12.12.1985
Neðri deild: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

145. mál, stjórn fiskveiða

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hefði talið eðlilegt nú sem áður að undanskilja veiðar smábáta kvóta og hef lýst andstöðu minni við það kerfi sem hefur verið í gildi. Ég tel að þær breytingar sem felast í 9. gr. séu til verulegra bóta frá fyrra kerfi en þar eru þó ýmsir agnúar á. Hér háttar mjög mismunandi til eftir landshlutum eins og menn þekkja. Ég hefði talið að einstakar verstöðvar ættu að velja sér stöðvunardaga en ekki ætti að lögfesta þær með þeim hætti sem gert er með ákvæðum þessarar greinar eins og henni hefur verið breytt. Ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. nýti hins vegar þann sveigjanleika sem í greininni er og greiði því ekki atkvæði við afgreiðslu á þessari grein.