12.12.1985
Neðri deild: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1472 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

145. mál, stjórn fiskveiða

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það var í rauninni alls ekki meiningin af minni hálfu að halda ræðu. Þær hafa verið svo góðar. Vitnað hefur verið í öndvegisbókmenntir, tékkneskar m.a., þó að hv. þm. hefði kannske samt getað sagt enn skemmtilegri sögur af þeim góða dáta og yfirmönnum hans.

Áður en ég fer að ræða þetta mál efnislega, sem þm. hafa greinilega ekki mikinn áhuga á - hv. alþm. hafa yfirleitt miklu meiri áhuga á allt öðru en sjávarútvegi. Kannske eru þeir líka búnir að gleyma því á hverju þessi þjóð lifir. Því miður læðist að manni sá grunur. Það er dálítið einkennilegt að flestir þeirra sem talað hafa við þessa umræðu eru stjórnarsinnar og formaður nefndarinnar, hv. þm. Stefán Guðmundsson, er bókstaflega farinn að halda uppi málþófi með skýrslugjöf og tilheyrandi. Það vakti athygli mína að hann rifjaði upp skyndilokunaraðferðina. Hún var góð og nauðsynleg en það sem hefur kannske enn frekar vakið athygli mína varðandi það er að í útvarpinu eru menn farnir að tala um að skyndiloka. Það er greinilega fólk sem ekki kann að beita íslenskri tungu sæmilega.

Ég tel ekki ástæðu til þess að hafa um þetta langt mál. Það er ljóst að allir eru sammála um að hafa þarf einhverja stjórn á fiskveiðum en greinir hins vegar á um aðferðir. Það hafa verið prófaðar tvær aðferðir við þetta hér á Íslandi. Ýmsar aðrar aðferðir eru mögulegar, en ég verð að segja það fyrir mína parta að þó þessi takmörkunaraðferð og veiðistjórn sem liggur fyrir sé greinilega gölluð á ýmsum sviðum treysti ég mér ekki til þess að benda á aðra skárri. Þeir sem harðast ganga fram gegn kvótakerfinu, vilja afleggja kvótakerfið og taka upp aðra leið, eru ekki komnir hingað upp í stólinn til þess að beita sér fyrir hinni aðferðinni til þess að fá minni afla. Það er auðvitað augljóst að þeir sem vilja hina aðferðina vilja fá meira af þorskinum til sín. En ef þeir fá meira af þorskinum til sín, fá aðrir ósköp einfaldlega minna, vegna þess að heildaraflamagnið er föst stærð. Og hverjir skyldu það vera sem eru að sækja í að fá meira? Eru það þeir sem hafa haft minnst eða minna? Nei, þeir sem vilja hina aðferðina og vilja fá meira af þorski eru þeir sem hafa mest fyrir, og á því leikur varla nokkur vafi að þeir sem hafa verið að berjast gegn kvótakerfinu eru að heimta frekari mismunun, gera þá ríku ríkari, hina fátæku fátækari. Við jafnaðarmenn í þessari stofnun beitum okkur ekki gegn jafnræði í þessum efnum. (Gripið fram í: Hvar er þá auður Íslands?) Hann er sjálfsagt í andabúi uppi í Borgarfirði. Ég get ekki svarað slíkum spurningum. (Gripið fram í: Er hann ekki hér syðra?)

Herra forseti. Það er greinilegt að Hólmfasti Guðmundssyni liggur mikið á hjarta um þessar mundir, en ég vil hins vegar þakka honum fyrir ræðuna vegna þess að röksemdir hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar hafa áreiðanlega styrkt menn í því að velja kvótakerfið.

