar sem menn þurfa gjarnan ekki að sækja nema 15-20 mínútur á fengsæl mið. Olíukostnaður við slíka sókn getur farið ofan í 1-2% af aflaverðmæti og annar tilkostnaður sáralítill. Það er sennilega óvíða um að ræða hagkvæmari útgerð, útgerð sem skilur meira eftir af hreinum gjaldeyristekjum fyrir þjóðina, en þá sem ég þar nefndi.

Herra forseti. Ég hef þá lýst þessum athugasemdum mínum eða áhyggjum gagnvart 9. gr. og mun ekki hafa þau orð fleiri.

Ég vil aðeins segja um þetta almennt að það eru auðvitað ýmsar sögur á lofti um hvernig þetta gangi og ég held að það sé alveg ástæðulaust að vera feiminn við að nefna þær. Það er alveg eins með undanbrögð og vankanta á þessu kerfi og það er með svik undan söluskatti, tekjuskatti og annað slíkt. Menn standa auðvitað ekki í ræðustól á Alþingi og sanna þá hluti, q.e.d. Hins vegar er ýmislegt altalað, það er almannarómur eins og það heitir, og ég sé ekkert athugavert við að styðjast við hann hér því að sjaldan lýgur almannarómur. Þá kem ég að því sem allir vita sem eitthvað hafa fylgst með umræðum um þessi mál á undanförnum mánuðum og misserum. Það eru þær altöluðu staðreyndir að veruleg undanbrögð séu frá því að allt sé fram talið sem kemur á land og rétt skráð. Það má kalla það framhjálandanir eða eitthvað annað. Sömu sögur heyrast frá fiskmörkuðunum erlendis að þar séu tegundir ekki alltaf rétt vigtaðar upp úr skipunum. Það er reyndar fróðlegt, þegar hlustað er á fréttir af sölum fiskiskipa erlendis, að oft virðist vera hið megnasta ósamræmi milli þeirrar tegundarsamsetningar aflans sem gefinn er upp í fréttinni og þess verðs sem fyrir aflann fæst. Ég hef heyrt menn úr áhöfnum togara, sem iðulega hafa selt afla sinn á erlendum mörkuðum undanfarna mánuði, halda því blákalt fram að 16 kg af lúðu, sem seld voru upp úr ónefndu skipi í Grimsby fyrir stuttu, hafi reynst vera tæp 20 tonn á skýrslum, þrjú eða fjögur lúðulok hafi vigtað 20 tonn þegar þau komu upp úr skipinu og 120-150 tonna farmar af þorski séu iðulega vigtaðir 50-70 tonn og komi þannig heim á skýrslum. Ég sanna þetta auðvitað ekki í þessum ræðustól, herra forseti, en ég vil sóma míns vegna láta þetta koma fram því að ég held að menn eigi að horfast í augu við þessa hluti eins og þeir eru eða eins og menn telja að þeir séu. Ég sé því ekki ástæðu til að þegja yfir því sem sannorðir menn segja mér.

Svipaðar eða nokkurn veginn svipaðar sögur segja menn einnig af löndunum hér heima. Þar sé iðulega svo að þorskur reynist allt önnur fiskitegund þegar hann er kominn inn á skýrslur og ýsan sé gul. Ég held að menn eigi ekki að kinoka sér við, herra forseti, að ræða þessa hluti því að þegar við tökum til umfjöllunar þetta kerfi í heild sinni verðum við auðvitað að ræða bæði kosti þess og galla. Það getur vel verið að hæstv. sjútvrh. telji sig hafa þær upplýsingar að hann geti komið hér upp á eftir og fullyrt að þetta sé allt saman bull og vitleysa og lygi. Þá gerir hann það bara. En ég hef ekki ástæðu til annars en ætla að það sé einhver fótur fyrir því sem er næstum því almannarómur á flotanum íslenska. Ég held að sjómenn séu ekki lygnari en aðrir menn.

Það er einnig annað sem ég vil nefna hér, herra forseti, og það eru ísfisksölur, og mætti reyndar taka þróunina í átt til frystingar á miðunum einnig inn í það dæmi. Það er vegna þess að menn hafa vaxandi áhyggjur af því, sem í þessari grein starfa, að það stefni í óefni á okkar hefðbundnu mörkuðum bæði með frysta fiskinn, þann sem unninn er hér heima í húsunum, og eins með saltfiskmarkaðinn. Þeir eru galtómir og glorhungraðir og æpa á meiri fisk. Á sama tíma færast ísfisksölur svo hratt í vöxt að manni finnst það vera stjórnlaust og í raun og veru ganga allt of langt þegar verðið fellur vegna offramboðs á þessum mörkuðum. Ef menn eru að stjórna á annað borð og setja frumvörp um fiskveiðistjórnun hljóta menn að spyrja: Á ekki að stýra þessu einnig? Það kann að reynast þjóðinni dýrt ef hún tapar eða rýrir verulega stöðu sína á ýmsum okkar hefðbundnu og bestu mörkuðum vegna tímabundinna ástæðna í þessum efnum. Þegar við höfum úr litlum þorskafla að moða, eins og við höfum gert núna, er þeim mun meiri ástæða til að reyna að stýra þessu sem allra best.

