12.12.1985
Neðri deild: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

145. mál, stjórn fiskveiða

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil koma að tveimur atriðum sem ég vil vekja sérstaka athygli á. Ég tek það fram að að sjálfsögðu mun ég styðja þetta frv. eins og það liggur hér fyrir. Það hefur tekið miklum breytingum frá upphaflegri gerð þannig að það er miklu meiri sveigjanleiki í því. Það tekur meira mið af þeim atriðum sem hafa verið gagnrýnd á undanförnum árum og ekki síst þær breytingar sem sjútvn. Nd. hefur gert á frv., en þær eru allar til bóta og hafa lagað þetta mál mikið.

Þau tvö atriði, sem ég vildi aðallega vekja athygli á, koma ekki beinlínis fram í frv. sjálfu. Það er annars vegar það fyrirkomulag, sem hefur viðgengist, að skipta landinu í veiðisvæði. Eins og allir vita hefur þetta miðast við að skip sem eiga heimahöfn á svæðinu frá Eystra-Horni suður um að Látrabjargi annars vegar hafa allt að 100% lægra aflamark í sambandi við sóknarmarkið en hitt svæðið, sem er svæði 2, frá Látrabjargi norður um að Eystra-Horni. Ég hef þá skoðun, og ég vil láta hana koma fram þó að ekki sé um brtt. að ræða þar sem þetta er ekki beint í frv. heldur kemur það fram í væntanlegri reglugerð, að ég tel að þarna þurfi að staldra við og skoða mál vel og hafa vissan sveigjanleika þegar reglugerð verður endanlega ákveðin. Það er engin ástæða til að ætla að t.d. togari sem er gerður út frá Patreksfirði og á þar heimahöfn megi veiða helmingi meira af þorski en togari sem gerður er út frá höfnum á Snæfellsnesi, Ólafsvík, Grundarfirði eða Akranesi. Þetta er atriði sem hefur valdið óánægju og deilum.

Ég sé ekki rökin fyrir þessari skiptingu. Ég tel að þarna þurfi að skoða mál vel áður en reglugerð verður ákveðin og ég beini því bæði til hæstv. sjútvrh. og einnig til sjútvn. þingsins að skoða þetta atriði sérstaklega og skapa meiri sveigjanleika en til þessa hefur verið.

Hitt atriðið sem ég vil leggja mikla áherslu á er það sem kemur fram í 4. gr. frv. að heimilar verði veiðar umfram kvóta í sambandi við viss veiðarfæri. Þarna hef ég í huga línuveiðar sem eru mikilvægur atvinnuþáttur á vissum landsvæðum sem bókstaflega hafa byggt sig upp til þess að geta stundað þessar veiðar með eðlilegum og hagkvæmum hætti. Ég tel að þarna þurfi að vera alveg skýrar línur, að t.d. línuveiðar verði heimilaðar utan kvóta á tímabilinu frá 1. nóvember til 1. mars. Á þetta vil ég leggja áherslu og vænti þess að það komi fram í væntanlegri reglugerð þegar hún sér dagsins ljós.

Ég vil svo að lokum segja að mín skoðun er sú að fyrst við þurfum að hafa stjórnun á annað borð á þessum veiðum, sem flestir virðast vera sammála um, þurfi að leggja höfuðáherslu á að miða alla stjórnun við sem besta nýtingu á því hráefni sem við fáum úr sjónum - það er aðalatriðið - og skapa þannig meiri tekjur bæði fyrir sjómenn og þjóðarbúið í heild.