Ég vil aðeins nefna það, herra forseti, að í vinnu sjútvn. var leitað eftir áliti mjög margra aðila. Það var byrjað á vísindamönnunum, fiskifræðingunum, síðan komu fulltrúar fiskvinnslunnar, SH, SÍF og Samband framsóknarfrystihúsa. Þessir aðilar, frá vinnslunni, töldu það skásta kostinn að halda áfram þessu kerfi, fundu hins vegar ýmislegt að því eins og allir geta séð. Og það er dálítið merkilegt að hér skuli standa upp hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sem mun vera blaðafulltrúi og „altmuligmand“ hjá SH - hann vinnur alla vega hjá þessu fyrirtæki - (GHG: Herra þingmaður, það er algjör misskilningur.) að hann skuli koma hér og ryðjast á móti samþykktum þessa félags. (GHG: Er ekki einkennilegt að mæla með kvóta og segja svo að allt sé með bullandi tapi.) Eftir að hafa rætt við fiskvinnslumenn var talað við útgerðina. (GHG: Hvað um töpin, hv. þm.?) Allir þeir sem þar komu til viðræðu við nefndina mæltu með þessari aðferð. (GHG: Að halda áfram að tapa.) Sjómenn, sjómannasambandið, fulltrúar þeirra komu til okkar á fund, og Farmanna- og fiskimannasambandið. Fulltrúar allra þeirra manna sem þetta skiptir mestu - það eru þessir menn sem bera mesta ábyrgð, næstum alla ábyrgð í þessum atvinnugreinum - voru allir sammála utan einn maður á þessum fundum. (GHG: Hvað um töpin, hv. þm.?) (Forseti: Ekki samtöl.) Herra forseti. Það þarf auðvitað ekki að vera samtal, en það er út af fyrir sig ágætt að Guðmundur H. Garðarsson talar um töpin. Þessi umræða um það að stjórna veiðum hefur verið ákaflega tímafrek og áberandi. Menn hafa þeyst í kringum allt landið, meira og minna réttsælis og rangsælis til skiptis, til þess að boða þennan fögnuð að nú væri lausnin fundin með einhverju svona kerfi. Það er auðvitað mikill misskilningur.

Aðferðin við að stjórna fiskveiðum er ekki nema lítið brot af öllu dæminu. Sannleikurinn er sá að undir þessari ríkisstj. og raunar fyrri ríkisstj. hefur þessi atvinnuvegur verið leikinn býsna grátt og kannske aldrei meira en nú. Togararnir fara á uppboð, og það eru ekki þeir togarar sem fiska minnst. Það eru kannske jafnvel þeir togarar sem fiska mest, borga sí og æ fimmta hvert kvikindi í fjármagnskostnað. Eftir sem áður hækka sífellt á þeim skuldirnar. Einn togari var seldur um daginn á uppboði. Á honum voru 300 milljónir í skuld. Þeir fiskuðu vel en þeir þurfa að borga mikið til síns rekstrar og olían er dýrari hér en nokkurs staðar annars staðar, fjármagnskostnaður yfirgengilegur og fiskmarkaðurinn í raun og veru hálfgerð blekking. Þess vegna gera menn það í vaxandi mæli að senda fisk beint, ýmist í gámum, með veiðiskipum eða í frystitogurum, til útlanda og komast þar á alvöru fiskmarkað. Þeir komast þar á alvöru fiskmarkað sem greiðir þrisvar sinnum meira fyrir aflann a.m.k. heldur en hér heima.

Hvernig er ástandið í vinnslunni? Nú hefur verið sagt að það sé a.m.k. 9% tap að meðaltali, meira sums staðar og minna annars staðar, og það er auðvitað þekkt staðreynd að milljarðar króna hafa farið út úr þessum atvinnuvegi annað í þjóðfélagið. Eignir fiskvinnslunnar eru orðnar uppurnar og stefnir í hrun.

Ég held, herra forseti og hv. þm., að við ættum ekki að eyða mjög löngum tíma í karp um þessa hluti, þar sem næstum allir hagsmunaaðilar í landinu velja þó þennan kost þótt slæmur sé, og fara að snúa okkur að því að leysa það sem mestu máli skiptir, rekstrarvanda þessarar atvinnugreinar. Það gerir kannske minnst til þó eitt og eitt fyrirtæki í einhverju braski og þjónustu hér í landinu fari á hausinn, en það skiptir öllu fyrir þjóðina, fyrir alla þjóðina, að þessi undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar geti lifað sæmilegu lífi. Deyi hann erum við öll saman komin á kaldan klaka, öll saman. Hvort sem menn vita á hverju þeir lifa eða ekki brestur sá möguleiki fyrir okkur að lifa hér við ysta haf.

