12.12.1985
Neðri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

173. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti, góðir áheyrendur. Allt frá því að núv. ríkisstj. tók við völdum höfum við Alþýðubandalagsmenn bent á að kjaraskerðing launafólks stafaði hvorki af aflabresti né iðjuleysi landsmanna heldur af því að afrakstur af vinnu þeirra hefur verið fluttur til í þjóðfélaginu, fluttur til þeirra manna sem einskis fjár afla, fjárglæframanna þjóðfélagsins. Hafskipamálið er aðeins eitt dæmi um þetta, e.t.v. óvenjulega ruddalegt, þar sem allt virðist fara saman, svo að orð fyrrverandi starfsmanns fyrirtækisins Hafskipa séu notuð, „mikilmennskubrjálæði, græðgi einstaklinga og tækifærismennska“.

En um sök þessara manna munu aðrir dæma. Sök hins háa Alþingis liggur hins vegar hér í þessum sal. Og Alþingi er sinn eigin dómari hverju sinni. Það er hlutverk hv. alþm. að sjá svo til að fjárglæfrar af þessu tagi geti ekki átt sér stað. Alþingi verður nú að horfast í augu við þá ísköldu staðreynd að örfáir fjárglæframenn hafa farið þannig með fé almennings að einn ríkisbankanna, og einmitt sá sem að verulegu leyti á að styðja við bakið á lífsakkeri þjóðarinnar, sjávarútveginum, stendur nærri gjaldþroti. Á þriðja hundrað manns hafa misst vinnu sína. Mikilmennskubrjálæði, græðgi einstaklinga og tækifærismennska örfárra manna er ekki öli skýringin á þessum skelfilegu mistökum. Vanþekking og fáfræði um peningamál er meginorsökin, óhæfni þeirra sem fyrirtækið ráku og vanþekking og ábyrgðarleysi stjórnenda bankans og valdhafa. Vanhæfni valdhafa við stjórnun peningamála kemur enda fram í ófullnægjandi löggjöf sem veldur því að slíkir atburðir sem viðskipti Hafskipa og Útvegsbankans geta átt sér stað.

Það er því skylda Alþingis nú að horfast í augu við sjálft sig og ræða af fyllstu alvöru hvernig koma megi í veg fyrir að þeir gerist aftur. Þjóðarbúinu er enginn greiði gerður með því að þeir alþm. sem gerst hefðu átt að fylgjast með þessu máli standi hér og segi ósatt um eigin ábyrgð. Ábyrgð þeirra er mikil. Og ábyrgð hinna einstöku stjórnmálaflokka hér á hinu háa Alþingi er vitanlega í réttu hlutfalli við völd þeirra nú og á liðnum árum.

Það þarf því engan að undra þó að spjótin beinist nú að stærsta stjórnmálaflokki landsins, Sjálfstfl., sem haft hefur töglin og hagldirnar í stjórn landsins lengst af. Í skjóli hans, þ.e. valdaklíku flokksins, hafa þessi fjársvik verið framin. Hjartnæmar uppákomur einstakra ráðherra þess flokks um eigið sakleysi eru einungis aumkunarverðar. Og enn þá siðlausara er að heyra fulltrúa samstarfsflokksins í ríkisstj., Framsfl., hreykja sér af því að þetta hneykslismál sé utan vitundarsviðs þeirra.

Þjóðin á ekki að láta blekkjast. Hún á að krefjast þess að þessi meðferð peningamála verði stöðvuð og til þess þarf hún að reka þessa valdaklíku frá völdum. Setja þarf tafarlaust lög um hámark útlána bankanna sem miðist við eiginfjárstöðu hverju sinni. Þetta höfum við Alþýðubandalagsmenn löngum lagt til.

Lagt hefur verið fram frv. um að bankaeftirlitið verði leyst úr viðjum Seðlabankans og gert að sjálfstæðri stofnun sem sé ábyrg fyrir ríkisstj. allri og mun ég mæla fyrir því á allra næstu dögum. Endurskoða þarf lög um Seðlabanka Íslands og ekki síst þarf að afnema svokallaða bankaleynd að svo miklu leyti sem unnt er. Landsmenn eiga rétt á að vita hvar það fé er sem þeir afla.

Meðan bankaráðsmenn eru bundnir þagnarskyldu um stöðu bankanna er fráleitt að alþm. eigi sæti í bankaráðum og reyndar hvaða fulltrúi stjórnmálaflokks sem er. Meðan þeir eru ófærir um að veita Alþingi upplýsingar er gagnslaust að kjósa fulltrúa þess hér í þessum sal. Ég mun ekki taka þátt í slíkri atkvæðagreiðslu sem nú fer fram á næstu dögum þar sem ný lög um viðskiptabanka, sem taka gildi 1. janúar, herða enn ákvæði um bankaleynd.

Samtryggingu flokkanna um ráðningu í stöður bankastjóra verður að afnema. Í æ flóknari viðskiptaheimi verður þekking og hæfni manna ein að ráða. Þrautseigja við atkvæðasmölun í kosningum nægir ekki sem undirbúningur undir bankastjórastörf í nútíma viðskiptaheimi. Gjaldþrotamál Hafskipa er skólabókardæmi um vanhæfni allra viðkomandi aðila, bankastjóra, bankaráðsmanna, endurskoðenda, að ekki sé talað um hina glötuðu snillinga sem Hafskipum stjórnuðu. Ekkert af þessu fólki hefur gripsvit á meðferð peningamála né rekstri fyrirtækja og þegar í óefni er komið hlífir hver aðilinn öðrum í niðurlægingu sinni og smán. Jafnvel bankastjórar Seðlabanka Íslands leyndu viðskrh. vísvitandi upplýsingum um yfirvofandi gjaldþrot Útvegsbanka Íslands.

Á þessum desemberdögum erum við að afgreiða fjárlög. Þegar liggur fyrir að allt sem til heilla má verða fyrir launþega landsins og fjölskyldur þeirra verður skorið niður við trog. Það verður að finna hundruð milljóna króna í sameiginlegum sjóði landsmanna til að greiða spilaskuldir glaumgosanna. Konurnar sem þrífa salinn þegar þessum fundi lýkur, verkafólkið í frystihúsunum og verksmiðjunum, kennarar, listamenn og skrifstofufólk fær spilaskuldir þeirra í jólagjöf frá stjórnvöldum landsins.

till. til þál. sem hér er rædd er að því leyti frábrugðin tillögu okkar Alþýðubandalagsmanna að í okkar till. er gert ráð fyrir sérfræðiaðstoð eftir þörfum. Og ég vil leggja sérstaka áherslu á að þrautreyndir endurskoðendur, e.t.v. erlendir, verði ráðnir til verksins með nefndinni sem skipuð yrði.

Í þessu máli er nóg komið, herra forseti, af pólitískri spillingu, vanþekkingu á innlendum og erlendum viðskiptamálum og einstaklega ósmekklegri tilfinningasemi einstakra ráðherra til að firra a.m.k. sjálfa sig eigin ábyrgð. - Ég þakka þeim sem hlýddu.