23.10.1985
Neðri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að nota mikinn tíma í þessari umferð um þetta mál. Við þingkonur Kvennalistans notuðum tímann milli þingfunda til hins ýtrasta til að kynna okkur málsatvik þótt það hafi vitanlega verið allt of skammur tími. Ég legg áherslu á það, að það er allt of skammur tími til að kynna sér þessi mál. En óhætt er að segja að málin hafa skýrst. Þær upplýsingar, sem okkur tókst að afla okkur á þessum skamma tíma, gefa að okkar mati alls ekki tilefni til að ætla að reynt hafi verið til þrautar að semja eftir eðlilegum leiðum. Það er okkar niðurstaða.

Eins og hv. þm., sem hafa talað hér á undan mér, hafa bent á hafa fréttir af kjörum flugfreyja og fréttir af samningaviðræðum verið afar villandi eins og gjarnan vill reyndar verða þegar skilningurinn er á fleiri en einn veg. Aðalatriðið í þessu máli og þröskuldurinn er sá að vaktavinnuálagið hefur ekki fengist rætt.

Ég ætla ekki að ræða kröfugerð, tilboð eða málsatvik að öðru leyti þótt ýmislegt mætti um þau segja til viðbótar því sem þegar hefur komið hér fram, ekki síst með tilliti til þess að hér er um hefðbundna kvennastétt að ræða. Það er sannarlega synd að geta ekki vonast til þess að Flugleiðir noti þetta einstæða tækifæri til að leiðrétta kynbundið misrétti í sínu eigin fyrirtæki.

Búið er að boða fund í samgn. Nd. í kvöld að loknum þessum fundi. Gerðar hafa verið ráðstafanir til að fá ýmsa á þann fund til að kynna þetta mál betur og vænti ég þá að það muni skýrast. Ég vil geyma frekari umræður af okkar hálfu til 2. umr. En við Kvennalistakonur lýsum andstöðu við þetta frv. og teljum afar óheppilegt og fullkomlega óeðlilegt að grípa inn í samningaviðræður á þennan hátt.