Herra forseti. Sjútvn. hafði einnig fund með smábátaveiðimönnum og eftir atvikum eru þeir sáttir við sitt hlutskipti. Þó er það þannig með þá sem stunda þessar veiðar að aðstaða þeirra er einnig afar misjöfn. Og að mínum dómi hefði verið æskilegt að eitthvað hefði verið hægt að gera meira fyrir þá sem lifa eingöngu á þessum veiðum og hafa ekki möguleika vegna hafnarskilyrða til þess að stækka sína báta og geta sótt betur á sjóinn. Að öðru leyti held ég að trillubátaeigendur geti verið vel sáttir við sinn hlut.

Hér í umræðunni var talað um það að vegna kvótakerfisins hefðu Íslendingar og íslenskir sjómenn lært að svindla. Allt er nú orðið kvótanum að kenna. Það er orðið ærið langt síðan ég fór háseti fyrst á sjó. Það eru 36 ár síðan, og ég hef verið með í alls konar veiðum, siglt til útlanda með afla og verið á vertíðum og síld og loðnu og humri og öllu þessu eins og það leggur sig. Ég er auðvitað viss um að sjómenn svindla ekkert meira en annað fólk, en hins vegar hefur maður stundum heyrt að svindl hafi átt sér stað af ýmsu tagi og það hafi verið fyrir kvóta, eins og það heitir núna. Einnig nokkuð til í því. En svo heittrúaðir eru andstæðingar kvótafrv. að þeir kenna kvótanum um allt sem miður hefur farið, segja að það sé verri fiskur og allt þar fram eftir götunum, að ósamræmi milli veiða og vinnslu sé kvótanum að kenna. En ef talað er við fulltrúa hagsmunasamtaka þá stendur upp úr þeim öllum það sama, að kvótafyrirkomulagið gefi möguleika til þess að ná betri gæðum, sparnaði í rekstri, og gefi einnig möguleika á því að samræma betur veiðar og vinnslu til þess að koma í veg fyrir að meira berist að landi en fiskvinnslan ræður við. Menn verða hins vegar að átta sig á því að ef þeir eiga möguleika þá verður líka að nota hann. En gallarnir í þessum efnum eru ekki kvótakerfinu, stýringaraðferðinni að kenna. Það er algjör misskilningur.

Herra forseti. Ein brtt. við þetta frv. er um það að koma nú á sjóinn iðnaðarvandamáli. Hér um árið fékk ágætur maður þá hugmynd að skaffa mönnum í skipasmíðastöðvum atvinnu og lét fara að smíða skip, raðsmíða skip. Þessi skip eru nú orðin afar dýr, kosta a.m.k. 600 millj. kr. eða svo. En okkur í nefndinni fannst óhæft að gera ekki eitthvað í þessu, horfandi á vel búin fiskiskip standa aðgerðarlaus ár eftir ár og hlaða á sig skuldum, að nú væri kominn tími til þess að reyna að fá eitthvað inn í staðinn fyrir þessa fjárfestingu. Þetta mætir víða mikilli andstöðu vegna þess að ef þessi skip fá umtalsverðan afla þá er það tekið af hinum. Út af fyrir sig er það ekki skynsamlegt ef maður horfir aðeins á það að þarna er verið að auka við sóknina í takmarkaða fiskistofna. Þó er í þessu tilfelli lagt til að þessi skip fái að ganga í úthafsrækjuna að mestu leyti.

Að lokum, herra forseti, legg ég áherslu á það að hið fyrra ákvæði til bráðabirgða verði virt af hæstv. sjútvrh. sem ekki hefur tíma til að hlusta á ræður hér, í augnablikinu a.m.k., því miður. (Forseti: Hæstv. sjútvrh. er bundinn við störf í Ed. eins og stendur.) Það er einmitt það. Það verður að hafa sinn gang enda græðir hann kannske ekkert mikið á því að hlusta á þetta. En ég vil segja það að í þessu ákvæði er talað um að hafa skuli samráð við sjútvn. við breytingar á þessu máli. Og ég legg áherslu á það að þetta verði ekki nafnið tómt, heldur verði þessu samráði sinnt. Ég tel að það geti ekki skaðað hæstv. ráðh. og hans ráðuneyti að leyfa þingnefndunum að fylgjast með hvað er að ske og hafa möguleika á að koma athugasemdum á framfæri. Því það eru þó alla vega þeir, sem eru kosnir í þessar sjútvn., sem taka það á sig að koma þessum hlutum áfram og í gegn og þeim mun fyrr sem menn vita hvað er í farvatninu þeim mun betra.