12.12.1985
Neðri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

174. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég verð að segja að afstaða hv. 3. þm. Reykv. kemur mér afar mikið á óvart. Sjálfur sat hann í stól heilbr.- og trmrh. í fjögur ár næstum því og sá ekki ástæðu til að koma þessu kerfi á.

Hv. þm. heldur því fram að fyrirkomulagið sé ódýrara. Vera má það. En það kostar hins vegar töluvert að koma því á. Ef hv. þm. telur að núna sé tíminn til þess er það auðvitað hans mál, en ég hygg að Reykvíkingar séu almennt ekki á þeirri skoðun né heldur borgarfulltrúar. Ég held meira að segja að sá borgarfulltrúi sem hann vitnaði til áðan hafi skilið að slíkt gerðist ekki með einni handarvendingu þó svo að það geti verið markmið að koma þessu fyrirkomulagi á. Það er annað mál.

Alþingi þekkir það af margra ára reynslu og ekki síst hv. 3. þm. Reykv. að þetta er mál sem ekki gerist í einni svipan. Enn fremur var hv. þm. fullkunnugt um að það var verið að vinna að því að reyna að breyta þessari skipan, en til þess gafst ekki tími endanlega, eins og ég skýrði frá áðan. Hann benti einnig á það sjálfur í umræðum nú á dögunum að ef það hefði ekki tekist væri nauðsynlegt að framlengja bráðabirgðaákvæðið. Það eina sem þyrfti væri að afstaða væri tekin í aðra hvora áttina.