12.12.1985
Neðri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (1165)

174. mál, heilbrigðisþjónusta

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er ekki þægilegt, þegar verið er að fjalla hér um mál, þegar hæstv. ráðherrar snúa út úr með þeim hætti sem hæstv. heilbrrh. gerði áðan með býsna blygðunarlausum hætti. Hæstv. heilbrrh. komst þannig að orði, og reyndar er hún nokkuð þekkt fyrir það í þingsölum að snúa út úr, ég hygg að hún hafi náð býsna langt í þessu efni, þegar hún sagði áðan að meðan ég var heilbrrh. hafi ég ekki séð ástæðu til að koma þessu kerfi á. Þvílíkur útúrsnúningur og þvílíkt þekkingarleysi hjá hæstv. ráðh. á því sem í raun og veru gerðist í þessu efni. Á árinu 1980 voru undirbúnir allir samningar við Reykjavíkurborg, Læknafélag Reykjavíkur, Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkrasamlag Reykjavíkur, Hafnarfjarðarbæ, Garðabæ og Kópavog um það að hið nýja heilsugæslukerfi gæti komist á - við fjmrn. líka á þeim tíma. Hérna var um að ræða undirbúning sem lá alveg ljóst fyrir að var forsenda lagasetningarinnar vorið 1983 og á þeim forsendum var bráðabirgðaákvæðið tímasett. Það var tímasett þess vegna og það mótmælti því enginn, ekki heldur hæstv. ráðh. sem mun hafa setið á Alþingi á þeim tíma. Þess vegna er það alveg yfirgengilegt að koma hér upp og segja: Þm. var ráðherra þessa málaflokks í fjögur ár, sem er reyndar misskilningur, þau munu hafa verið um þrjú, og sá ekki ástæðu til að koma þessu fram. - Ég bið hæstv. ráðh. að nefna mér einn forvera sinn annan sem vann að þessu máli með viðlíka hætti og ég gerði á sínum tíma.

Síðan segir hæstv. ráðh., sem sýnir bersýnilega að hún er ekki inni í þessum málum, að það sé mikill kostnaður við að koma kerfinu á. Það er rétt. En í þeim samningum sem gerðir voru við fjmrn. og aðra aðila var líka gert ráð fyrir þessum kostnaði og þrátt fyrir þennan kostnað var ljóst að nýja kerfið er ódýrara fyrir ríkið en gamla kerfið. M.a. lágu fyrir samningar um það, og á því byggðist samningurinn við Heimilislæknafélag Reykjavíkur, að ríkið legði fram nokkra fjármuni vegna lífeyrisréttinda heimilislækna sem ekki hafa átt aðild að neinum lífeyrissjóði. Þeir töldu að þar væri um mjög mikilvægan áfanga að ræða. Inni í þeim kostnaðar- og sparnaðartölum sem ég var að tala um áðan var því auðvitað gert ráð fyrir þeim kostnaði sem kerfisbreytingin leiddi af sér. Þess vegna held ég að hæstv. ráðh. og hv. þm. í heilbr.- og trn. þurfi að kanna þetta mál miklu betur.

Ég vil fara fram á það við hv. heilbr.- og trn. að hún kalli fyrir í þessu máli ekki aðeins heilbrrn. heldur líka fulltrúa frá Reykjavíkurborg og ekki aðeins fulltrúa meiri hl. heldur líka borgarfulltrúa eins og Öddu Báru Sigfúsdóttur og það verði líka kallaðir fyrir fulltrúar Heimilislæknafélags Reykjavíkur sem unnu að þessu máli á sínum tíma og gerþekkja það. Ég tel að það sé algert lágmark, miðað við það sem fram kom í máli hæstv. ráðh. áðan, að þm. sem í nefndinni eru kynni sér þetta mál betur. Ég er ekki að áfellast ráðherrann fyrir að vera ekki kominn fyrir hverja vík í þessum málaflokki, en ég er að fara fram á að menn vandi sig við að fara yfir þetta mál og ég hygg að við slíka vandlega yfirferð muni menn komast að þeirri niðurstöðu, sem m.a. Adda Bára Sigfúsdóttir benti okkur á á fundi með þm. Reykv. um daginn, að það er unnt að láta nýja heilsugæslukerfið taka gildi frá og með næstu áramótum. Það er allt tilbúið til þess.

Umr. (atkvgr.) frestað.