12.12.1985
Neðri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (1163)

174. mál, heilbrigðisþjónusta

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að gagnrýna að þetta frv. skuli vera komið svo seint fram eins og raun ber vitni um vegna þess að hæstv. ráðh. hefur verið ljóst um nokkurra vikna skeið að hún mundi ekki koma fram frv. um breytingar á heilbrigðisþjónustulögunum sem næði afgreiðslu fyrir áramót. Þess vegna var í rauninni ljóst fyrir löngu að það hefur verið vilji ráðherrans að það ætti að fresta gildistöku heilbrigðislaganna nýju fyrir Reykjavík, Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Ég vil mótmæla þessu sérstaklega. Enn fremur vil ég benda á nokkur atriði, herra forseti, varðandi þetta mál.

Það var, eins og hæstv. ráðh. gat um, árið 1974 sem sett voru lög um heilbrigðisþjónustu. Þau voru síðan endurskoðuð undir forustu þáv. heilbrrh. Matthíasar Bjarnasonar á árunum 1976-1978. Niðurstaða endurskoðunarinnar var að ráðuneytið gafst upp á að fella Reykjavík, Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð undir nýja heilsugæslukerfið. Í staðinn var framlengt þar gamla ástandið varðandi heilsuverndarstöðvar. Það var þess vegna ekki fyrr en á árinu 1980 að sett var í gang markviss vinna við að tryggja að heilsugæslukerfið gæti tekið gildi í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Á árinu 1982, í ársbyrjun, var gengið frá ítarlegu nefndaráliti og samningum við alla aðila, m.a. Heimilislæknafélag Reykjavíkur, um að unnt yrði að taka nýja heilsugæslukerfið upp á Reykjavíkur- og þéttbýlissvæðinu fljótlega eftir að sá samningur lá fyrir.

Það var á grundvelli þessa samnings að í heilbrigðislögunum sem samþykkt voru á þingi vorið 1983 var ákvæðið um aðlögunartíma í Reykjavík og nágrenni þar tímasett með ákveðnum hætti og miðað við að heilsugæslukerfið ætti að taka gildi í ársbyrjun 1985. Núverandi ríkisstjórn kaus hins vegar, því miður, að kasta þessari miklu vinnu, sem unnin hafði verið, þessum samningum sem höfðu náðst við Læknafélag Reykjavíkur og fleiri aðila, fyrir róða og af þeim ástæðum var það sem fyrrv. heilbrrh. Matthías Bjarnason flutti í fyrra frv., sem er svipað frv. sem hér liggur fyrir, um að fresta þessu enn um eitt ár. Um leið og hæstv. ráðh. mælti fyrir því frv. lýsti hann því yfir að hann mundi ekki fara fram á það við Alþingi að það framlengdi frestinn einu sinni enn að því er varðar þéttbýlissvæðin.

Vissulega stóð hann við það vegna þess að hann gekk úr stól heilbrrh. um miðjan októbermánuð og ný ráðherra tók við. Þá lá fyrir nefndarálit frá nefnd sem hæstv. ráðherra Matthías Bjarnason hafði skipað á árinu 1984. Sú nefnd lagði til nokkrar breytingar á lögunum um heilbrigðisþjónustu og þær breytingar höfðu legið fyrir um þó nokkurt skeið hjá hæstv. ráðh. Matthíasi Bjarnasyni, en hann hafði ekki haft fyrir því að kynna málið fyrir samflokksmönnum sínum hvað þá heldur öðrum samstarfsaðilum í ríkisstjórn. Þess vegna kemur núverandi hæstv. ráðh. að þessu máli sennilega ókunnur með öllu.

