23.10.1985
Neðri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það mun ekki taka mig neinar 20 mínútur að ljúka máli mínu hér. Ég vil skýra frá því að þingflokkur Alþb. sat hjá þegar leitað var afbrigða við að taka þetta mál sem hér liggur fyrir á dagskrá. Afstaða þingflokksins er alveg hrein og bein. Við teljum að meginatriði þessa máls séu þau að hér er verið að vega að helgasta rétti verkalýðshreyfingarinnar, verkfallsréttinum.

Ef við lítum á hvernig hér er staðið að verki þá má minna á í örfáum orðum að í desember s.l. var samið við flugfreyjur um sömu hækkun og Alþýðusamband Íslands hafði fengið. Hinn 28. febr. s.l. er síðan samið við flugmenn um 43,7% og þá er flugfreyjum lofað svipuðum samningum. Þetta er mikilvægt atriði. Uppsagnarfrestur þeirra samninga var eins og uppsagnarfrestur ASÍ. Flugleiðir einfaldlega sviku þetta loforð.

15. júní í sumar er samið við ASÍ en ekki við flugfreyjur. Þá fá þær hins vegar 5% kauphækkun en við þær var aldrei samið. Þær leggja síðan fram kröfur sínar 2. júlí s.l. og þær kröfur voru að fá eins og aðrar stéttir þjóðfélagsins vaktavinnuálag sem þær hafa ekki. Þær biðja um 15% fyrir aukið vinnuálag, svo sem eins og aukna vinnu við það sem Flugleiðir hafa fundið upp til að dekra við hégómaskap mannskepnunnar, „Saga Class“ og annað slíkt, og síðan hækkun á borð við ASÍ, 33% álagshækkun frá kl. 17 til 24, 45% frá miðnætti til kl. 8, 45% laugardaga og sunnudaga og 90% á stórhátíðum eins og aðrar stéttir hafa.

Það er fyrst fyrir hálfum mánuði að ríkissáttasemjara er falið að fara að vinna að málinu. Frá því 2. júlí og þangað til nú í byrjun þessa mánaðar gerist hreinlega ekki neitt. Svo er hæstv. samgrh. að biðja þetta sama félag um frest. Ríkisstjórnin var búin að hafa þennan frest. Ríkissáttasemjari ber síðan ekki fram neina tillögu. Þegar svo er komið skellur á verkfall nú á miðnætti síðasta sólarhring. Sem sagt, það hafa liðið átta mánuðir frá því að flugfreyjum var lofað samsvarandi hækkun og flugmenn höfðu fengið, en nákvæmlega ekkert hefur gerst.

Hv. 2. landsk. þm. hélt hér langa ræðu og er enda þaulkunnug málefnum flugfreyja og ég sé ekki ástæðu til að fara að endurtaka neitt af því. En þegar talað er um laun flugfreyja og vinnutíma eru upplýsingar ákaflega misvísandi. Af því að mér fannst það ekki koma alveg fram vil ég geta þess að byrjunarlaun flugfreyja voru í maí 20 626 kr. og síðan hafa bæst við 5%. Flugstundir eru taldar 65 á mánuði. En flugfreyjur geta ekki hafnað, séu þær beðnar um að fljúga 85 stundir. Þótt þær fljúgi 85 stundir í stað 65 stunda fá þær ekki neitt vinnuálag á það. Þær fá fyrir þann umframtíma lægri tímalaun en dagvinnutaxti þeirra segir til um. Á þennan hátt er ekki nokkur stétt í þjóðfélaginu meðhöndluð og þetta vil ég leggja áherslu á.

Það hefur verið ráðist hér harkalega að flugfreyjufélaginu fyrir að stöðva flug til landsins. Hér hefur verið ákaflega mikið um rangar upplýsingar. Flugleiðir báðu félagið aldrei um neina undanþágu, ekki svo mikils var félagið virt. Það gerðu hins vegar Ferðamiðstöðin og ferðaskrifstofan Úrval og fengu þá undanþágu. Þetta er ekki leiðin til að semja við fólk og þetta er ekki leið nokkurs fyrirtækis til að ná sáttum um viðkvæm mál eins og kjaramál.

Sem dæmi um framkomu í öllu þessu máli er að hvorki ríkissáttasemjari né flugfreyjufélagið og stjórn þess vissi að hér stóð í dag til á hinu háa Alþingi að leggja fram lagafrv. um stöðvun verkfallsins. Ég endurtek þetta: Hvorki ríkissáttasemjari né samningsaðilar. Við hv. þm. fengum þetta frv. á borð okkar þegar við komum af þingflokksfundum áðan þar sem við sátum og ræddum væntanlegt frv. sem við höfðum heyrt á skotspónum um hvað væri. Síðan er ætlast til að við tökum þátt í að keyra þetta frv. hér í gegnum Alþingi nú í kvöld. Ég tel að þetta sé aldeilis af og frá og lýsi því yfir fyrir hönd Alþb. að við munum hafna þessu frv. og greiða atkvæði gegn því.