Ég gerði árið 1983, herra forseti, þegar við ræddum um fiskveiðistjórnunina og frv. sem var þá til meðferðar, heilmargar athugasemdir við framkvæmd þess frv. Ýmsar þeirra hafa komið á daginn. Fyrir ýmsum öðrum hefur verið leiðrétt. Auðvitað hlaut að fara svo að menn sæju ýmsa galla þegar á reyndi og reyndu að leiðrétta þá. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það hefur ýmislegt verið fært til betri vegar bæði á síðasta ári og einnig á þessu. Það er engu að síður ástæðulaust að þegja yfir því sem menn enn þá sjá standa út af. Ég tel að það taki ekki af manni réttinn til að gera það þó að viðurkennt sé að ýmislegt hafi verið lagfært.

Ég hefði einnig gjarnan viljað segja nokkur orð um stöðu sjávarútvegsins almennt, m.a. vegna þess að hann hefur ekki mikið borið á góma á Alþingi, svo merkilegt sem það nú er, á yfirstandandi þingi, herra forseti, m.a. vegna þeirra upplýsinga sem eru að berast þessa dagana frá samtökum þeirrar atvinnugreinar um eiginfjárstöðu fyrirtækjanna í þessum greinum og er nú slíkt ekkert gamanmál, eins og við vitum, herra forseti, af umræðum undanfarinna daga, þegar eitthvað sem heitir eiginfjárstaða fyrirtækjanna er að hrynja. Ég tala nú ekki um ef hún verður neikvæð upp á nokkur hundruð milljónir. Þá komast ýmsir í vandræði.

Ég var flm.till. til þál. á síðasta þingi um að skipa þingkjörna nefnd á Alþingi til að kanna stöðuna í sjávarútveginum, athuga rekstrarvanda sjávarútvegsins og gera tillögur til úrbóta. Sú till. var hér til meðferðar og hún átti býsna miklum stuðningi að fagna á þinginu. Það kom m.a. fram endurtekið í umræðum um þá till. En hvað skeði? Jú, meiri hl. ríkisstj. ákvað þá afgreiðslu að vísa þessu til ríkisstj. Hún væri með þessi mál öll sömul í meðferð, væri að gera hitt og væri að gera þetta og það væri betri tíð með blóm í haga fram undan í sjávarútveginum því að ríkisstj. væri að líta á málin, væri að athuga þetta. Þess vegna ætla ég að spyrja hæstv. sjútvrh. í lokin, herra forseti: Hvernig hefur till. reitt af úr því að hæstv. sjútvrh. sá ekki ástæðu til að fá Alþingi Íslendinga í lið með sér til að líta á ástandið í sjávarútveginum, auðvitað fiskveiðistjórnun einnig, en kannske fyrst og fremst rekstrarskilyrðin, rekstrarstöðuna, stöðu fyrirtækjanna og byggðarlaganna sem standa á bak við sjávarútveginn? Úr því að ríkisstj. sá ekki ástæðu til að fara ofan í mál stærstu og þýðingarmestu atvinnugreinar landsins með hv. Alþingi, hvað hefur hún þá gert? Hvernig standa málin? Er þetta að lagast? Er þetta að lagast, hæstv. sjútvrh.?

Ég hefði svo að síðustu viljað segja við hv. þm. Guðmund H. Garðarsson, ef hann hefði verið nærstaddur, að það er ekki bara kvótinn sem sjávarútvegurinn á Íslandi hefur búið við s.l. tvö og hálft ár. Það hefur ýmislegt fleira verið í landinu en kvóti, herra forseti, s.l. tvö og hálft ár. Það hefur líka verið ríkisstjórn í landinu og sú ríkisstjórn hefur haft ákveðna stjórnarstefnu og sjávarútvegurinn hefur búið við hana alveg eins og kvótann. Ég held að það megi ekki síður rekja vandræði greinarinnar til stjórnarstefnunnar, þ.e. í efnahagsmálunum og gagnvart atvinnuvegunum, en til kvótans. Ég held t.d. að stefna hæstv. ríkisstj. í vaxtamálum hafi ekki verið par þægileg fyrir sjávarútveginn á Íslandi undanfarin tvö og hálft ár og þó sérstaklega s.l. eitt og hálft ár þegar keyrt hefur um þverbak. Ég mundi vænta þess að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson yrði mér nokkuð sammála um að vaxtabyrðin á íslenskum sjávarútvegi eigi sinn þátt í þeim vanda sem þar er nú við að glíma. E.t.v. sér hæstv. sjútvrh. ástæðu til að minnast á þessi mál ef hann kemur hér í ræðustól á eftir, sem ég vona að hann geri, þó ekki verði nema til að svara þeim beinu spurningum sem ég hef til hans beint, en sérstaklega inni ég hann þó eftir því hvað meðferð ríkisstj. á þeirri till. til þál., sem ég hér nefndi og var til hæstv. stjórnar vísað, líði.