Ég held að það sé hins vegar rétt að gera sér grein fyrir því að heilsugæslukerfið nýja er ódýrara fyrir ríkið en heilsuverndarkerfið sem enn er í gildi. Það liggja fyrir alveg óyggjandi upplýsingar um að það er ódýrara. Fyrst á árinu 1983 samþykkti ríkisstjórnin að þetta kerfi yrði tekið upp í Reykjavík og þannig létt kostnaði af ríkissjóði, en um leið samþykkti ríkisstjórnin að ríkissjóður skyldi taka þátt í heimilishjálp fyrir aldraða. Var talið að þarna væri um að ræða nokkurn veginn jöfn skipti, annars vegar af hálfu ríkisins og hins vegar af hálfu sveitarfélaganna. Ég man eftir því að forráðamenn Reykjavíkurborgar á þeim tíma töldu að þeir útreikningar sem þarna lágu fyrir, annars vegar á kostnaði við heilsugæsluna og hins vegar á kostnaði við heimilishjálp fyrir aldraða, væru í raun og veru réttir. Þeim mun sérkennilegra er það, úr því að þetta er ódýrara og hagkvæmara fyrir ríkið, að núverandi ríkisstjórn skuli þráast við að koma þessu nýja kerfi í gagnið með þeim hætti sem hér liggur fyrir. Ég tel þess vegna fyrir mitt leyti að það sé alger óþarfi að samþykkja þetta frv., það sé hægt þegar á næstu dögum, sem eftir lifa af þessu ári, að undirbúa nýtt heilsugæslukerfi í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ og ganga þannig frá hnútunum að nýja kerfið tæki gildi um áramótin. Þess vegna tel ég, eins og Adda Bára Sigfúsdóttir borgarfulltrúi tók fram á fundi með þingmönnum Reykvíkinga fyrir nokkrum dögum, að það sé í raun og veru alger óþarfi að samþykkja þetta frv. Nýju lögin eigi að taka gildi fyrir Reykjavík þannig að Reykvíkingar, Garðbæingar, Kópavogsbúar og Hafnfirðingar geti fengið það heilsugæslukerfi sem aðrir landshlutar hafa búið við um margra ára skeið, sennilega bráðum í áratug.

Það er sérkennilegt að loka hinu nýja heilsugæslukerfi fyrir Reykjavík enn eitt árið, eins og hér er lagt til, eingöngu vegna þess að mínu mati að takmarkaður lítill hópur í flokki hæstv. ráðh. þolir ekki þau félagslegu sjónarmið sem heilsugæslukerfið byggir á. Þó ber að taka það fram, úr því að ég segi þessi orð, að margir af flokksmönnum hæstv. ráðh. hafa stutt þetta nýja heilsugæslukerfi með ráðum og dáð og áttu m.a. aðild að samningu frv. um heilbrigðisþjónustuna á árinu 1973.

Við munum veita því athygli, þm. Reykjavíkur, í sambandi við þetta mál hvernig þingmaður Framsfl. í Reykjavík tekur afstöðu til þessa frv. Það vill svo til að enn þá á Framsfl. einn þm. í Reykjavík og á Reykjanesi. Það er sjaldgæft að það skipti í raun og veru miklu máli hvorum megin hryggjar þeir liggja eins og staðan er núna, en við munum fylgjast grannt með því hvort það verður samhengi á milli afstöðu framsóknarmanna til þessa máls og í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem framsóknarmenn hafa lagt áherslu á að nýja heilsugæslukerfið gæti tekið gildi.

Ég vil biðja þá heilbr.- og trygginganefndarmenn sem hér eru, t. d. þá stjórnarliða sem sitja á móti mér og mér á hægri hönd, að kanna þetta mál rækilega. Staðan er þannig að nýja heilsugæslukerfið er ódýrara fyrir ríkissjóð en núverandi fyrirkomulag. Ég gæti trúað að það munaði verulegum fjárhæðum, kannske á bilinu 100 til 200 millj. kr. Mér finnst það skrýtið að menn, sem eru að reyna að krækja ríkissjóði saman um þessar mundir og gengur erfiðlega, skuli ætla að binda honum aukabagga með því að láta gamla kerfið gilda áfram í Reykjavík um leið og ríkið borgar hlut í heimilisþjónustu fyrir aldraða samkvæmt lögum um málefni aldraðra sem sett voru á sínum tíma. Ekki einasta gerist það að ríkið er hérna með dýrara kerfið áfram heldur borgar það líka heimilisþjónustuna fyrir aldraða sem átti að koma á móti þeirri kostnaðarlækkun sem meiningin var að kæmi út úr þessu dæmi fyrir ríkið. Ég segi alveg eins og er að ég held að hér séu hv. stjórnarliðar að fara fram með mál að óþörfu. Ég held að það sé hægt að láta nýja kerfið taka gildi. Það er ódýrara fyrir ríkið alveg tvímælalaust og ég held að í þeirri stöðu sem fjárlögin eru í núna séu það a.m.k. fullgild rök.

Ég mun sem sagt greiða atkvæði gegn þessu frv. þegar það kemur til meðferðar, ef það kemur til meðferðar hér, eftir 2. umr.