Að lokum, herra forseti, - og ég skal ekki lengja mál mitt: Ég held að flest meginatriði þessa máls liggi nú fyrir. En ég tel að að því leyti eigi flugfreyjur það sameiginlegt með öðrum margumræddum hefðbundnum kvennastéttum að aldrei er litið á hvernig kvenhlutverk þeirra samræmist atvinnu þeirra. Ég vil leggja áherslu á þá sérstöðu sem flugfreyjur hljóta að hafa við að leysa ýmis mál sem varða fjölskyldur þeirra. Ég vil nefna gæslu barna. Venjuleg dagheimili nýtast ekki flugfreyjum á nokkurn hátt og eftir því sem ég hef kynnst lítillega störfum flugfreyja er þeim eiginlega nauðugur einn kostur að hafa næstum stuðningsfjölskyldu til að taka börnin að sér þegar þær eru fjarverandi.

Ég vil nefna annað atriði sem er fjölskyldulíf þeirra sjálfra. Samvera þeirra á heimilum sínum við aðra fjölskyldumeðlimi er á allt annan veg en flestra annarra stétta.

Ég vil nefna atriði sem sjálfsagt ýmsum finnst jafnvel feimnismál, þ.e. sérkennilegt álag á líkama þeirra sem kvenna vegna stöðugra ferðalaga í ólíkum tíma. Þetta hygg ég að allar flugfreyjur kannist við og margir sem um það hafa lesið.

Það er ljóst að flugfreyjur verða í fjórða lagi að hætta störfum miklu fyrr ef til þungunar kemur. Ekki er svo ýkja langt síðan þær þurftu að standa í verkfalli til að hindra að þær væru beinlínis reknar ef þær leyfðu sér þann munað að eignast barn. Ljóst er að þær geta ekki sinnt sínum störfum nærri því eins lengi og aðrar konur yfirleitt geta þó að þær séu þungaðar. Allt þetta, auk áhættu við þessi störf sem er auðvitað ótvíræð og óumdeilanleg, held ég að verði að koma inn í alla umræðu um kjör þessara kvenna.

Nefna má önnur hégómlegri atriði sem starfið þó krefst, þ.e. óvenjulegar kröfur til útlits, klæðaburðar og annars slíks sem kostar fé.

Í stað þess að setjast niður og semja við þessar konur er þeim boðið upp á, þegar allt er komið í hnút og ekkert hefur verið gert, 12 þús. kr. svona eins og til að hafa þær góðar. Er ætlast til að stéttarfélag sætti sig við slíka lausn mála? Auðvitað ekki. Konur láta ekki fara svona með sig lengur.

Þá erum við kannske komin að því: Af hverju skyldi þetta starf, sem þm. hafa oft gefið í skyn að sé eftirsóknarvert, spennandi, bent á hve margar umsóknir berast hverju sinni sem auglýst er, vera eingöngu kvennastarf? Skýringin er alveg á borðinu. Þetta er ekki nógu vel launað miðað við amstur og erfiði og alls kyns fórnir sem þessi stétt manna og kvenna verður að leggja fram. Það er það sem við tökum afstöðu til, þingflokkur Alþb., að við höfnum þessari meðferð á heilli stétt manna. Við munum greiða atkvæði gegn þessu frv. og vítum alla meðferð málsins frá fyrstu byrjun.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt meira. Ég tel mig hafa sagt hér það sem meginmáli skiptir að þessu sinni. Við teljum að hér sé verið að vega að verkfallsrétti. Komi hér einhver upp á eftir og segi: Við höfum áður staðið að slíku-við stóðum að því að setja lög á flugmenn vorið 1984 - þá vil ég minna menn á að þar voru aðstæður allt aðrar. Búið var að reyna til þrautar að semja, enda kom í ljós að samið var, ef ég man rétt, sólarhring eftir að lögin tóku gildi. Aðstæður voru því þá allt aðrar.

Ég vil biðja hv. þm. lengstra orða að láta ekki bjóða sér að afgreiða þetta mál hér í kvöld. Það væri ósæmandi með öllu fyrir Alþingi Íslendinga - og það skulu verða mín lokaorð - að heiðra konur landsins á lokadegi kvennaáratugarins með því að kúga Flugfreyjufélag Íslands til að sæta þvingunum í fullkomlega eðlilegri og sanngjarnri kjarabaráttu. Ég vil mælast til að hv. þm. hugsi sig vandlega um áður en til slíks kemur.