12.12.1985
Neðri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

174. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Við setningu fyrstu laga um heilbrigðisþjónustu nr. 6 frá 1973, sem öðluðust gildi 1. jan. 1974, var gert ráð fyrir því að langan tíma gæti tekið að byggja upp kerfi heilsugæslu samkvæmt þeim lögum. Var því veitt ótímabundin heimild til að reka áfram þar sem heilsugæslu yrði komið á fót þá starfsemi sem fyrir var, þ.e. heilsuverndarstarf samkvæmt lögum frá 1955 svo og starfsemi læknastöðva sem ráðuneytið viðurkenndi sem slíkar. Helguðust þessar bráðabirgðaundanþágur af því að í lögunum var lögð aðaláhersla á uppbyggingu heilsugæslustöðva úti á landsbyggðinni og því væri óvíst hvenær fé yrði varið til uppbyggingar t.d. á höfuðborgarsvæðinu og öðrum stærri þéttbýlissvæðum.

Við heildarendurskoðun heilbrigðisþjónustulaganna, sbr. lög frá 1978, var ekki hróflað við þessu bráðabirgðaákvæði og ekki sett tímamörk á fresti, en það var hins vegar gert við aðra heildarendurskoðun, sbr. lög frá 1983, en þar var sett í bráðabirgðaákvæði að kerfi heilsugæslu skyldi komið á á landinu öllu fyrir árslok 1984.

Sumarið 1984 var skipuð nefnd til þess að endurskoða ákvæði heilbrigðisþjónustulaganna sérstaklega með heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu í huga. Niðurstaða þessarar nefndar lá ekki fyrir fyrir síðustu áramót og þess vegna var gripið til þess ráðs að lengja áðurnefndan frest til n.k. áramóta gagnvart Reykjavíkurlæknishéraði og heilsugæsluumdæmum í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Á öðrum svæðum var heilsugæsla þegar komin í samræmi við lögin.

Á þeim tíma sem liðinn er síðan tillögur komu frá þessari nefnd hefur því miður ekki unnist tími til þess að fullvinna þær þannig að þær séu tilbúnar til flutnings á Alþingi. Með skírskotun til þessa er þess vegna nauðsynlegt að framlengja enn um eitt ár umræddan frest í ákvæðinu til bráðabirgða í lögum um heilbrigðisþjónustu vegna heilsugæsluumdæmanna á höfuðborgarsvæðinu sem ekki hafa þegar tekið upp heilsugæslukerfið að fullu.

Ég legg því til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. heilbr.- og trn. og 2. umr. að sjálfsögðu og leyfi mér að óska þess að þar geti orðið skjót afgreiðsla málsins þar sem frv. þarf að ná fram fyrir þinghlé ef ekki á að myndast utanlagaástand á þessu svæði því vitanlega verður heilsugæslu á umræddu svæði ekki komið í annað horf á nokkrum dögum.